30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Björnsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls við þessa 1. umræðu, en ummæli hins háttv. 1. kgk. þm. (Júl. Hav.) komu mjer til þess að standa upp. (Júl Havsteen: Jeg stend við þau !)

Jeg hygg, að allir mentaðir Íslendingar geti verið samdóma um, að hagur þjóðarinnar hafi verið mjög breytilegur, alla leið síðan á landnámstíð.

Ef gætt er að því, hvað hafi kipt úr vexti og þroska þjóðarinnar, þá er það fljótsjeð, og hljóta allir að verða sammála; það eru drepsóttir og hallæri.

Þetta hefur orðið svo oft, og hefur bug að þjóðina svo, að það má heita, að hún hafi einlægt verið að hjakka í sama farið.

Við vitum með nokkurn veginn fullri vissu, hvað fólkið var margt síðan á 11. öld. — Það var álíka margt og núna um síðustu aldamót. Oft hefur því fjölgað og það að mun, en altaf hafa drepsóttir og hallæri fækkað því aftur. Svona hefur þetta gengið frá landnámstíð fram á 19. öld.

Menningin hefur nú kent oss að standast drepsóttirnar. Bólan getur nú ekki geysað yfir landið eins og áður, og aðrar drepsóttir, sem áður fyr gerðu hinn mesta skaða, hafa gengið hjer hin síðari ár, án þess að þær hafi orðið að verulegu meini. Þar kunnum við að standa í ístaðinu.

En hallærin ráðum við ekki við enn. Hvað er þá hallæri?

Háttv. 1. kgk. þm. (Júl. Hav.) virtist skilja hallæri svo, að það eitt sje hallæri, þegar mannfækkun verður af hungri, eða það liggur við borð, en í mínum augum er það hallæri, þegar menn alment bíða stórt atvinnutjón eða eignatjón.

Ef heyskapur bregst í mörgum sveitum landsins, svo hann verður ekki helmingur við það, sem venja er til, það er uppskerutjón eða atvinnutjón — það er hallæri.

Ef vetur er mjög harður, svo að löng jarðbönn ern, og sauðfje og annar búpeningur fellur viða; það er eignatjón, það er atvinnutjón — það er hallæri.

Ef hafís legst að landi, svo að ekki er hægt að stunda bátfiskiveiðar fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi, þá er böl búið, og fjöldi fólks getur farið á vonarvöl: það er atvinnutjón — það er hallæri.

Þess vegna er ekki ofsögum sagt af hallærinu 188–87 ; þá voru vondir vetrar og ill sumur, heyskortur og peningsfellir og aflaleysi. Og þess vegna flýði fólkið þúsundum saman af landi burt; þá fóru yfir 6000 manns til Vesturheims. (Júl. Havsteen: Það var af öðrum ástæðum). Nei, það var atvinnuleysi — það var hallæri.

Og þetta vofir yfir enn í dag. Stærsta orsökin til hallæra, hafisinn, getur altaf komið.

Í sumum hafísárum hefur atvinnu- og eignatjón það, er landið hefur beðið, numið mörgum miljónum króna. (Júl. Havsteen: En hvalirnir). Það er beinlínis broslegt að heyra þennan hvalablástur; hvað ætli fáeinir hvalskrokkar vegi á móti því eignatjóni, sem hlýzt af mjög illu árferði.

Hafísinn er eins hættulegur fyrir atvinnuvegina, og eldurinn fyrir húsin okkar, eða jafnvel hættulegri, því að er þó altaf hægt að vátryggja húseignir gegn eldsvoða.

Við megum ekki fljóta sofandi að þessum feigðarósi, við verðum að hugsa um þetta, góðir menn.

Hallærissjóður er sama og tryggingarsjóður gegn atvinnuskorti, er kann að dynja yfir landið.

Það er látið óspart klingja hjer, að það megi ekki leggja á fleiri skatta.

En gætið nú vel að !

Sá skattur, sem hafísinn leggur á þjóðina, er lang þyngsti skatturinn, og hann nemur mörgum milljónum króna. Sá skattur er heimtaður alveg hlífðarlaust, bæði af ríkum og fátækum. Hafísinn gerir sjer engan mannamun; hann skeytir engu um það, þótt gjaldendurnir komist á vonarvöl.

Nú hefur verið góðæri: en hallæri getur dunið yfir, þegar minst vonum varir. Jeg veit, að ýmsir hinna háttv. þm. muna eftir árunum 1881 –1887 þótt að háttv. 1 kgk. þm. (Júl. Hav.) muni ekki eftir þeim. Hann hefur ekki sjálfur búið við þröngan kost þá, heldur við amtmannslaun sin, því á var hann orðinn amtmaður, svo hann hefur víst ekki sjálfur haft mikið af hallæri að segja. En jeg var þá fátækur bóndason uppi í sveit á Norðurlandi, og fór með bólgnar hendur af frostbólgu með föður mínum á hvalfjöru vorið 1882. Jeg man vel þá tíma. Jeg gleymi því aldrei.

Það er ekki víst, hvernig fer með þetta mál hjer á þinginu, en jeg veit með fullum sanni, að alþýða út um land hefur glöggvan skilning á, að það má ekki svo til ganga, að við höfum engan viðbúnað til að verjast hættunni. Og jeg hef ekki eingöngu heyrt það frá þeim mönnum, er hugsa um landsmál, heldur líka frá kvennfólkinu.

Við Íslendingar höfum jafnan átt góðar og göfuglyndar konur.

Jeg held hjer á 100 króna seðli. Það kom maður heim til mín með hann, nú rjett áður en jeg var að fara á fundinn, og sagði, að hann væri gjöf frá konu, sem hann ekki nafngreindi og vildi ekki nafngreina, og ætti þessi 100 kr. seðill að vera gjöf í hallærissjóð þann, sem hún hefði heyrt, að verið væri að stofna á þinginu, en ef ekki yrði af honum, hefði hún óskað, að þessi litla upphæð gæti orðið vísir að tryggingarsjóð gegn hafís, eldi og öðrum slíkum þjóðhættum.