13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í C-deild Alþingistíðinda. (834)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Skúli Thoroddsen:

Enda þótt eg hefði að vísu helzt kosið, að eiga ekki þátt í umræðunum að þessu sinni — þar sem eg er eigi alveg laus við kvef o. fl. — vil eg þó, atvikanna vegna, ekki bregða gamalli venju, og ætla því að eiga einnig að mínu leyti nokkurn þátt í umræðunum.

Eg hefði getað vænst þess, að þessi »eldhúsdagur« hefði alveg farist fyrir að þessu sinni.

Það hefir verið kveðið svo að orði eigi sjaldan, að hér á landi væri þingræðisstjórn, og eftir atburðunum, sem gerst hafa á þinginu, gat eg því vænst, að þurfa eigi í dag að sjá ráðherra í því sæti, sem hann enn situr í.

Nægir í því skyni að benda á það, að till helztu frumv. stjórnarinnar, er lögð voru fyrir þingið, eru nú þegar fallin í valinn, þ. e. öll launa- og skattamálafrumvörpin.

Að því er launafrumv. snertir, kvað jafnvel svo ramt að fylgisleysinu við ráðherrann, að aðal-launafrumvarpið fékk ekkert atkv., eða þá ekki nema 1 eða 2, sumar greinarnar, eða þar um, jafnvel tryggustu fylgismenn ráðherrans gátu ekki fylgt honum inn á þá brautina. — Frumv. um fasteignaskatt féll og við lítinn orðstír, og hæstv. ráðherra sá þá fyrir örlög hinna og tók þau öll aftur.

Enn fremur hefir og nýskeð, hér í deildinni, verið samþykt »rökstudd dagskrá«, þar sem framkoma stjórnarinnar var talin »mjög aðfinsluverð«.

Eg veit nú ekki, hvað þingræði er, ef hæstv. ráðherra telur sig enn sitja í ráðherra-sessinum sem þingræðis-ráðherra.

Hvað myndi vera sagt um þess konar þingræði á Frakklandi, eða jafnvel í Danmörku? Ætli Zhlale, núverandi forsætisráðherra Dana, og embættisbræður hans, brosi ekki að íslenzka þingræðinu? Eg held að það geti ekki hjá því farið.

En er eigi svo, að í augum sumra manna sé þingræðið þá að eins ákjósanlegt, eða gott og blessað, er svo er, að þeir fá sínum vilja framgengt, geta þá öllu ráðið sjálfar, — eða hafa þó fengið að ráða því, hver í ráðherrasætið var settur ?

Er eigi svo, að það sé á hinn bóginn í þeirra augum það er eigi á né má á nokkurn hátt þolast, ef það fer í aðra átt en þá, að þeir séu inir drotnandi ?

Þeir töldu sér þá eigi að eins heimilt, en jafnvel skylt að svífast þá enda alls einskis til að hnekkja því, — leyfðu sér þá að gripa til hvaða meðala, er þeir teldu sig komast fram með, sbr. atburðina á þinginu 1911, símskeyta-launungina o. fl.

Eg man enn eftir þinginu 1911, og finst mér atburðirnir, sem gerst hafa á þinginu í sumar, ótvírætt sýna, að núverandi ráðherra vor skoði enn þingræðið eitthvað líkt því, sem hann gerði þá.

Eg fann það þá, og vissi það þá, að tröðkunin á Þingræðinu, sem þá átti sér stað, hlyti að hefna sín, — fann það þá og vissi, að atburðirnir gætu eigi stýrst öðruvís en að svo yrði, og þetta hefir nú og tíminn, sem liðinn er, og atburðirnir, sem síðan hafa orðið, fyllilega leitt í ljós sem áþreifanlegast á ýmsa vegu.

Eg skal ekki rekja hér ráðherraferil fyrverandi ráðherra, hr. Kristjáns Jónssonar. Að eins ætla eg þó að minna á það, að hann tjáði það stefnuskrá sína, er hann settist í ráðherrasessinn, að koma fram stjórnarskrármálinu, og að »láta nú stórmálin hvíla sig«.

En eins og kunnugt er, kom hann stjórnarskrármálinu eigi fram, — lagði stjórnarskrárfrumv. enda alls eigi fyrir aukaþingið 1912; og allir vita, hvernig fór um sambandsmálið. Svo langt frá því, að það fengi að »hvíla sig«, að í hans ráðherratíð kom upp inn nafntogaði nafntogaði »bræðingur«, þ. e. farið var þá að bollaleggja um nýja samninga, tilraunir við Dani um málið, og hörfað frá stefnu, þeirri er hann þóttist — sem ýmsir fleiri — hafa viljað framfylgja.

