21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

109. mál, forðagæsla

Jósef Björnsson; Að eins örfá orð um brtill. mína á þgskj. 478.

Jeg er fullkomlega sammála háttv. framsm. (G. G.) um, að upplestur á þeim skýrslum, er hjer ræðir um, komi að mestu gagni, ef stutt er til hans, frá því skýrslurnar eru gerðar. Og það leikur ekki vafi á, að sá skýrsluupplestur, sem hefur átt sjer stað í sumum sveitum, hefur haft góð áhrif á meðferð á skepnum og hirðing á þeim, og yfirhöfuð átt þátt í að bæta ástandið í þeim efnum. En ef þessi upplestur ætti að dragast mjög lengi, þá mundi mjög draga úr þýðingu hans. Jeg hef því komið með brtill, á þgskj. 478, af því jeg lít svo á, að vorhreppaskil sjeu víðast fjölsóttari en hausthreppaskil, og af því að þau liggja nær skoðuninni sjálfri. Háttv. framsm. (G. G.) bjóst við, að jeg tæki hana aftur, er nefndin hefur komið með brtill. í líka átt, en eg geri það ekki að svo stöddu. Það stafar sjerstaklega af því, að háttv. nefnd hefur komið með breytingaratriði, sem jeg get ekki fallizt á, og tel eigi heppilegt. Hún vill leyfa að lesa skýrslurnar á öðrum fundi en vorhreppaskilum. Á þau koma einmitt flestir skepnueigendur, og því vil jeg ekki að leyft sje að lesa þær annarsstaðar. Það getur verið margt, er kalla má hreppsfundi, t. d. unglingafjelagsfundi og fleiri fundi. Má vel vera, að fáir skepnueigendur mæti á slíkum fundum, og missir upplesturinn þá þýðingu sína.

Þess vegna held jeg fram brtill. minni, þangað til jeg sje, hvort d-liður 3. brtill. verður samþyktur. Jeg kýs heldur, að mín brtill. verði samþykt, en skal þó fúslega játa, að nefndin hefur gengið til móts við mig.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg taka það fram, að mjer virðast sumir háttv. þm. hjer í deildinni hafa gert fullmikið úr horfelli hjer á landi. Það er hægara fyrir menn að slá slíku fram, en að sanna það. Einmitt það, hvað horfellislögunum hefur sjaldan verið beitt, sýnir bezt, að erfitt mundi að færa sönnur á slíkar staðhæfingar. Það hafa fallið þau orð hjer í deildinni, að horfellir ætti sjer víða stað, og lambadauði verið talinn eitt af því, er sannaði þetta, því lambadauðinn stafaði af slæmri hirðing og megurð á fjenaðinum, og hann væri mjög almennur. En mjer væri suðvelt að færa rök að því, að lambadauði getur átt sjer stað, þó að fjeð sje í bezta standi. Hann getur vitanlega stafað af megurð, en líka af mörgum öðrum orsökum. Það geta líka orðið mikil vanhöld á fullorðnu fje af sjúkdómum, þótt ekki sje heyskorti til að dreifa. Að segja, að lungnaveiki stafi ætíð af illri meðferð, heyleysi og hor, nær engri átt, og sama má segja um ýmsa sjúkdóma aðra. Lungnaormurinn spyr ekki að því, hvort hey sje til eða ekki. Sá sjúkdómur gerði mikinn skaða á Möðruvöllum í Hörgárdal fyrir nokkrum árum, og hef jeg hvorki fyr nje síðar heyrt því haldið fram, að það hafi verið fyrir heyskort og illa meðferð. Síður en svo. Annarsstaðar hefur og hið sama komið fyrir. Nei, þótt ástandið kunni sumstaðar að vera ekki sem bezt, þá ættu menn ekki að gera þjóðinni þá vanvirðu, að fara með slíkar órökstuddar fullyrðingar, sem heyrzt hafa hjer í deildinni undir umræðunum um þetta mál. Það er rjett að benda á gallana og draga enga dul á þá, en hitt er ekki rjett, að segja þá miklu meiri og verri en þeir eru, því það er vafasamt, hvort slíkt er æskileg upphvatning til að taka sjer fram.