27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

48. mál, árgjald af verslun

Þórarinn Jónsson:

Öllum kemur saman um, að brýna nauðsyn beri til þess að bæta úr fjárhaginum, hver leið sem til þess verður talin heppilegust.

Hinn háttv. flutningsm. sagði, að frv. það, er hjer liggur fyrir, kæmi jafnt niður á öllum landsins börnum, en það er nú missýning hjá hinum háttv. þm., því verkalýðurinn er að mestu laus við gjald þetta; aðalkaup hans eða verzlun er til fatnaðar, og mest af honum getur hann fengið tolllausan.

Jafnvel þó þetta misrjetti eigi sjer stað, gæti jeg þó til bráðabirgðar gengið inn á þessa leið.

En þegar til útflutningsgjaldsins kemur, horfir þetta enn ver við, því auk þess sem verkalýðurinn sleppur þar enn að mestu, nær það ekki til embættismanna eða opinberra sýslunarmanna, sem ekki þurfa annað en rjetta höndina í landssjóð og borga vörur sínar með peningum.

Skattur þessi verður líka talsvert hár, þegar þess er gætt, að kaupmaðurinn mundi leggja á vöruna fyrir innheimtu á honum, vangreiðslum og rentutapi eins mikið, eins og hann sjálfur nemur. Það mundi því láta nærri, að bóndi, sem tæki út vörur upp á 1.000 kr., yrði að greiða sem næst 70 kr. í aðflutnings- og útflutningsgjald, og er þá augljóst, hve hátt og ósanngjarnt þetta gjald er, sem aðallega lendir á heimilisfeðrum landsins, sem eru framleiðendur.

Eins og nú hagar til, stendur sjávarútvegurinn mikið betur að vígi en landbúnaðurinn. Sjávarútvegurinn hefur greiðan gang að peningum í bönkum, en það má svo heita, sem sú leið sje lokuð fyrir landbúnaðinum, og þess vegna getur landbúnaðurinn ekki framfleytt eins miklu og ella væri, og landið ekki orðið eins ræktuð. Það er því ljóst, að sjávarútvegurinn er mikið færari um að bera byrðar, og hver þeirra framleiðir meira, kemur eigi málinu við. Þó segi jeg ekki þetta af því, að jeg sje hlyntur nýjum álögum eða útflutningsgjaldi á sjávarafurðir.

Háttv. 2. þm. K.-G. taldi, að lög um útflutningsgjald af sjávarafurðum frá 1881 væru ranglát, hvað sjávarútveginn snerti, og þar væri ósamræmi á milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins, en hann gætti þess ekki, að lög þessi eru beinlínis til þess gerð, að ná gjaldi af útlendingum, er ausa upp auðsuppsprettum landsins, svo hægt væri að ná af þeim einhverjum gjöldum.

Misrjetti á sjer þar ekki stað.

Margt fleira mætti taka fram, sem athugavert er við frumv., en jeg læt hjer staðar numið að sinni.