25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

120. mál, farmgjald

Sigurður Hjörleifsson:

Eg átti ekki von á því áður, að þurfa að taka aftur til máls við þessa umræðu. Eg þóttist ekki stilla orðum mínum svo ógætilega að þau þyrftu að reita goðin hér í deildinni til reiði. Eg sé þó að það hefir ekki tekist að komast hjá því, og veit ekki hvort mér kann að takast það nú.

Það var fyrst að mér fundið, að eg væri að brosa. Mér datt í hug sagan af skólapilti, sem var ásakaður fyrir að hlæja; en hann sagði: „Eg hló ekki, en nú fer eg að hlæja“. Það er erfitt að lifa, ef ekki má svo mikið sem brosa. Eg skal játa það, að mér liggur við að brosa að þeirri tilgátu, — að það mundi þurfa 2-3 hundruð tollgæzlumenn til þess að sæmilegar tekjur fáist af þessum lögum, sem hér er um að ræða. Þetta er alt of mikil grýla og hégómleg og hefði sízt átt að koma úr þessari átt, frá hv. ráðherra.

Eg kannast við, að eg hefi litið svo á að fjárhagur landsins væri ekki afar slæmur. En eg veit ekki betur en að allir hafi verið sammála um það, að það væri ekki hægt að verða við réttmætum og nauðsynlegum fjárkröfum á þessu þingi, nema með auknum tekjum. Eg hefi aldrei sagt, að fjárhagurinn væri afarslæmur, aðeins hitt, að hann væri ekki svo góður, að ekki þurfi neitt úr að bæta. Þetta kannast eg við og stend við það. Og eg tel rétt að hvetja þjóðina til að láta sér ekki vaxa mjög í augum auknar álögur, því að auðvitað er þeim varið, eða á að vera varið allri þjóðinni til hags og blessunar. Eg nefndi ekki ættjarðarást í sambandi við neinn sérstakan, ekki af því að eg efi það að slíkt orð mætti nota í sambandi við háttv. deildarmenn, en orð mín féllu ekki svo. Þetta var aðeins blátt áfram talað, en ekki meint til neins sérstaks manns og eg skil ekki hvernig nokkur hefir getað firzt við þessi ummæli. Eg var mótfallinn að grípa til þeirra örþrifaráða til þess að auka tekjur landsjóðs, að fresta lögum, sem ? kjósenda hafa óskað eftir; eg skil ekki annað en að nógir vegir aðrir séu til þess að afla landsjóði tekna. Og eg sé ekki neina ástæðu til þess að bera menn bríxlum fyrir það, að svo skipaðist í neðri deild um bannfrestunarmálið, sem reynslan sýndi; og vel væri, ef við tækjum upp þann góða sið, að tala kurteislega um hina deild þingsins og vera ekki með getsakir í garð einstakra manna þar. Mér finnst það miður þingleg ummæli að vera að tala um „draumóra hálfvitlauss manns“ í þessu sambandi.

Það hefir verið fundið að þessu frumv. að það væri ekki hægt að segja um það með neinni vissu, hvað mikið það mundi gefa af sér. Þetta er satt, en alveg það sama má segja um tolla þá, sem nú eru. Það er aldrei hægt að segja um það fyrirfram, hve miklu þeir muni nema á þessu og þessu fjárhagstímabili. t. d. má benda á það að vínfangatollur var áætlaður 560 þúsund krónur á fjárlögum þeim er samþykt voru á síðasta þingi. Sú áætlun var gerð hér í efri deild og mátti heita afar varleg, samanborin við þær vonir, er stjórnin hafði gert sér um þenna tekjuauka. Efri deild færði þá áætlunina mikið niður, en samt er sagt að tekjurnar hafi reynst 100 þúsund krónum undir áætlun árið 1910. Þetta er gott dæmi þess, að það er ekki gott að segja það fyrirfram, hvað miklu slíkar tekjur muni nema. En hinsvegar getur engum blandast hugur um það, að tekjur af þessu frumvarpi mundu verða allverulegar. Að vísu eru ekki til nema ófullnægjandi skýrslur um aðfluttar vörur til landsins, en svo ábyggilegar eru þær þó, að það má segja með fullri vissu, að tekjuaukinn verði svo mikill, að fjárhagnum megi heita borgið með honum.

Háttv. 4. k. k. þm. hneykslaðist á því að eg gat þess, að tollsvik mundu vera farin að eiga sér stað hér á landi. Eg vil benda á það, að hann skaut inn í orðunum: „Nema vindlum“. Hann viðurkennir því að tollsvik á vindlum munu eiga sér stað, enda mun það vera almannarómur. En eg get alveg eins nefnt aðrar tollvörur og styðst einnig við almannaróm. Mér er engin launung á því, að í minni sveit er það almannarómur, að á Siglufirði séu þessar tollvörur, sem eg nefndi, fluttar inn tolllausar á sumrum, og svo kann að vera víðar. Hve mikil brögð eru að þessu, get eg ekki sagt, en um þetta ættu lögreglustjórarnir reyndar helzt að vita og hafa betra eftirlit á þessu.

Það er hægt að slá slíku fram, að lögin myndu verða óframkvæmanleg, en það sannar ekkert, og hitt þykir mér ekkert undarlegt, þótt sumir kaupmenn og verzlunarstjórar séu mótfallnir slíkum lögum. Þeir vilja auðvitað losna við þau af skiljanlegum ástæðum. En eg álít ekki að umsögn þeirra sé nein sönnun fyrir því, að lögin séu óframkvæmanleg. Tolllög eru í mörgum löndum mjög flókin, og hlutaðeigandi embættismenn þurfa oft mikið á sig að leggja, til þess að framfylgja þeim, svo í góðu lagi sé. En þar sem háttv. 4. k.k. talaði um að skip hefðu ekki svo vel útbúin skjöl, sem þyrfti, skal eg benda á ummæli því viðvíkjandi í Hages „Håndbog i Handelsvidenskaben“ bls. 218. „Loks er það skylda skipstjóra að sjá fyrir hinum nauðsynlegu farmskjölum, sem fylgja eiga farminum. Þau eru: Leigusamningur, farmskírteini (Connossement) og sérílagi farmskrá, einkum þegar er að ræða um stykkjavöru og skal þar gerð fullkomin upptalning á öllum þeim vörum, sem fluttar eru á skip. Þar sem farmskrá þessi er grundvöllurinn undir tollgreiðslu, þar sem affermingin fer fram, verður hún að semjast með mestu nákvæmni. Annars á skipstjóri á hættu að verða sektaður og að vörur þær, sem eigi eru nefndar á farmskránni, verði gerðar upptækar“.

Þetta er bók, sem við allir þekkjum og er mikils metin, og ummælin benda í þá átt, að farmskrár muni ekki vera svo ónákvæmar, að þeirra verði ekki fullsæmleg not til þessa.