15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

Fyrsti fundur í sþ.

Jens Pálsson:

Viðvíkjandi hinni hóflegu rœðu hins háttv. manns, sem hjer er mættur sem þm. V.-Ísaf., vildi eg aðeins taka það fram, að eg álít hann vaxinn upp úr því, að hafa stuðlað að tvíbrotnu seðlunum, en úrskurðurinn um þá getur ekki hafa verið kveðinn upp fyr en eftir að búið er að steypa saman seðlunum úr kjörskrínum hreppanna ofan í hið stœrra ílát, sem seðlunum er helt í til að hrœrast þar saman, — og ekki fyr en fyrsti tvíbrotinn seðill er tekinn upp úr því íláti til álita. Kjörstjórarnir horfa nú á, er úr er steypt skrínum hinna einstöku hreppa og sjá, hvernig seðlarnir líta út úr hverjum hreppi fyrir sig, er þeir hrynja í hið stærra ílát og liggja þar ofan á. Glöggur kjörstjóri, er gefur þessu gætur, veit því úr hvaða hrepp er mest af margbrotnu seðlunum. (Guðl. Guðmundsson, Stefán Stefánsson, 5. kgk. o.fl.: „Ómögulegt“). Jú, víst er það mögulegt, og meira að segja sjálfsagt og auðsætt. Hitt segir sig sjálft, að þingmannsefnin vita líka manna best, hvernig fylgi þeirra muni vera háttað í hinum einstöku hreppum. Má hver maður af þessu sjá, hve óviðeigandi og óhæfilegt það er, að þingmannsefnin sitji að nauðsynjalausu í yfirkjörstjórn, eins og átti sjer stað í þessu tilfelli.

Þegar hjer var komið umræðunum, kom fram tillaga frá 9 þingmönnum um að nú skyldi umræðunum hætt. Voru undir hana skrifaðir þessir þingmenn:

Jón Ólafsson,

Guðlaugur Guðmundsson,

Valtýr Guðmundsson,

Pjetur Jónsson,

Sigurður Stefánsson,

Jóhannes Jóhannesson,

Jón Jónsson, 2. þm. Rvk.,

Ágúst Flygenring,

Eggert Pálsson.

Tillagan var samþykt og síðan gengið til atkvœða.

Kjördeildin hafði lagt til, að kosning Björns Jónssonar, þm. Barðstr. yrði tekin gild, og var það samþ. með öllum greiddum atkv.

Um kosningu Matthíasar Ólafssonar, þm. V,-Ísaf. hafði kjördeildin lagt til, að frestað yrði að taka ályktun um hana, og málinu vísað til þartil kjörinnar nefndar.

Tillaga kom fram frá Birni Jónssyni, þm. Barðstr. um, að kosning Matthíasar Ólafssonar væri gerð ógild, en kosning sjera Kristins Daníelssonar tekin gild. En til vara að kosningin yrði ógilt og stofnað til nýrra kosninga í kjördœminu sem fyrst.

Tillaga kjördeildarinnar var samþykt með 23 samhlj. atkv.