16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í C-deild Alþingistíðinda. (979)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Stefán Stefánsson:

Eg hefi ekki margar tillögur hér fram að bera. Eru það að eins 800 kr., sem eg óska til brúargerðar á Syðri-Þverá í Eyjafirði. Þar hefir verið timburbrú, sem nú er orðin algerlega ónotandi og sama brúarstæðið verður heldur ekki notað, og veldur það meiri kostnaði en annars hefði orðið við nýja brúarbyggingu. Hafa nú sveitarbúar rætt þetta mál allítarlega, og komið sér saman um að byggja ekki brúna aftur úr timbri, þótt það yrði nokkru kostnaðarminna, heldur úr steinsteypu, svo séð sé fyrir því, að ekki þurfi í náinni framtíð að leggja fé til viðhalds eða endurbyggingar brúarinnar. Er áætlað að sú brú muni kosta 3000 kr. Reynt hefir verið að safna þessu fé saman, bæði með samskotum og tombólum, en þó hefir ekki safnast meira en það, að enn vantar nær 2000 kr. upp á inn áætlaða brúarkostnað. En þó ekki hafi safnast meira en þetta, þá veit eg þó ekki betur en að hreppsbúar séu búnir að kaupa efni til brúarinnar og ætla sér að byggja hana nú í sumar. Hafa þeir nú sent mér erindi og beðið mig um, að fara þess á leit við þingið, að þeir fengju 1000–1200 kr. styrk til brúargerðarinnar. Þetta erindi sendi eg fjárlaganefndinni til íhugunar, en hún hefir ekki séð sér fært að leggja það til, að sú fjárveiting yrði veitt.

Vona eg nú, að háttv. deildarmenn samþykki þessa litlu fjárveitingu, þegar þeir sjá, hvað hreppsbúar vilja leggja mikið á sig til þess að koma brúnni upp, þegar líka tillit er tekið til þess, hve aðrar vegagerðir liggja þungt á þeim, svo sem mjög há gjöld til sýsluvega og hrappavegagjöld þeirra svo há sem lög leyfa, eða 3 kr. á hvern verkfæran mann. Hvort hér er um nauðsynjafyrirtæki að ræða, verður bezt séð á því, hvað sveitin vill til vinna, þegar hún auk inna miklu vegagjalda, bæði til sýslu- og hreppavega, vili leggja þennan afar tilfinnanlega brúarkostnað á sig, og engum mun geta fundist það óeðlilegt þótt forgöngumenn málsins sendi til þingsins tilmæli um 1000–1200 kr. fjárframlag úr landssjóði til brúargerðarinnar. En þegar eg sá, að fjárlaganefndin tók enga fjárveitingu í þessu skyni upp í sínar tillögur, þá hefi eg þó álitið þá leið tiltækilega, að fara fram á að eins 800 kr., eða rúman 1/4 af brúargerðarkostnaðinum. Annars finst mér verða að taka tillit til þess, þegar um styrki til brúa- og vegagerða er að ræða, hve lengi það mannvirki muni geta staðið.

Hér er um mannvirki að ræða, er stendur sem menn segja um aldur og ævi, eða með öðrum orðum verulegt framtíðarverk. Eg veit að þingmenn hafa tekið eftir því, hvaða nauðsynjaverk það er, sem hér er um að ræða, og skal eg þá ekki tala frekara um málið að sinni.

Þá vildi eg minnast nokkrum orðum á góðan greiða, sem fjárlaganefndin hefir gert með því að leggja til, að veittar verði 5000 kr. til vegar um Þelamörk. Eg hafði skrifað nefndinni um þetta mál og skýrt henni frá öllum inum helztu ástæðum, er að því lúta, og margendurteknum óskum manna, en treystist þó ekki að svo stöddu að fara fram á meira fé en þessar 5000 kr. Nú er upphleyptur vegur kominn fyrir nokkrum árum frá Akureyri og að eins út fyrir Moldhaugnaháls, en hugmyndin var að hann sem allra fyrst kæmist alla leið til Bægisár, en á þessari leið er vegurinn —víða bráðófær bæði fyrir kerrur og vagna. Nú hefir þess verið óskað vegurinn yrði gerður svo, að hægt væri að fara með vagna og kerrur alla leið inn að Bægisá. Þessi vegarkafli frá brautarendanum á Moldhaugnahálsi til Bægisár mun nema 12 kílómetrum, og hefir mér dottið í hug, að allra-verstu eða ófæru kaflarnir á þessari leið mundu vera sem næst 21/3 –8 kílómetrar og mun því kosta um 5000 kr. að gera þá akfæra. Eg er þess vegna fjárlaganefndinni sérlega þakklátur fyrir að hún hefir tekið málaleitun mína til greina og óskir héraðsbúa undanfarið, enda er það í sannleika nauðsynlegt að veita fé til þessarar vegagerðar. Er sú beiðni svo sanngjörn, að eg læt mér ekki detta í hug, að greitt verði atkvæði á móti henni.

