29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

91. mál, strandgæsla

Sigurður Sigurðsson:

Það er stutt athugasemd út af orðum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.). Hann sagði, að ekki væri hægt að kasta þessum störfum upp á Búnaðarfélagið án sérstakrar samþyktar á aðalfundi félagsins. Eg veit ekki, hvort þetta er alls kostar rétt. Að vísu er það svo, að Búnaðarþingið þarf að veita sitt samþykki til þessa, en því hefir tíðast verið svo háttað, að búnaðarþingið hefir samþykt það, sem stjórn félagsins hefir lagt til. Eg óttast því ekki, að vandræði geti orðið út af þessu.

Aðalatriðið í þessu máli er þetta : Er þetta svo mikið starf, að félagið geti ekki tekið það að sér án aukinna útgjalda, og hefir það þeim mönnum á að skipa, að starfið verði ekki verr af hendi leyst en nú á sér stað ?

Viðvíkjandi fyrri spurningunni svara eg því, að félagið getur hæglega tekið málið að sér án verulegra aukinna útgjalda. Eins og framsögum. (Þ. J.) gat um, þá eru ráðunautar félagsins oft á ferð um þessar slóðir, og gæti þeir þá litið eftir og sagt mönnum fyrir verkum án nokkurs kostnaðarauka. Hitt atriðið er kannske ekki mitt að dæma um.

En viðvíkjandi orðum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að sérstakrar »fag«-þekkingar þyrfti hér við, þá vil eg spyrja : Hvaða »fag«-þekkingu hefir sá maður, er nú annast þetta starf? Alls enga. Hann hafði hana ekki þegar hann kom, og hafi hann öðlast einhvern snefil af þekkingu á málinu síðan, þá hefir hann fengið hana af æfingunni. Annars eru skiftar skoðanir um, hve mikil þekkingin er. Eg hygg því, að Búnaðarfélagið geti tekið þetta mál að sér, svo að ekki fari lakar úr hendi. Eg get líka skýrt háttv. þm. frá því, að áður en þetta mál var lagt undir skógræktarstjórann, þá heyrði það undir Búnaðarfélagið, og einn starfsmaður þess, Einar Helgason garðyrkjumaður, hafði það þá með höndum. Og eg trúi því ekki öðru, en að hann sé fær um að taka það að sér nú eins og áður. Líka ber á það að líta, að sandgræðslan stendur í sambandi við grasrækt og áveitu, og eg fullyrði það, að hver maður með íslenzka búfræðisþekkingu getur int þetta starf af hendi, og það ekki lakar en útlendingur, sem hingað er sendur og ekkert þekkir hér til. Háttv. þm. segja nú ef til vill, að eg sé ekki alveg óvilhallur, þar sem eg er starfsmaður Búnaðarfélagsins, en eg vona nú samt, að þetta verði skilið eins og það er talað.

Eg vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir, og frumv. ásamt tillögum nefndarinnar verði samþykt.