03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í C-deild Alþingistíðinda. (1375)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Framsögum. minni hl. (Valtýr Guðmundsson):

Við tveir nefndarmennirnir, sem höfum skrifað undir nefndarálit minni hlutans, höfum ekki getað orðið samferða hinum hluta nefndarinnar, að telja þetta svo mikið nauðsynjamál, að rétt sé að samþykkja frv., þar sem fyrir liggja bein mótmæli frá eigendum annarar jarðarinnar og sérstaklega frá öllum hreppsbúum í Seltjarnarneshreppi og sýslunefnd Kjósarsýslu, eins og sjá má í skjali því, sem sent hefir verið til þingsins.

Þar segir svo:

»Skiftingu þessari eru eigendur jarðarinnar Skildinganess og hreppsbúar. allir mótfallnir«.

Og enn fremur:

»Sýslunefndin mótmælir því fastlega, að fyr umræddar jarðir verði lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur«.

Það er tekið fram í gerðabók sýslunefndarinnar, að mælikvarðinn fyrir endurgreiðalunni, sem farið er fram á í frv. þessu, sé ósanngjarnari en 1893, þegar farið var fram á þetta áður. Það er líka tekið fram, að ekki sé rétt að miða skaðabótagjaldið við núverandi ástand, heldur eigi að miða það við þá framtíðarmöguleika, sem hér geti verið um að ræða. Sýslunefndin bendir á til samanburðar, hvernig farið hafi um Viðey, hvernig ástandið hafi breyzt þar á fáum árum. Það stendur líka svo á, að nú eru einmitt mikil líkindi til að horfurnar breytist að því er snertir Skildinganes.

Þegar litið er á sveitarstjórnarlögin frá 10. Nóv. 1905, þá er það augljóst, að þetta sem hér er farið fram á, kemur beinlínis í bág við anda þeirra laga. að minsta kosti. Þar er gert ráð fyrir, að ekki sé gerð nein breyting á hreppamörkum nema eftir beiðni hreppsnefndar og meðmælum sýslunefndar. Mér er svo langt frá því að fyrir liggi beiðni um þessa breytingu, að hreppsnefndin og öll sýslunefndin mótmælir henni fastlega. Þó að það sé auðvitað ekki útilokað, að gera megi breytingu á hreppamörkum án þess að hreppsnefnd og sýslunefnd séu því samþykkar, þá er það á móti anda laganna að gera það beinlínis á móti vilja þeirra. sem hlut eiga að máli.

Það er mjög svo ósanngjarnt gagnvart þessu hreppsfélagi, að vera smátt og smátt að klípa úr því og getur komið tilfinnanlega við gjaldþol þess. Það væri miklu nær, ef auka þyrfti land Reykjavíkur, að taka alt Seltjarnarnesið og eyjarnar Engey og Viðey, eða hér um bil allan hreppinn, undir lögsagnarumdæmi bæjarins. Þá væri miklu síður ástæða fyrir hreppsbúana að kvarta, heldur en ef bærinn er smátt og smátt að brytja sér bita úr hreppnum á þennan hátt. Við minni hluta mennirnir álítum það mjög varhugavert að gefa út slík þvingunarlög á móti vilja bæði hreppsnefndar og sýslunefndar. Það er vitanlega öðru máli að gegna um Bústaði en um Skildinganes. Það er vitanlegt, að það er sérstök ástæða. til þess að bærinn er áfram um að ná í Skildinganes. Það stendur sem sé til að gera þar mikið mannvirki, sem að sumu leyti getur orðið bænum í óhag, og tilætlunin er eflaust sú, að hindra þú samkeppni við bæinn, er af mannvirkinu gæti leitt. En að hinu leytinu gæti það orðið til mikils skaða fyrir Seltjarnarneshrepp að missa þá hagsvon, sem bundin er við þetta mikla fyrirtæki í hreppnum.

Við minni hluta mennirnir verðum því að leggja eindregið til að frv. verði felt.