25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

10. mál, afnám fátækratíundar

Jósef Björnsson :

Jeg tek undir með hv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) að afnám fátækratíundarinnar er ekkert stórmál, eftir því sem nú hagar til. Aftur á móti er jeg ekki allskostar samdóma hv. 6 kgk. (G. B.). Jeg játa það, að verið geti raunalegt að fleygja burt fornmenjum, en þó því að eins að eitthvað sje gott við þær og merkilegt. Nú er svo komið, að af hinni fornu tíund er fátækratíundin ein eftir, svo að vilji menn líkja henni við forngrip, þá er hann þegar orðinn stórskaddaður við afnám hinna tíundanna, og torvelt að varðveita hann eins og hann nú er orðinn. Það er ekki allskostar rjett, að segja, að hjer sje verið að færa til grafar fornar þjóðmenjar; rjettara er að segja, að það sje þegar búið að því. (G. B.: Ekki til fulls). Hjer er að minsta kosti ekki annað eftir en að kasta síðustu rekunum í gröfina, til að fylla hana.

Það sem mjer sýnist mæla mest með frv. þessu, er, að í mínum angum er það bersýnilega rangt, að hinir fátækustu greiði hærra gjald en efnamenn. Það hefði að vísu mátt laga þetta með því að jafna tíundina, og hefði það verið meir í anda hv. 6. kgk. (G. B.); en sú leiðin liggur ekki hjer fyrir. Sumir hafa farið í kringum lögin, af því að þeim hafa fundist þau ranglát, og hafa ekki tekið hærri tíund af þeim, sem í óreigatíund hafa verið, en sem því svaraði, að þeir hefðu verið í skiftitíund, en auðvitað hefir þetta enga stoð í lögum. Sú mótbára er þýðingarlítil, að slæmt sje að missa þennan fasla gjaldstofn. Það var rækilega sýnt fram á það í hv. Nd., að fátækratíundin næmi ekki meiru en 1/15–1/12 af tekjum hreppanna, og munar því auðsjáanlega minstu, hvort þessum smávægilega tekjustofni er haldið, eða hann er látinn niður falla. Í mjög mörgum hreppum er fátækratíundin innan við 100 kr. Það eru ekki nema 20–30 hreppar á öllu landinu, þar sem hún nær 200 kr. Það er því ekki í neitt stórræði ráðist, þótt hún sje látin falla niður; og varla mun útsvarabyrðin lenda öllu sanngjarnlegar á mönnum, þótt tíundinni sje haldið, því að oft mun fara svo, að þegar útsvörin eru síðast til mats hjá niðurjöfnunarnefnd, þá munu þau vera jöfnuð án þess nokkurt verulegt tillit sje tekið til þess; hvort tíund er há eða lág hjá hinum einstöku gjaldendum.

Það væri sjálfsagt æskilegt, að sveitasjóðirnir hefðu meira af föstum tekjustofnum en nú hafa þeir, en það verður þó því að eins að gagni, að hægt sje að finna tekjustofn, er verulega munar um. Fátækratíundin er ekki til þess fallin. Jeg sje því ekki betur en rjett sje að nema nú burt þessar síðustu leyfar hinna fornu tíundarlaga, sem allir hljóta að kannast við, að nú eru orðin ranglát, eftir að preststíund og kirkjutíund hafa verið feldar niður.