28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (358)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Framsm. (Pétur Jónsson):

Eg dró áðan að nefna breyt.till., þær sem hafa komið fram frá öðrum en nefndinni, enda er ekki mikið um þær að segja.

Eg kannast við að fjárlaganefndin er hlynt fjárveitingunni til að auka eftirlit með fiskiveiðum í Garðsjó.

Viðvíkjandi tillögu á þgskj. 197 frá hæstv. ráðherra, þá hefir nefndin ekki haft tækifæri til að ræða um hana, en eg skil ekki að nefndin verði henni mótfallin; finst mér hún vera eðlileg og í samræmi við vilja þingsins undanfarin ár, því heldur sem reynt er nú að gera tryggara, að styrkur til dýralæknisnema verði að notum.

Það eru sérstaklega till. á þgskj. 122 og 172 frá nefndinni, sem eg vildi minnast á. Þær hafa fallið úr, eða ekki verið athugaðar, þegar nefndin samdi álit sitt.

Sú fyrri er um fjárveitingu til Ásólfsskálakirkju, að söfnuðurinn taki að sér kirkjuna. Það er mikil viðleitni og hefir Verið af hendi byskups að koma því til leiðar, að söfnuðirnir taki að sér kirkjur, þær sem hafa verið landssjóðs eða lénakirkjur. En nú er komið svo með lénakirkjur, að þær eru komnar undir umsjá landssjóðs. Álítur nefndin að heppilegt Sé, að Söfnuðirnir taki að sér þessar kirkjur. Það er áreiðanleg reynsla fengin fyrir því, að í fjárhagslegu tilliti farnast þeim kirkjum, er landssjóður annast um, langtum ver en þeim, sem söfnuðirnir hafa umsjón með.

Fjárlaganefndin vill því verða við óskum þeim, sem fram komið hafa frá byskupi í þessu efni. Nú sem stendur eru lénskirkjur, sem ekki eru komnar í hendur söfnuðum, rúmar 40, en þeim fækkar til muna árlega.

Þá er á þgskj. 172 viðaukatillaga um fjárveitingu til að styrkja símalínurnar. á Fjarðarheiði, Fljótsheiði og víðar. Hefir landsímastjórinn sýnt fram á, að þessi fjárveiting sé alveg nauðsynleg til að varna bilunum á þessum símalínum að vetrarlagi. Það er nauðsynlegt að þessi fjárveiting komi í fjáraukalögunum til þess að hægt sé að gera við símalínurnar í sumar.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. ráðherra, hefir háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) tekið það fram, sem athugavert var. Skal eg að eins bæta því við og taka skýrt fram, að nefndin tekur aftur í þetta sinn breytingartillöguna um pósthúsið; vill fresta því máli til 3. umr., án þess þó að nefndin sé fallin frá áliti sínu í þessu máli.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) hafði ýmislegt að athuga við nefndarálitið, en mér fanst verða minna úr því þegar til kom, heldur en eg hafði búist við. Hann kom með skýrslu um það, hve fjárveitingar á aukafjárlögum hefði farið hækkandi þing eftir þing.

Eg skal skýra frá því, að nefndin leit svo á, að á aukafjárlögum ætti menn að vera sparir og ekki setja þar nema það sem brýn þörf væri til að flýta. Hefir hún látið þetta álit í ljós með því að vilja nema fjárveitinguna til pósthússins út úr frumv. Í 6. gr. nefndarálitsins er stjórninni auk þess bent á að fara sem varlegast í fjárgreiðslur úr landssjóði, sem eigi væru lög fyrir. Hins vegar er engin gefin regla fyrir því, hve mörgum hundruðum eða þúsundum aukafjárlög megi nema. Þar Verður nauðsynin í hvert sinn að ráða. Við verðum líka að gæta þess, að lífið er farið að ganga örara í öllu en áður, en reglulegt þing ekki nema annaðhvert ár. Þannig var á aukaþingi 1902 ráðið af það stórvirki, að útrýma fjárkláðanum um alt land og veitt stórfé til þess á aukafjárlögum.

Ef framkvæmdarsöm og snarráð stjórn vill ráðast í eitthvert nýmæli, sem þarfnast samþykkis þingsins, ber henni að búa málið Vel undir þingið. Með því móti getur svo þingið með fjárveiting á aukafjárlögum látið byrja á því fyrirtæki í tækan tíma. Eg held því að skýrsla um, hversu mikið hafi verið veitt á aukafjárlögunum þetta eða hitt árið, hafi ekki svo mikið að þýða, heldur hversu áríðandi málefni það hafa verið, sem fénu hefir verið varið til í hvert sinn.

Því sem rætt hefir verið um þingmannafundinn, hafa þeir svarað hæstv. ráðherra og háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B). Auðvitað áleit nefndin, að ekki bæri að gefa fordæmi til þess, að stjórnin gæti tekið fé úr landssjóði til þess að halda flokksfundi. En nefndin leit svo á, að hér væri ekki um flokksfund að ræða, því eins og hæstv. ráðherra tók fram, sátu fundinn fleiri en flokksmenn.

Aðalatriðið fyrir nefndinni var, eins og hæstv. ráðherra skýrði, að þessi fjárveiting er afleiðing af ályktun síðasta Alþingis viðvíkjandi sambandsmálinu.

Það er eitt atriði enn í tillögum nefndarinnar, sem eg vildi minnast á; það er viðvíkjandi smíðakenslunni á Hólum í Hjaltadal. Stjórnin hefir lagt það til, að veitt væri í aukafjárlögunum 500 kr. til trésmíðakenslu á Hólum. En þegar nefndin sá, að það átti að kaupa járnsmíðaáhöld handa Hólaskóla, þótti nauðsynlegt að breyta til um fyrirsögnina á þessum lið eins og gert hefir verið í nefndarálitinu.

Það er óþarfi að tveir menn hafi smíðakensluna á hendi og að verja til þeirra tvennum 5 hundruð krónum, því nefndinni er kunnugt um, að sá maður, sem hefir haft trésmíðakensluna á hendi, er fær um að kenna járnsmíði. Mundi hann því geta tekið að sér hvoratveggju kensluna.

Eg hefi svo ekki fleira að segja að sinni.