08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend upp að eins vegna einnar athugasemdar í ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem eg held að ekki hafi verið svarað ennþá. Hann áleit það óþarft að áskilja það í lögunum, að eigandaskifti að fasteignum væru tilkynt bankastjórninni. Hann sagði, að lánin hvíldu á eignunum, en ekki mönnunum. Það getur verið mikið rétt, en eg held að hv. þm. hafi ekki athugað afleiðingarnar, sem geta orðið af því, að eigendaskifti eru ekki tilkynt. Hér í Reykjavík mundi þetta ekki gera mikið til, þar sem allar fasteignir eru einkendar með tölum og götunöfnum. En annarstaðar á landinu eru þær kendar við eigendurna.

Eg skal nefna dæmi upp á, hve hættulegt það getur orðið bankanum að fá enga tilkynningu um þetta. Bankinn lánar fé út gegn öðrum veðrétti í húsi Guðmundar Guðmundasonar í Keflavík. Seinna er auglýst nauðungaruppboð á húsi Hinriks Jónssonar í Keflavík. Bankinn gerir auðvitað ekki neitt, því að hann veit ekki til að hann eigi nokkuð hjá Hinrik Jónssyni. En þetta er einmitt sama húsið, sem hefir verið selt tvisvar, án þess að bankastjórnin hafi haft hugmynd um það. Bankinn missir því færis á að gæta réttar sins. Svona dæmi hefir komið fyrir — og ekki útséð enn um afleiðingarnar.

Eg vona því að háttv. þm. sjái, þegar hann athugar afleiðingarnar, að nauðsynlegt er að ákveða í lögunum, að eigendaskifti skuli tilkynt bankastjórninni.