08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Tryggvi Bjarnason:

Frv. þetta hefir tekið nokkrum breytingum í óáttv. Ed., og felli eg mig að sumu leyti betur við. það eins og það er nú.

Háttv Ed. hefir felt burtu það ákvæði, sem að mínu áliti var alt of hart aðgöngu, að lántakendur borguðu við hver eigendaskifti 2% af lánsupphæðinni í varasjóð. Nefndin í þessari deild hefir nú sett tillögu um þetta inn aftur og til samkomulags fært gjaldið niður í 1%, því þá er það orðið eins og það var í brtill. minni, er eg flutti, er þetta mál var hér til umræðu áður og þá var feld. Mér fanst þetta gjald ranglátt, sérstaklega vegna þess, hve hátt það var, en get nú eftir atvikum sætt mig við það, þegar það er fært svo mjög niður. Það ætti líka að vera trygging fyrir því, að bréfin seldust betur og gæti ef til vill losað landssjóð frá því, sem venja hefir verið til hingað til, að taka lán til þess að kaupa bréfin. Eg býst þess vegna við að fylgja öllum brtill. nefndarinnar til þess að vinna að því, að salan gengi betur og bætt verði úr lánsþörf landsmanna.

Mig langar til að spyrja háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), sem jafnframt er bankastjóri, hvort það sé örugg von hans, að verði frumv. samþykt í því formi, sem nefndin leggur til, þá geti bankastjórnin annast sölu á bréfunum og landssjóður losni við að taka lán enn á ný.

Verði þetta til þess að salan gengi betur, þá álit eg rétt að reyna það. Það kynni því að fara svo, að bréfin seldust 1–2% hærra og ynnist þá upp nokkuð af því gjaldi, sem lagt er á lántakendur með þessu frumv., ef það verður að lögum, fram yfir það, sem þeir hafa orðið að greiða vegna lántöku í inum fyrri flokkum veðdeildarinnar. Mér þætti æskilegt að fá að heyra svar háttv. þm. upp á þessa fyrirspurn.