Hvað háttv. núverandi ráðherra snertir, þá hefir hann eigi síður, en að mun fremur, verið eltur af hverju óhappinu á fætur öðru, — enda óefað flestum, ef eigi fremur öllum, meira við atburðina 1911 og tröðkun þingræðisins þá riðinn. Það er eins og alt, smátt og stórt, hafi viljað ólánast fyrir honum.

Háttv. N.- þm. N.-Þing. (B. Sv.) minti á stefnuskrá hans, þ. e. að efla friðinn í landinu, að auka lánstraust þess erlendis, og að binda enda á sambandsmálið, og sýndi rækilega fram á, hversu alt þetta hefði farið út um þúfur.

Með öðrum orðum: Atburðirnir hafa hér stýrst svo, að hvert óhappið hefir steðjað að ráðherranum eftir annað, — friðurinn í landinu hvorki meiri né minni en áður en hann settist í ráðherrasessinn, og lánstraustið erlendis sýnilega – ef nokkuð er — fremur þorrið en batnað. Óræk sönnun fyrir því er það, að háttv. ráðherra hefir t. d. ekki séð sér fært að útvega lánið til símalagninganna með öðru móti en því, að gefa »Norræna ritsímafélaginu mikla« ádrátt um það, að veðbinda félaginu símatekjurnar, og hefir hann í því skyni farið fram á þá breytingu ritsímalaganna frá 22. Okt. 1912, að honum sé heimilt að skuldbinda landið til þess að láta tekjuafganginn af símanum ganga til þess að greiða vexti og afborganir af láninu áður en nokkru af honum sé varið til annars.

Verði þetta ofan á, fæ eg ekki betur séð, en að veðband leggist á tekjurnar jafnharðan er slíkt skjal væri þinglesið, jafnframt því sem það — er slíkt skuldbindingarskjal hefir verið undirskrifað — verður glæpsamlegt athæfi, að verja þá nokkru af tekjunum öðruvís.

Þá var það og eigi síður — að því er til sambandsmálsins kemur — hrapallegasta óhapp, er núverandi ráðherra vor lét dönsku ráðherrana koma sér til þess, að færa oss Íslendingum »grútinn«, er svo hefir verið nefndur, eins og hann var í vorn garð, — óhapp, sem sært hefir álit hans því sári, er aldrei fær gróið. Óhapp þá og eigi síður, að sýna sig enda — er til Íslands var þó komið — svo hrifinn af » grútnum«, að fara þá að ómaka þingmenn, þ. e. nánustu fylgismenn ráðherrans, til þess að gera sér ferð til Reykjavíkur um hávetur og upp á kostnað landssjóðsins — til þess að líta á vanskapnaðinn, og spilla þannig áliti ráðherrans enn meira en þegar var orðið.

Þá get eg og ekki litið öðruvís á, en að stjórnarfrumövrpin, sem hæstv. ráðherra hefir lagt fyrir þingið, hafi og verið eitt óhappið, eða óhappa-tiltækið.

In helztu þeirra hafa þegar verið atrádrepin, og svo kveðið jafnvel ramt að, að hans eigin flokksbræður hafa ekki séð sér fært að fylgja þeim, enda stjórnarfrumvörpin öll, þ.e. í heild sinni skoðuð, yfirleitt órækasti votturinn um erindisleysi ráðherrans í ráðherrasessinn, þar sem hann hefir eigi á einn eða neinn hátt fundáð til meina nokkurrar stéttar í landinu, nema þá þeirrar einnar, sem öðrum var þó sett betur.

Eitt óhappið enn er það þá og, að flokkurinn, sem studdi hæstv. ráðherra, er hann tók við völdunum, hefir klofnað, svo að nú eru orðnir alls fjórir flokkar í þinginu, í stað tveggja.

Óhappið eitt er það og eigi síður, að hæstv. ráðherra hefir enn ekki skilist nauðsynin á samvinnu milli þjóðar og stjórnar. Honum hefir enn ekki skilist það, að þjóðin á réttmæta heimtingu á því, að fá æ öðru hvoru að vita, hvað stjórnin er að gera, enda er það og ekki eingöngu nauðsynlegt þjóðarinnar vegna, heldur og engu síður vegna stjórnarinnar sjálfrar.