Einn póstur var það í fjárlagafrumv. —stjórnarinnar, sem mig furðar á að fjárlaganefndin skyldi stryka út. Það er sá póstur, sem leggur til að veittar verði 70.000 kr. til brúar á Eyjafjarðará. Þennan gjaldlið vill fjárlaganefndin fella í burtu og setja í staðinn fjárveitingu til brúar á Jökulsá á Sólheimasandi, sem nemi alt að 78.000 krónum. Landsverkfræðingurinn gerði áætlun um brúargerð á Eyjafjarðará árið 1908, og — hafa menn því alt af talið það sem fulla vissu, að brúin yrði bygð ið bráðasta, enda skorað á okkur þingmenn kjördæmisins á undanförnum þingmálafundum, að vinna sem mest og best að þessu máli. En nú í vor datt víst engum kjósanda í hug að minnast neitt — á slíkar málaleitanir, þar sem stjórnin var búin að taka það upp í frumv. til fjárlaga fyrir árin 1914–1915. Því gat enginn búist við, að fjárlaganefndin færi svo að ráði sinu, sem nú er raun á orðin, þegar stjórnin hafði loks tekið upp fjárveitinguna, beint eftir tilmælum landsverkfræðingsins, af því að hann álítur að þetta sé sú brú, sem ætti að ganga fyrir öllum öðrum brúm á landinu.

Eg hefi nýlega átt tal við verkfræðing landsins, og taldi hann sjálfsagt að þessi brú væri látin ganga fyrir öðrum og ólíkt hve umferðin væri þar meiri, en yfir Jökulsá, og eins hve miklu lengri tíma árs nauðsynin væri á brú yfir Eyjafjarðará, því að Jökulsá áleit hann að væri mjög fáa daga af árinu ófær, Þegar nú litið er til alls þessa: að ekki er neitt samanberandi umferð yfir hana og að hún er mestan tíma árs vel fær, þá furðar mig á því, að hv. fjárlaganefnd skuli leggja þetta til. En þó einkum og sérílagi þegar þess er gætt, að verkfræðingurinn (J. Þorl.) telur enga tryggingu fyrir því, að Jökulsárbrúin standi ári lengur. Hann hefir sagt, að þar komi þau jökulhlaup, sem myndu sópa brú og stöplum fram í sjó. Þó að því sé til lagastafur fyrir þessari brúarbyggingu, þá ætti hún ekki að standa fyrir öðrum nauðsynlegri brám, sem gætu staðið svo að segja um aldur og ævi.

Enn má geta þess, að þetta brúarmál hefir legið fyrir sýslunefnd Eyfirðinga, og hefir hún samþykt skarpa áskorun til þingsins, um að fá brú á ána (Eyjafjarðará), svo að hvernig sem þetta mál er skoðað, þá virðist það undarlegt að þessi brú, sem sett hefir verið inn í fjárlögin að vilja verkfræðingsins og stjórnarinnar, eigi að þurkast út af þinginu. Þegar talað var um brú á Jökulsá hér á þingi áður, þótti mörgum það fyrirtæki óskynsamlegt og með öllu óskiljanlegt, að slíkt mannvirki gæti komið að nokkru gagni. En það mál var sótt af svo miklu kappi hér 1911, að það komst í gegnum báðar deildir; hversu óhyggilegt sem ýmsir þingmenn þá álitu það. Eg veit, að háttv. fjárlaganefnd þykist hafa ástæðu til þess, að gera þessa brúabreytingu að eins vegna þessara _ laga, en allkynlegt er það, þegar hún hlýtur þó að sjár hver fjarstæða þetta er.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekara um þetta, en það hygg eg, að ekki líði svo nokkurt þing úr þessu, að ekki komi áskoranir úr Eyjafirði, um að fá þessa brú, ef svo ólíklega kynni til að vilja, að ekki fengist fé til hennar nú, sem enginn efi er á að kemur mönnum þar mjög á óvart, því að í vor hafði enginn maður grun um að það mundi koma til tals, að fara að brúa Jökulsá að svo stöddu.