19.08.1913
Efri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

13. mál, vörutollur

Einar Jónsson:

Það mun vera viðurkent af öllum, að hjer er um vandræðamál að ræða og eru því ekki tiltók, þó að menn reyni að breyta vörutollslögunum svo, að þau komi rjettlátlegar niður. Með þessu frv. og brtill. nefndarinnar er reynt til að bæta úr hinum mesta ójöfnuði, en þó virðist mjer, að ennþá vanti mikið á, að öll ákvæði verði svo sanngjörn og skýr, sem æskilegt væri. Nefndin stingur upp á að skilja tilbúin áburðarefni og leirpípur undan tolli. En hún hefði líka átt að undanskilja alt það, sem landssjóður kaupir. Það er sannarlega óviðkunnanlegt, að landssjóður sje að borga sjálfum sjer toll og greiða svo og svo mikil laun til starfsmanna sinna fyrir ónæði það, sem þeir hafa við innheimtuna. Því ætti t. d. að vera undanþegið tolli efni til þeirra vita, brúa og síma, sem landssjóður lætur gera. Innheimtulaunin eru bein útgjöld fyrir landssjóð, og þau geta numið þó talsverðu, þegar um stórfyrirtæki er að ræða. — Jeg hef heyrt menn minnast á tvær vörutegundir, sem ættu að undanskiljast tolli, nefnilega mold til hreinsunar gasi, — af henni mun nú flutt til landsins um 40 tons á ári — og sandur, sem notaður er til jarðsteypumóta. Þetta eru hvorttveggja ódýrar vörur og ættu því eigi að tollast. — Jeg held, að 6. brtill. ætti að orðast öðruvísi. Undir þann lið, sem hún á við, heyrir „kokolit“ og virðist mjer því rjett að láta „línotol“ heyra þar undir líka, því að nú þegar er farið að nota það dálítið á gólf, og útbreiðsla þess fer sjálfsagt í vöxt. 10. brtill, fer fram á, að á eftir orðinu „tvinni“ í 6. málsgrein frv. komi: „og allskonar garni öðru en veiðarfæragarni“. En nú stendur í 4. málsgrein „seglgarni og allskonar netagarni“. í brtill. ætti því að standa: „allskonar garni öðru en seglgarni og netagarni“. — Nefndin leggur til, að „eldfastur leir“ sje tekinn inn í 2. flokk. Stjórnarráðið hefur úrskurðað, að hann skyldi vera tollfri eins og múrsteinn, en ef á að tolla hann, þá virðist hann eiga að vera í 1. flokki eins og kalk. Nefndin hefur stungið upp á, að „vjelaolíur til áburðar“ komi í staðinn fyrir orðið „vjelaáburður“. Betra virðist mjer að væri „olía til vjelaáburðar“. í 8. brtill. vill nefndin setja „,járnbrautarteinar“ í staðinn fyrir „teinar ... til járnbrautargerðar“. Betra hefði verið að setja: „járnbrautarteinar og teinaspengur (Skinnelasker)“. Nú heyrir allskonar saumur undir 2. flokk og mundu „gaddar“ vera taldir þar með, og því er óþarft, að hafa þá hjer. — Áður en jeg sezt niður vil jeg geta þess, að jeg hafði ætlað mjer að koma fram með brtill. við þessa umræðu, en of seint varð að geta fengið hana prentaða í tíma. Jeg býst því við að koma fram með hana við 3. umræðu.