Og þó að ráðherra felli sig ekki við það, að birta stjórnarfrumvörpin orðrétt áður en hann ber þau upp fyrir konungi, þá ætti það þó að vera stjórninni auðgert og útgjaldalítið, að láta blöðin þó vita, hvaða mál hún hefir helzt með höndum. Bendingarnar, sem síðan kæmu frá blöðunum, sem og frá þjóðinni ella, ættu þá og að geta styrkt stjórnina í starfi hennar á ýmsa vegu, — gefið henni hvöt til þess að breyta þá sumu til batnaðar o. s. frv., o. s. frv.

Enn er það og eitt óhappið, hversu hæstv. ráðherra hafa tekist samningarnir við Sameinaða gufuskipafélagið.

Félagið hafði litið svo á, sem rofnir væru samningar við það, er vörutollslögin voru staðfest, og kolatollurinn gerði, því ferðirnar kostnaðarsamari en við hafði verið búist, er það samdi við landstjórnina. Það taldi sig því laust við 10 ára samninginn, sem gerður hafði verið.

Hér hefði legið beint við, að ráðherrann hefði boðið félaginu kolatollinn, en krafist þá á hinn bóginn, að það héldi samningana og á sina hlið að fullu og öllu, en — látið ella dómstólana skera úr málunum.

En hvað gerir ráðherrann? Hann greiðir félaginu kolatollinn, en leyfir því engu að siður að rifta samningunum, og bindur enda hendur Alþingis, vildi það dómstólanna leita, sbr. ástæður stjórnarinnar sjálfrar við fjáraukalagafrumvarpið.

Afleiðingin er sú, eins og háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) hefir lýst skýrt og glögt í ræðu sinni í dag, að landið hefir tapað, ekki tugum heldur hundruðum þúsunda, Sbr. hækkun farþega- og flutningsgjalda o. fl.

Þá er það og eitt óhappið enn, sem ótalið er, og það er það, hversu hæstv. ráðherra hefir tekið í fánamálið. Í stað þess sem þjóðin gat vænst að hann skrifaði danska ráðuneytinu og krefðist þess, að foringi varðskipsins yrði tafarlaust kvaddur heim, til þess að óánægjan yfir ójöfnuðinum, sem hann sýndi, gæti þá horfið, og danska þjóðin sýnt það á sem áþreifanlegastan hátt, að það væri eigi að hennar vilja orðið, að særðar hefðu verið þjóðernis og sjálfstæðistilfinningar Íslendinga, þá skrifar ráðherrann danska forsætisráðherranum auðmýktarfult bréf, rétt eins og hann væri yfirboðari hans í þessu efni.

Hér reið á, að hæstv. ráðherra tæki einarðlega í strenginn, því að hér var um íslenzkt lögreglumál að ræða, sem og um brot á íslenzkri löggjöf, þar sem foringinn hafði hér á höfninni tekið sér lögregluvald, er honum eigi bar.

Eftir stöðulögunum frá 2. Jan. 18:1, sem telja »lögreglumálin« vera »sérstakleg málefni Íslands«, og eftir fyrirmælum stjórnarskrárinnar frá 5. Jan. 1874, þá er ráðherra Íslands hvorki, né á að, vera, undirmaður dönsku ráðherranna, er um sérmálin ræðir. — Hann er þar alls enginn liður í ráðuneyti konungs. og á ekki að vera það.

Yfirleitt bendir framkoma hæstv. ráðherra í fánamálinu á ið sama, sem svo oft hefir þótt brydda á áður, þ. e. að hann virðist bresta þá einurð út á við, þá einlægni, og þann hreinleika, sem eg, og skoðanabræður mínir teljum happadrýgri, en of mikið af hneigingunum.

Þá gat umburðarbréf hæstv. ráðherra, út af fánatökunni 12. Júní þ. á., og ekki annað en vakið furðu hjá mér og líklega hjá landslýð öllum. Hann hleypur til þess — í stað þess að kenna sársauka með íslenzku þjóðinni, sem mest misboðið var —, að skrifa öllum lögreglustjórum, að vernda nú »dannebrog«, og þetta afrek sitt tilkynnir hann svo dönsku ráðuneytisstjórninni, rétt eins og honum lægi þar lífið við, að friðmælast nú við þá (!)

Alla þessa frammistöðu ráðherrans get eg þá eigi annað en talið honum það óhappið, sem meira er en svo, að orðum verði lýst, — óhapp, sem hlýtur þá og að gera hann svo geraneyddan öllu trausti og áliti þjóðarinnar, sem frekast má verða.

