02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í C-deild Alþingistíðinda. (1312)

26. mál, sparisjóðir

Framsögum. meiri hl. (Magnús Kristjánsson):

Það er lítil ástæða fyrir mig til þess að taka til máls, þar sem engar verulegar mótbárur hafa komið fram gegn áliti meiri hluta nefndarinnar og engar breyt.till. hafa komið aðrar en frá nefndinni. Eg vildi að eins geta þess, að eg fór með alveg rétt mál, þar sem eg sagði áðan að það hefði ekki verið fyr en á síðustu stundu að minni hlutinn hefði komið fram með breyt.till. sínar. Hvorki var það í byrjun eða undir meðferð málsins, að minni hlutinn, sem nú er, héldi svo fast fram skoðunum sínum að meiri hlutinn gæti álitið, að hann yrði viðskila við okkur hina og kæmi fram með sérstakar breytingatillögur.

Viðvíkjandi því sem háttv. 2. þm. (G.K. (Kr. D.) sagði, þá álít eg að það hefði verið heppilegra að hann hefði látið uppi þetta álit sitt í nefndinni, í staðinn fyrir að koma fyrst fram með það nú í deildinni. Tel eg það mjög sennilegt, að þá hefði eitthvað af því verið tekið til greina, sem nú er ekki hægt að koma við.

Það sem mest hefir verið haft á móti hér, er það, að skipaður sé einn eftirlitsmaður um land alt. Hafa menn á móti því, af því þeir halda að einn eftirlitsmaður geti ekki annast eftirlitið með svo mörgum sjóðum, að minsta kosti eigi eftirlit að fara fram á hverju ári. Eg álít nú að einn eftirlitsmaður geti heimsótt alla sjóðina á hverju ári og álít að hann geti verið vikutíma við hvern sjóð, og ætti það að vera nægur tími til þess að kynna sér ástand sjóðsins.

Ein mótbáran gegn þessum eina eftirlitsmanni er sú, að hann geti ekki verið eins kunnugur og innanhéraðsmaður. Þessi mótbára held eg að hafi ekki við nein rök að styðjast. Þessi eini eftirlitsmaður gæti það vel, og honum ætti að vera það innan handar af viðtali við kunnuga menn á staðnum að komast að raun um, hvort trygging fyrir láni sé nægileg. Fyrsta árið gætu helzt orðið vandkvæði á þessu, en svo ætti það ekki að þurfa að vera lengur.

Um kostnaðinn við eftirlitið vil eg segja það, að fyrirkomulagið, sem hv. minni hlutinn stingur upp á, hefir þann ókost, að það hlyti að baka sparisjóðunum tilfinnanlegan kostnað, ef gert er ráð fyrir því að eftirlitsmaðurinn fái 5 kr. í dagpeninga fyrir hvern dag sem hann er á ferðalagi í eftirlitserindum og auk þess allan ferðakostnaði borgaðan. Þá eru heldur engin takmörk sett um það, hve oft hann eigi að fara þessar eftirlitsferðir, og ef nú eftirlitsmaðurinn væri áhugasamur í þessu og vildi standa vel í stöðu sinni, þá mundi hann oft vilja athuga ástand sjóðanna, og gæti það þá dregið sig saman ef það yrði nokkrum sinnum á ári Þetta fyrirkomulag yrði því til mikilla útgjalda fyrir sjóðinn, og því tel eg það ekki heppilegt fyrir sjóðina sjálfa.

Ein ástæða er mjög þýðingarmikil gegn því að eftirlitsmaðurinn sé innanhéraðsmaður og hún er sú, að þá væru mikil líkindi fyrir því að í einstöku tilfellum myndi eftirlitamaðurinn sjá í gegnum fingur með mönnum þó að tryggingar væru ekki í sem beztu lagi. En ef einn maður hefir heildaryfirlitið með öllum sjóðunum, þá er engin hætta á því að þetta gæti átt sér stað. Annars er mér þetta ekkert kappsmál, heldur reyni að eina að gera grein fyrir því, hvað álit meiri hlutans er í þessu efni. En annars verður ekki akorið úr þessu nema með reynslunni.

Eg geri ráð fyrir því að háttvirtir þingmenn hafi kynt sér svo nefndarálitið, að óþarft sé að tala meira um það. Hvað trygginguna snertir, þá held eg að ekki sé hægi að heimta þessa 15%, eg álít að það yrði alt of þung kvöð að leggja á sjóðina. Og ef menn vildu setja þetta ákvæði, þá yrði líka að koma með önnur ákvæði, sem eg hugsa að yrðu sjóðunum æði erfið, einkanlega í byrjun.

Fleira er það svo ekki, sem eg vildi sagt hafa um þetta mál, nema það, að mér finst það alls ekkert óheppilegt að fella það burtu, að sjálfskuldarábyrgðarlán megi aldrei verða eldri en 10 ára. Mér finst óþarft að taka slík ákvæði inn í lögin. Þetta mundi fara eftir því sem stjórnin og eftirlitsmaður sjóðanna kæmu sér saman um og álít eg að hver stjórn muni sjá um það að slík lán yrðu ekki veitt nema til hæfilega tíma þótt ekki atæði neitt um það í lögunum.

Skal eg svo ekki eyða tímanum með því að fara frekar út í þetta.

Umræðum var ekki lokið á nóni, og gaf forseti þá fundarhlé til miðaftann.

Á miðaftni var fundur settur á ný og umræðum haldið áfram.