11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (762)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eftir ræðu háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) var eg orðinn í vafa um, hvaða umræður þetta væri. En eg verð þó að trúa dagskránni, að þetta sé 1. umræða. Mér finst, að nú eigi ekki að ræða einstakar greinar, heldur eigi að líta á frumvarpið á heild sinni, og þegar það er gert, getur engum dulist, að þetta frumvarp hefir að minsta kosti einn stóran kost fram yfir in önnur bankafrumvörp, sem fram hafa komið nú á þinginu. Og þessi kostur er sá, að ekki er ætlast til að landssjóður útvegi neitt fé; bankinn ætlar að gera það sjálfur.

Eg var, því miður, ekki inni þegar umræðurnar byrjuðu, svo að eg veit ekki, hvort háttv. framsögum. (B. Kr.) hefir tekið fram, að það var hugsun nefndarinnar, að samið yrði fyrir fram um sölu bankavaxtabréfa veðdeildarflokksins á einu lagi, og telur hún, að það muni vera auðveldara, ef flokkurinn nemur 6 milíónum króna, heldur en ef hann er minni. Það eru til peningastofnanir, sem vilja heldur kaupa heila »Seriu« í einu, heldar en smáslatta. Þetta gæti líka orðið til þess, að bréfin þyrftu ekki að falla í verði.

Að öllu íhuguðu er frumvarpið vel þess vert að það fái að komast í gegn um þingið. Það vita allir, hve mikilli byltingu það gæti valdið, ef hætta þyrfti að veita veðdeildarlán. Nú eru ekki eftir nema 160 þús. kr. ólofaðar, og sjá allir, að það getur ekki hrokkið lengi. þegar þeirri upphæð er eytt, verður að hætta öllum veðdeildarlánum, ef ný veðdeild verður ekki stofnuð.

Eg vona því að allir sjái, hversu mikil nauðsyn það er, að koma frv. fram. Eg hefi tekið fram þann stóra kost, sem frumvarpið hefir, að það fer ekki fram á nein peningaútgjöld úr landssjóði. Eg vona, að menn liti meira á það, en þetta lítilfjörlega prócentgjald, sem engu munar.