14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

65. mál, fátækralög

Jón Magnússon:

Þetta frv. fer fram á það að kippa burtu takmörkun þeirri, sem 77. gr. fátækralaganna setur fyrir landssjóðsstyrk. Nái frumv. óbreytt fram að ganga, verður ekki fyrir séð, hve mikið landssjóður þurfi að greiða fyrir sjúkrahússvist þurfalinga, en það yrði mjög mikið. Ef á að fara að breyta 77. gr. fátækralaganna, væri fremur farandi sú leið sem br.till. á þgskj. 213 fer. Réttast væri þó að vísa málinu til aðgerða stjórnarinnar.

Það er rétt hjá háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) að mjög lítur út fyrir það, að sveitirnar misbrúki heimild 77. gr. Á spítala hafa verið látnir sjúklingar með kroniskum sjúkdómum, sem landssjóður hefir orðið að greiða fyrir hátt upp í 1.000 kr. á ári. Nýlega hefir landssjóður orðið að greiða fyrir einn sjúkling í á 2. ár talsvert á 2. þús. kr., og hefði þó ekki verið þörf að láta þennan sjúkling á spítala.

Það var tilætlun þeirra, sem upphaflega sömdu uppkastið til fátækralaganna, að þessi styrkur kæmi helzt smásveitunum að verulegum notum og því var styrkurinn miðaður við 2 sjúklinga En það var ekki ætlast til þess að styrkurinn rétti til núna í kaupstöðunum eða hinum öðrum stærri sveitafélögum. Ef sveitarfélag hefði rétt til þess, að láta sjúklinga á útlend sjúkrahús, þá gæti slíkt bakað landssjóði ófyrirsjáanlegan kostnað, sem landsstjórn eða Alþingi ætti að hafa eitthvert atkvæði um. Eg álít það miklu betur til fallið, eins og verið hefir að leitað sé til Alþingis um styrk í slíkum einstökum tilfellum.

Viðvíkjandi br.till. á þgskj. 211, verð eg að geta þess, að mér þykir varhugavert að létta af dvalarsveitunum þeim þriðja hluta, er þeim ber að greiða með þurfamönnum annara sveita. Það er hætt við, að dvalarsveitin muni reyna að losa sig við þenna 1/3 með því að koma þeim þurfalingum á sjúkrahús, sem ekki hafa þess beina þörf, þótt veikir kunna að vera annars.

Ef menn vilja breyta 77. gr. laganna, álít eg heppilegast að vísa málinu til stjórnarinnar, ella samþykkja br.till. háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) á þskj. 213, því að þar með er fengin trygging fyrir því, að heimildin verði síður misbrúkuð.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) talaði um getsakir. Eg held nú, að þeir, sem hafa haft afskifti af framfærslumálum, hafi oft rekið sig á það, að allra heiðarlegustu menn, menn sem annars vilja ekki vamm sitt vita, hafa einmitt í slíkum málum gert sig seka í slíku atferli, til þess að losa sveit sína við byrði, að varla mundi annars talið sæmilegt.