13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

79. mál, bannlögin, viðauki

Flutningsm. (Guðlaugur Guðmundsson):

Það er ógnarlega stutt og meinlaust frumv., sem hér liggur fyrir, og eg vona að það veki ekki verulegar umræður. Eins og frv. ber með sér, fer það fram á að stjórninni veitist heimild til að flytja inn vínföng til tíðkanlegrar móttökuviðhafnar, er hún sjálf eða Alþingi gengst fyrir, og að þessi heimild veitist til 1. jan. 1915, eða meðan leyfilegt er að viðhafa vínföng hér á landi. Eg býst ekki við, að eg þurfi að færa margar ástæður fyrir þessu, og að menn hafi þegar gert sér ljóst, hvort þeir geti fylgt frumv. eða ekki. Stjórnin er sett í æði mikinn vanda, er hún á að taka á móti útlendum gestum, því að meðan nágrannalöndin eru ekki lengra á veg komin í bindindisáttina en raun er á, má búast við, að viðtökurnar þyki ekki sæmilegar nema vín sé um hönd haft. Hins vegar má búast við því, að hér á landi fáist ekki þau vínföng, sem brúkleg eru til þessa. Og þó að þau fengjust, yrði stjórnin að sæta afarkostum með verðið. Það gæti því orðið dálítill fjársparnaður fyrir landssjóð ef frumv. yrði að lögum. Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða um þetta, en bíða átekta og vita hvernig tekið verður í málið; vildi eg að umræðurnar yrði sem styztar.

Áður en eg sezt niður vil eg benda á það sama, sem eg tók fram undir umræðunum um fyrirspurnina, að þeir vinna ekki bannlögunum mest gagn, sem beita alt of miklum einstrengingsskap um framkvæmdirnar meðan verzlun með áfengi er á annað borð leyfð í landinu Eg sé enga ástæðu til nefndarkosningar í málið, en óska að því verði leyft að ganga til 2. umr.