06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

10. mál, afnám fátækratíundar

Benedikt Sveinsson :

Eg skal ekki bera á móti því, að ákvæðin um þetta efni kunna að vera nokkuð úrelt orðin, en mér er þó talsvert sárt um þau. Hér er um að ræða langelztu lagaákvæði, sem nú gilda í íslenzkri löggjöf. Tíundarlögin eru sett fyrir vel 9 öldum, árið 1096, af Gizuri biskupi með, »um-bráði Markúss lögsögumanns« og annara hinna vitrustu manna. Að vísu hafa þau síðan tekið miklum breytingum, eftir því sem aldarfarið breyttist. En eg vil, að menn hugsi sig vel um, áður en menn fleygja burt þessum fornu minjum. Fáar raddir hafa heyrst gegn tíundarlögunum í landinu. Það er satt, að á stöku stöðum hefir þeim verið andmælt, en sannanir vantar fyrir því, að það sé almennur vilji að afnema þau, en fyrr vil eg ekki, að ráðizt sé á hina elztu lagagrein í lögum vorum.