21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

23. mál, stjórnarskrármálið

Benedikt Sveinsson:

Eg var einn þeirra fáu, sem greiddi atkvæði móti þessu frv. á síðasta þingi. Mér þótti það slíkur gallagripur, að ekki væri vert að kosta til þess aukaþingi.

Meðal þess, er mér líkaði ekki, og taldi sjálfsagt að þyrfti að breyta nú, var skipun efri deildar.

Breytingin, sem á henni var gerð, gekk í öfuga átt við það, sem átti að vera, því að skilsmunur deildanna verð­ur samkv. frumv. jafnvel meiri en er, og þó er ósamræmið nú fullkomlega nóg.

Eg sá ekki, að vit sé í að hafa svo að segja tvö þing í landinu, hvort öðru óháð, nóg er sundrungin samt — að flestra máli. Og ekki getur slíkt greitt fyrir löggjafarstarfinu. Það getur vel komið fyrir, að sinn meiri hlutinn sé ráðandi í hvorri deild, samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi og sjá allir, hversu slíkt hlýtur að hamla framgangi mála. Hvernig verður þá þingræðið? Hvora deildina á stjórnin að meta meira?

Nær hefði verið að haga svo til, að fjölmennustu kjördæmi landsins, Rvík o. fl., hefðu fengið að kjósa fleiri full­trúa og fá á þann hátt menn í stað hinna konungkjörnu. Að öðrum kosti mætti hafa alþjóðarkosning á þessum 6 mönnum í stað hinna kgkj., en fleirum ekki. Væri þá komist hjá að raska kjördæmaskipun landsins. Eg er and­vígur því, að kjördæmaskipuninni sé raskað nokkuð verulega og veit að kjördæmi þau, sem hlut eiga að máli, vilja ekki að breyting sé á þeim gerð. Fámennari héruðunum þykir brotinn réttur á sér, ef þau eru bútuð sundur eða lögð undir önnur kjördæmi. — Nú er kjördæmaskiftingin samkvæm sýslu­skiftingunum, svo að hver sýsla er kjör­dæmi um sig. Er það og réttast og eðlilegast, þar sem hver sýsla er heild fyrir sig og hefir sitt eigið héraðsvald og fjárstjórn í sínum málum. Hitt nær engri átt eftir staðháttum landsins, að skifta landinn í kjördæmi að eins eftir mannfjölda, enda þyrfti þá sífeldlega að breyta til fram og aftur, því að fólks­fjöldinn breytist margvíslega á ýmsum stöðum.

Stjórnin hefir samið frumv. um nýja kjördæmaskipun og látið fylgja stjórn­arskránni, ef til þess kæmi að hún yrði samþ. Frumvarp þetta er mesti galla­gripur og breytir kjördæmaskipun miklu meira en nauðsyn er til, slengir t. d. tveim einmennings-kjördæmum saman í eitt tveggja manna kjördæmi. Slíkt er spor í öfuga átt. Nær væri að skifta tveggjamanna-kjördæmum í eins manns kjördæmi.

Hv. þm. Dal. (B. J.) hefir breytt þessu frv. um kjördæmaskipun til mikilla bóta, frá því sem stjórnarfrv. var og líkar mér það þó ekki allskostar.

Ákvæðið um alþýðuatkv. er einn gall­inn á stjórnarskrárfrv.

Það yrði að eins til þess að minka ábyrgðartilfinningu þingsins og vekja æsingar með þjóðinni að óþörfu. Það er því með öllu ótímabært að koma slíku inn í grundvallarlög vor.

Það sem »mesti hlutinn« setur út á frv., er gagnstætt því, sem eg hefi við það að athuga. Honum finst skipun E. d. ekki nógu frábrugðin skipun N. d. Vill hafa skilsmun deildanna enn meiri. En það skil eg ekki, að þeir herrar, sem enga annmarka fundu á frv. í fyrra, og samþyktu það þá, skuli ekki vera með því nú. (Lárus H. Bjarnason: Við samþyktum frv. til að fá nýjar kosn­ingar) Ekki þurfti að samþ. frv. til að fá nýjar kosningar, því að fyr verandi ráðh., hv. þm. Borgf. (K. J.) lýsti yfir því, hér í þingdeildinni í fyrra, að hann mundi rjúfa þing, hvort sem frv. yrði samþ. eða ekki. Nei, til þess var leik­urinn ekki gerður, heldur hins af hálfu Heimastjórnarmanna, að hafa stjórnar­skrárbreytinguna til þess að »flagga« með frammi fyrir landsbúum, svo að þeir þyrftu ekki í annað sinn að ganga til kosninga með sambandsmálið í fyrir­rúmi.