Og þetta, sem fyr var getið, gerir ráðherrann, í stað þess að leggja sem skylt var alla áherzluna á hitt, þ. e. að friða huga Íslendinga, og sýna Dönum, að vér viljum ekki þola slíkt athæfi og hefðum því helzt kosið, að foringinn hefði tafarlaust verið kvaddur heim, og þá verið látinn sæta þeirri ofanígjöf, sem athæfi hans verðskuldaði.

Mörg fleiri dæmi þess gæti eg nefnt, hversu ráðherrann hefir af óhöppum eltur verið, — hversu atburðirnir hafa stýrst, eins og eg á þinginu 1911 sem afleiðing af breytni hans þá, í garð minn og íslenzku þjóðarinnar — fann alóyggjandi, og vissi þá stýrast hljóta.

Það eru t. d. óhöpp, hversu mjög hv. ráðherra hefir dregið taum Íslandabanka, þar sem hann hefir ekki ávaxtað fé Landssjóðs í Landsbankanum, enda þótt hver eyrir, sem Landsbankinn vinnur, sé unninn eyrir fyrir landið, og því æ skylda hvers ráðherra, sem er, að hugsa þó fremur um hag hans, en annara sjóða.

Enn má og — sem dæmi upp á óhappa-ferilinn — minna á það, hversu hlutabréf Íslandsbanka hafa mjög fallið í verði í tíð núverandi ráðherra; sem bankaráðsformanns. — Þarf og hvert fyrirtæki þess fremur, að þar séu viðriðnar happa- en óhappaverur.

Þótt eigi vilji eg fara að mun út í þá sálmana hér, virðist mér þó, sem landsreikningurinn bendi og í sömu áttina — óhapp ráðherranum, að vera sýnilega að komast inn á brautina, að virða ekki fjárveitingavald þingsins sem skyldi.

Menn greinir á hér á þinginu, og þykjast ekki hafa ráð á því, að veita, nema svo eða svo háa upphæð til hins eða þessa, en stjórnin leyfir sér svo að fara fram úr fjárveitingum þingsins, ef henni býður svo við að hörfa. Eg tala hér ekki um það, þó að stjórnin fari fram úr þeim fjárveitingum, sem áætlaðar eru og eigi geta að eðli sínu annað verið, heldur á eg hér einungis við »föstu fjárveitingarnar«, t.d. til sundkenslu, til utanferða lækna, til skóla o. fl. o. fl.

Þá hefir stjórnin og tekið upp á því, að taka fé úr landssjóði »upp á væntanlega aukafjárveitingu«. En ef stjórninni á að leyfast, að bralla slíkt, sem nokkru nemur, þá geta menn alveg eina slegið stryki yfir fjárveitingavald þingsins.

Hér er um afar-hættulega braut að ræða, og verður að hafa vakandi auga á, að ekki sé farið of langt inn á hana.

En ráðherranum tel eg það óhapp, er ráðríkis- eða eingæðis-tilhneigingin virðist fara sívaxandi, í stað þess að hjaðna æ meira og meira — og stjórnast æ betur og betur — með vaxandi aldri og þroska.

Enn er það óhapp fyrir hæstv. ráðh. að það er orðið ljóst, að neðri deild ber ekki það traust til hans, sem einatt þarf þó að vera milli þjóðkjörnu deildarinnar og ráðherra, sem læzt þó vera þingræðisráðherra.

Þá hygg eg, að mér sé og eigi síður óhætt, að fullyrða að þjóðin hafi litið þeim augum á stjórnarfrumvörpin, sem þau væru með öllu ólík því, sem hún átti heimtingu á eða taldi sér rétt að vænta af hálfu þess ráðherra, sem léti sér ant um hag hennar.

Og þar sem hæstv. ráðherra hefir ekki getað skilist þetta, þrátt fyrir »rökstuddu dagskrána«, sem samþykt var, og ekki varð skilin, öðruvís en sem megnasta »vantraustsyfirlýsing«, né heldur þrátt fyrir strádrepnu stjórnarfrumvörpin. þá verð eg að líta svo á, sem mesta happið, sem ofan á öll þessi óhöpp gæti í skaut hæstv. ráðherra fallið, væri nú það að hann fengi svo greinlega vantraustsyfirlýsingu, að hann færi frá völdunum sem allra bráðast.