30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

93. mál, hallærisvarnir

Sigurður Eggerz:

Aðeins örstutt athugasemd. Háttv. 2. þm. Skagf (J. B.) hneykslaðist á því, að jeg skyldi jafna þessum skatti við sóknargjöldin, en þar sem hann sagði, að það væri fölsk ályktan hjá mjer, að gjöldin kæmu harðar niður á fátæklingum nú en áður, verð jeg að biðja háttv. þm. að gæta þess, að þetta hef jeg aldrei sagt, heldur aðeins, að gjöldin komi nú rangt niður, en það er ekki betra fyrir það, þótt svo hafi verið áður. Þar sem þm. vildi gera greinarmun milli skatta til sálarinnar og skatta til líkamans, þá held jeg, að aðskilnaðurinn milli sálar og líkama sje ekki svo nákvæmur nú á tímum, að vert sje að gera þennan greinarmun. Styrkur til skálda yrði þá t. d. útgjöld til sálarinnar. Jeg vona, að háttv. þm. átti sig á frv., þegar hann getur hugsað það nógu vel.