Sjálfstæðismenn þóttust ætla að sam­þykka frv. óbreytt og hétu kjósendum sínum að gera það, að mér einum und­anteknum. Eg lét það ótvírætt í ljós við kjósendur, að eg vildi fá breytingar á frv. ef kostur væri. Nú er annað orðið efst á baugi hjá Sjálfstæðismönn­um; þeir virðast flestir vera búnir að gleyma loforðum sínum frá kjörfundun­um í haust.

Heimastjórnarmenn þóttust vilja sam­þykkja frv., sumir óbreytt með öllu, aðrir »með breytingum eða án þeirra«, — þar á meðal hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.). Nú eru þeir einnig horfnir frá þessu.

Til að sýna, hversu lítið bólaði á sambandslagafrv. frá 1908 við síðustu kosningar, mætti benda á, að í 5 kjör­dæmum, þar sem um 6 þingsæti var að tefla, buðu alls engir frumvarpsmenn sig fram. Þessi kjördæmi voru:

Austur-Skaftafells-sýsla (2 frambjóð­endur).

Vestur-Skaftafells-sýsla (2 frambjóð­endur).

Árnes-sýsla (4 frambjóðendur). Borgarfjarðar-sýsla (2 frambjóðendur). Norður-Ísafjarðar-sýsla (2 frambjóð­endur).

Engu að síður varð sú raunin á, að 20 þeirra manna, er náðu kosningu, voru gamlir frumvarpsmenn og hafa ýmsir þeirra vafalaust komist að, af því að þeir drógu dul á, að sambandsmálið yrði tekið fyrir fyrst um sinn og kjósendur bjuggust ekki við, að það kæmi í þeirra gerð.

Góður Húnvetningur og gegn sagði mér, að þeir heimastjórnarmenn, sem þar náðu kosningu hefðu með öllu af­sagt, að sambandsmálið kæmi til umr. á þessu þingi. Og sá háttvirti heima­stjórnarmaður, sem bauð sig fram á móti mér í Norður-Þingeyjarsýslu, taldi það ekki koma til neinna mála, að sambands­málið yrði tekið upp á næstu árum, kvaðst álíta það skaðlegt málinu sjálfu og mundi því, ef hann næði kosningu, gera sitt ítrasta til þess að afstýra því, að sambandsmálið yrði tekið upp að svo stöddu. Svona mun það víðast hafa verið — eða alstaðar.

En það sem undarlegast er af öllum undrum þessa máls, er athæfi fyrv. ráð­herra (Kr. J.), þegar hann valdi kgk. þingmennina.

Honum var bent á það í vetur, hvern­ig þingið væri skipað með tilliti til sam­bandsmálsins. En hann gerði lítið úr hættu þeirri, sem af því gæti stafað, að frumvarpsmenn væru í yfirgnæfandi meiri hluta í þinginu, þeir mundu ekki hreyfa við málinu, sagði hann, og gaf bendingunum engan gaum.

Og hvað gerir hann? Hann gerir konungkjörna 5 eiðsvarna frumvarps­menn og einn svo vafasaman, að vafa­laust má telja hann í flokki þeirra nú og samsekan. Frumvarpsandstæð­ingurinn, Kristján Jónsson, hefir því not­að vald sitt til að bæta 5 eða 6 mönn­um við fylgdarlið frumvarpsins á þingi. Þessi frammistaða ráðherra er vægast sagt sorgleg! Hvernig á nú þjóðin að vara sig, þegar svona er að henni far­ið? Það er fyrst þegar svona er orðið í pottinn búið, að frumvarpsmönnunum og liðhlaupunum þótti tími til kominn að kasta grímunni og hefja uppkasts­fánann á stöngina opinberlega!

Svo er undanhaldið magnað, að ráð­herra leggur ekki einu sinni stjórnar­frumvarpið fyrir þingið, þetta frumvarp, sem þingið var kosið til að fjalla um, og auk þess hafði bjargað honum sjálf­um frá vantraustsyfirlýsingu í fyrravet­ur, eins og öllum hlýtur að vera í fersku minni.

Þó að menn segi, að þingmálafund­irnir hafi verið hlyntir bræðingnum og látið í ljós að þeir hirtu ekki um, að stjórnarskrármálið væri tekið til alvar­legrar meðferðar nú, þá eru það veik­ar ástæður. Bræðingstilraunirnar slógu óhug á allan lýð, svo þingmálafundir voru óvanalega illa sóttir og ómerkir í vor. Sem dæmi þessa, má nefna, að á þingmálafundi í fjölmennum kaupstað á Vesturlandi var bræðingstillaga sam­þykt með 3:2 atkv. Minna gat það varla verið.

Öll meðferð þessa máls, aðferðin til þess að eyða stjórnarskrármálinu en demba innlimunar-uppkastinu yfir þjóð­ina óviðbúna, er í frammi höfð með meiri þjóðsvikum, en dæmi finnist til hér á landi, — og líklegast að áfram­haldið og endirinn verði þá eftir því!