07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

70. mál, afnám eftirlauna

Guðmundur Hannesson:

Eg kann ekki við, að sá misskilningur eða hleypidómur, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn. (S. S.) sé látinn alveg mótmælalaus hér í deildinni.

Hann taldi eftirlaun embættismanna forréttindi, sem þeir hefði fram yfir aðra menn í landinu, og með þeim forréttindum væri skapað misrétti á milli manna. En það ætti allir að vita, og ekki sízt þingmenn, að eftirlaunin eru ekki annað, en það sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) býst við að verði, og telur rétt, að embættismönnum verði gert að skyldu að kaupa sér ellistyrk. Í öllum löndum, öðrum en þessu landi, vita menn vel, að þeir menn, sem ráðnir eru í embætti með eftirlaunarétti, hafa í rauninni hærra kaup en það, sem þeir fá útborgað, þeim mun hærra, sem þurfa mundi til þess að kaupa ellistyrk jafn háan eftirlaununum. Þess vegna er það svo í öllum löndum, að þegar ákveða á laun starfsmanna, þá gera menn sér ljóst, hvort þeir eiga að hafa eftirlaun eða ekki, og eftir því fer upphæð launanna.

Nú hefir því verið troðið inn í höfuð manna hér á landi, að embættismönnunum sé gefin eftirlaunin, þeir hafi fyrst fullkomið kaup fyrir vinnu sina og fái síðan eftirlaunin í ofanálag. Vegna þessa misskilnings, sem troðið hefir verið í höfuðið á öllum almenningi, og vegna þeirrar óánægju, sem af þeim misskilningi hefir sprottið, væri æskilegt, að laun embættismanna, eins og þau eru í raun og veru, væri ákveðin með tölum og þeim síðan gert að skyldu að kaupa sér ákveðinn ellistyrk.

Eg vil ekki neinu um það spá, en mér segir þó svo hugur um, að landslýður græði ekki fé á endurskoðuninni. Það væri náttúrlega, gott ef fé sparaðist, og það væri þá helzt á þá leið, að kippa mætti burtu ónauðsynlegum starfsmönnum, en verði það ekki með því móti, þá er eg vantrúaður á sparnaðinn.

Hvað nefndarskipunina snertir, þá er hún algerlega nauðsynleg, ef málinu er breytt á annað borð, því að þótt stjórnin, með þeirri tilhjálp, sem fáanleg er í stjórnarráðinu, gæti int þetta starf af hendi og gerði það samvizkusamlega, þá væri verk hennar unnið fyrir gíg. Hvers vegna? Vegna þess, að öll alþýða mundi ekki hafa trú á því verki, sem unnið er af embættismönnum einum, ef það leiddi í ljós, að enginn sparnaður yrði að því að afnema eftirlaunin, eða ef þeir kæmist að þeirri sömu niðurstöðu, sem menn hafa komist að flestum löndum, að heppilegast væri að halda eftirlaununum eins og þau eru. Það er ekki hægt að vinna tiltrú manna í öllum bygðum landsins á þann hátt.

Eg tel sjálfsagt, ef nefnd verður skipuð, að í henni verði fimm menn en ekki þrír. Hvers vegna? Vegna þess, að það er líklega sjálfsagt, að meiri hluti nefndarinnar verði skipaður mönnum, sem hafa sömu skoðun á eftirlaununum sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Eg tel þetta nokkurn veginn sjálfsagt, jafnvel þó að eg viti, að sú alþýðuskoðun er vitleysa, sem barin hefir verið inn í höfuð manna með kosningadeilum og blaðaskömmum. Alþýðan verður að vita, að meiri hluti nefndarinnar sé áreiðanlega hennar menn. Þá mundi niðurstaða nefndarinnar hafa einhverja þýðingu. Ef slík nefnd skrifaði undir, að rétt væri að hækka laun embættismannanna, jafnframt því sem eftirlaunin væri afnumin, eða þá annars kostar að halda eftirlaununum eins og þau eru, þá mundi alþýðan samt sem áður taka mark á því, en annars ekki, ef nefndin væri á annan veg skipuð. Í nefndinni þyrfti síðan að vera 1–2 embættismenn. Það væri tæplega nóg að hafa einn, veitti ekki af tveimur. Og ef meiri hl. ætti að vera úr öðrum stéttum, þá er fimm manna nefndin komin. Auk þess væri heppilegt, að eitthvert tillit væri hægt að taka til stjórnmálaflokkanna í landinu.

Eg hygg, að ekki geti annað komið til tals en bæði nefndarskipun og fimm manna nefnd, ef málinu verður hreyft á annað borð. Hagnaðurinn yrði fyrst og fremst sá, að væntanlega yrði hægt að útrýma þeirri röngu skoðun, sem alþýða manna hefir á eftirlaununum, og annar hagnaður gæti fengist, ef hægt væri að spara óþarfa starfsmenn.