24.08.1912
Efri deild: 36. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Jens Pálsson:

Jeg vil taka í sama streng, sem háttv. 2 þingm. Árnesinga hvað frumv. þetta snertir.

Okkur er ekki kunnugt um ástæður til þessarar bráðu og miklu verðhækkunar á steinolíunni, en jeg hef fengið áreiðanlega skýrslu um markaðsverð á steinolíu í New York, og er hún svo:

Standard White 18/7 28/7 30/7

í fötum 8,60 8,45, 835

sama í „tanks“ 5,00 4,85, 475

sama í fötum, 40 „gallon“12,90 12,68 12,53

Er þetta í „cents“ og miðað við „gallon“, en „gallon“ er um 4 pottar.

Má því nær heita, að hjer sje svipað og aurar fyrir potta.

En jeg vil ekki dvelja við nákvæman reikning um það, en hitt er bersýnilegt, að steinolían hefur síðari hluta næstliðins júlímán. farið lækkandi í verði, og þetta er á aðalútflutningsstað hennar.

Af þessum ástæðum er það, að jeg vil taka í sama streng og hinn háttv. þingm., og jeg hygg, að það mætti breyta frumv., svo að við mætti una.

Að láta lögin gilda aðeins til ársloka 1913, tel jeg óheppilegt. Það er of stuttur tími. Ef stjórnarráðið á að útvega miklar steinolíubirgðir, þá verða þær ekki uppseldar þá, og stjórnin verður því komin upp á náðir þingsins. Þetta ákvæði hlýtur því að draga úr, — vera letjandi. —

Frumv. þetta, eins og það liggur fyrir, verður því ekki að neinu gagni, heldur öldungis gagnslaus pappírslög, sem ekki bæru neinn árangur, nema þann einan, að óróamenn og óhlutvandir gætu notfært sjer það, eða reynt að notfæra sjer það, til þess að átelja stjórnina fyrir, að hún hefði ekki notað heimildina.

Mjer blandast ekki hugur um það, að það er ekki hægt að koma verzluninni í vænlegt horf, nema samið sje fyrir langan tíma, og landið á ekki að gera það sjálft, heldur selja verzlunina á leigu.