29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (369)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Skúli Thoroddsen:

Eg hafði ekki ætlað mér að tala í þetta sinn, en tel þó réttara — vegna umræðnanna, sem orðnar eru —, að gera dálitla athugasemd.

Eg get ekki litið svo á, sem nokkur hætta væri á ferðum, þótt frumv. þetta yrði samþykt.

Eg verð að álíta það rétt, sem háttv. 1. þm. S.- Múl. (J. Ól.) benti á, að landsstjórnin hafi það nú í hendi sér, að hafa eftirlit eftir þörfum, að því er til Landsbankans kemur. Og, eins og bent hefir verið á, verður líka að líta á það, að enginn er að líkindum í efa um það, að þótt landssjóður ekki beri lagalega ábyrgð á sparisjóðsfénu í Landsbankanum, þá gæti hann þó aldrei verið þektur að því, að láta sparisjóðsinnieigendur bíða tjón. Hann hlýtur með öðrum orðum ætið að bera ábyrgðina í raun og veru, ef á. reynir. Og hvað er þá athugavert við frumvarpið ?

Frumvarpið bakar landssjóði því ekki neina ábyrgð, Sem ekki hvílir nú þegar á honum, en á hinn bóginn veitir frumvarpið bankastofnun landsins þó ný hlunnindi, sem yrðu þá og landinu í hag, þar sem hver eyririnn, sem Landsbankinn græðir, er og gróði landssjóðsins, eiganda bankans.

En verði mönnum sýnt það svart á hvítu, að landssjóður ábyrgist hvern eyri, sem í sparisjóð Landsbankans er lagður, þá Vær u menn æ öruggir, að því er aparisjóðsinneignir í Landsbankanum anertir, og mundu því keppast um, að eiga fé sitt þar, fremur en annarstaðar.

En sparisjóðsféð er það sem bankinn hefir einatt töluverðan gróða á, og það er þá landinu einnig gróði.

Það er og aðgætandi, að sé það lögákveðið, að landið ábyrgist sparisjóðsfémanna, sem í Landsbankanum er, þá er þar með fyrirbygt, að nokkurn tíma geti orðið hræðslu-aðsúgur, að því er Landsbankann snertir, þar sem menn vissu þá, að hvaða tjón sem Landsbankinn biði, færi þó aldrei svo, að fé þeirra væri ekki óhætt.

Af framan greindum rökum, þá er það og fjarstæða, að hafa þyrfti þá tryggingarfé fyrirliggjandi í bankanum, eða í landssjóði. — Kæmi óhapp fyrir, væri landssjóði og einatt mun hægra, að fá lán í svipinn en bankanum, og varla að óttast, að eigi yrðu þá einhver tök á að klóra fram úr því.

Annars lít eg svo á, sem búskap landssjóða þyrfti og ætti æ að vera svo háttað, að til væri fastur viðlagasjóður sem aukinn væri árlega með einhverjum lögákveðnum hluta af tekjum landsins, er í hann rynnu, — auk aukningarinnar af vögtunum, Sem æ ættu að bætast við hann óskiftir, eða þá að minsta kosti unz einhverri ákveðinni upphæð væri náð.

Nokkuð af honum mætti þó vota til útlána, atvinnuvegum landsins til styrktar, en þó aldrei allan, þar sem fé þyrfti einatt að geta verið til handbært, sem til yrði gripið, ef að höndum bæri hallæri af eldi eða ísl. o. s. frv.

Háttv. þm. Borgf. (gr. J.) kallaði frv. þetta þrotabúsyfirlýsingu af bankans hálfu. En eg get ekki séð. að hér sé um neitt slíkt að ræða. Frumvarpið er ekkert annað en “spekulation„, þ. e. tilgangurinn sá einn, að gera Landsbankanum, sem unt er, auðið að draga sem mest sparisjóðsfé að sér — enn meira en áður og það í þágu landsins, þar sem gróðinn er eign þess, sem og þágu landsmanna, þar sem bankinn verður þess þá enn megnugri, að veita þeim lán.

Sú viðbára sama háttv. þm. o. fl., að drægi úr lánstrausti landssóðs, takist hann á hendur ábyrgð á sparisjóðsfénu, get eg heldur ekki álitið, að við rök eigi að styðjast, þar sem ábyrgð landssjóðs verður í raun veru — eins og fyr var bent á — engu meiri en hún er nú. Munurinn sá einn, að hér er verið að “legalisera„ það ástand, sem í raun og veru myndi talið sjálfsagt, eins og stendur, þótt beina lagaheimild bresti.

Þeir sem viðskifti eiga við landssjóðinn, vita og, hvert eftirlit landstjórnin hefir eða getur haft, að því er allan hag Landabankans snertir, — geta og vænst þess, að það verði þá eigi minna en verið hefir, en miklu fremur í enn ríkari mæli, og þeir vita þá og enn fremur, að eigi er aðsúg að bankanum að óttast — þ. e. engar líkur til þess, að menn komi hrönnum saman, til þess að heimta fé, það er þeir eiga þar á vöxtum — þar allir vita landssjóðinn vera ábyrgðarmanninn, ef bankann bæri af einhverjum ástæðum — upp á sker. Engin hætta því á því, að til ábyrgðar landssjóða þurfi að grípa. Sparisjóðsféð verður æ látið una sér í bankanum, unz menn þarfnast þess til nauðsynja sinna.

Eg vil svo ekki fara fleiri orðum um málið, en leyfa mér að eins að mæla sem bezt með frumvarpinu. Það gefur almenningi, er fé á í sparisjóðsdeild Landsbankans, enn meira öryggi, en nú er, og myndi auk þess verða til sívaxandi gróða fyrir landið Sjálft, eins og eg hefi í ræðu minni sýnt fram á.