28.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Júlíus Havsteen:

Það er eins og hv. framsögum. segir, að orðið hefir ágreiningur í nefndinni út af 5. gr.

Við meiri hlutinn vorum þó líka í efa um, hvort rétt væri að sþ. 3. gr., gátum ekki séð að svo mikið gagn væri að þeim dýrindis gangstéttum, og því síður sem þessi kvöð kemur allhart niður á lóðaeigendum.

En við gengum þó inn á að sþ. þetta, þegar borgarstjórinn gaf okkur þær upplýsingar, að þessar stéttir yrðu mjög ódýrar. Ekki nema 56 aura á hverja alin, þegar steinninn væri 1 alin.

Aftur vorum við alveg mótfallnir því að 5. gr. stæði. Við þekkjum betur til hér í bæ en hv. framsögum. Það er mjög oft ekki hægt að fá menn til vika, og þó loforð fáist, þá má búast við að maðurinn komi ekki að heldur, og verður maður þá að gera verkið sjálfur, og auk þess kosta svona aukaverk töluvert fé.

Þar sem svo stendur á, sem víða er, að að eins er ein vinnukona hjá fjölskyldu, þá hefir hún nóg að gera, þó ekki standi hún úti daglega við mokstur. Öðru máli væri að gegna um verzlanir, þar sem eru þjónar á hverjum fingri, þær gætu látið moka.

Svo eru þessar stéttir að jafnaði ekki nema öðru megin á götunum, en sumar götur eru svo, að þar verður ekki komið fyrir gangstétt.

Það mætti næstum kalla þetta hálf lúalegt af bæjarstjórninni, að vilja ekki hreinsa gangstéttirnar, þegar hún lætur hvort sem er hreinsa göturnar og rennurnar, og þetta er því mjög kostnaðarlítið fyrir hana.

Það mundi vekja almenna óánægju í bænum, ef þetta fengi fram að ganga.