25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

10. mál, afnám fátækratíundar

Sigurður Stefánsson :

Jeg játa það, að mjer er, eins og hv. 6. kgk. (G. B.) hálfsárt um að fátækratíundarlögin hverfi alveg úr sögunni, svo gömul eru þau og svo gagnleg hafa þau verið þjóðinni.

Hins vegar verð jeg að játa það, að fátækratíundir er svo lítið gjald, að spursmál er, hvort eigi sje rjettast, eins og komið er, að láta hana fara sömu leiðina sem systur hennar, preststíundina og kirkjutíundina. Þó er það athugavert, að hjer er stefnt að því, að hækka það gjald, sem landsmönnum mun vera allra gjalda hvimleiðast, það er að segja aukaútsvörin. Engin niðurjöfnunarnefnd er svo kunnug efnum og ástæðum manna í sveit sinni, að hún geti jafnað útsvörum eins rjettlátlega niður, eins og yrði, ef hægt væri að byggja gjöldin á föstum gjaldstofni. Þegar litið er á, hvað fátækratíundin er lítil í samanburði við önnur gjöld hreppanna, þá má að vísu segja, að hvorki gjöri til nje frá um hana. Það er kunnugt, að fátækratíundin er í sumum sveitum ekki svo lítill hluti af sveitartekjunum; einkum á þetta sjer stað í landbúnaðarsveitum. Eins og kunnugt er, þá er Ísafjarðarsýsla ekki mikið landbúnaðarhjerað; þó þekki jeg hrepp þar, þar sem fátækratíundin hefir stundum verið 1/5 af útsvörunum. Skemtilegra væri fyrir niðurjöfnunarnefndir að hafa sem mest af föstum gjaldstofnum, og ljúfara mundi hreppsnefndum, að leggja á útsvörin eftir þeim; sjest það best á því, að sumar þeirra hafa lagt sig í framkróka með að finna einhvern fastan grundvöll, en handahófsniðurjöfnun þá, sem án þess hlýtur að verða, og sem ekki getur annað en orðið áhyggju- og óánægjuefni fyrir hlutaðeigendur.

Á meðal þess, sem að mínu áliti mælir með því að afnema nú fátækratíundina, er það, að mjer er ekki grunlaust um að þessi hluti tíundarinnar, sem nú er eftir, hafi stundum freistað bænda til að telja ekki svo rjett fram, sem æskilegt er, og ef þessi tíund verður numin úr lögum, þá mundi það geta orðið til þess að við fengjum rjettari hagskýrslur, og tel jeg mikið í það varið. Þetta er að mínu áliti aðalkosturinn við frumvarpið. Jeg get hugsað, að sú freisting bænda hverfi, að telja rangt fram, til þess að tíund þeirra verði minni. Jeg held því að jeg verði að greiða atkvæði með frumvarpinu, enda þótt mjer sje sannarlega sárt um þessar síðustu leyfar jafnstórmerkilegs skattafyrirkomulags, sem tíundin er.

Hákon Kristófersson: Þó jeg geti verið þeim háttvirtum þingmönnum sammála, sem ekki álíta að hjer sje um neitt stórmál. að ræða, þá álít jeg samt sem áður, að þetta mál sje þannig vaxið, að rjett sje að þingmenn láti uppi álit sitt um það, því að mjer þykir líklegt að flesta kjósendur langi til að vita, hvorum megin þingmenn þeirra hafi verið í þessu máli. Jeg skal játa það, að jeg sakna þessara leyfa tíundarinnar fornu, en jeg lít svo á, að talsvert mæli með því að þær verði nú numdar úr lögum, og eigi get jeg álitið það bera vott um neinn skort á þjóðrækni, þótt það verði gjört. Það er öllum kunnugt, enda boðið svo í sveitastj.lögunum, að áður en útsvar er lagt á, þá er skuli reiknuð saman upphæð allrar tíundar í hreppnum, og því, sem á vantar, að hún hrökkvi fyrir gjöldum hreppsins, er svo jafnað niður eftir efnum og ástæðum. En nú getur verið að margir efna menn greiði litla eða enga tíund, en þegar hreppsnefndir jafna svo útsvarinu niður, getur það vel farið fram hjá henni, að þessi og þessi hafi sloppið hjá tíundinni, en hinn, sem oft er fátækari, hafi orðið að láta svo og svo mikið af mörkum í tíundargjald. Jeg get ekki verið háttv. þingm. Ísafj. (S. St.) sammála um að afnám fátækratíundar hafi í för með sjer hækkun á útsvörunum, því að vitanlega eru það sömu mennirnir, sem greiða útsvörin, og þeir, sem greiða tíundina. Að afnám fátækratíundarinnar geti rjettlætst af því, að við það muni bændur fríast við það ámæli, sem þeir fá af röngu framtali, get jeg ekki álitið. Jeg lít svo á, að það sjeu hreppstjórarnir, sem tíundarsvikin sjeu aðallega að kenna, ef um þau er að tala, því að þeir eiga að líta eftir því, að lögum og rjetti sje fylgt í hreppunum. Þetta er ekki sagt sem ámæli til hreppstjóranna, heldur af því, að jeg álít óþarfa að vera hræddur við tíundarsvik, ef hreppstjórarnir eru eftirlitssamir hvað snertir framtal manna. Þar sem jeg þekki til á Vesturlandi, tel jeg ekki efa á því, að undandráttur í þessum efnum á sjer varla stað.