11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

32. mál, varadómari í landsyfirrétti

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Það er eiginlega prentvilla, að eg sé 1. flutningamaður þessa frumvarps, en það gerir víst ekkert til, þótt eg láti nokkur orð fylgja því inn í deildina.

Tilgangur frumvarpsins er ekki annar en sá, að láta það vera statt og stöðugt, hvernig eigi að skipa yfirdóminn þegar hinir föstu dómarar forfallast, svo að landstjórnin geti ekki ein ráðið því, hvern eða hverja hún setur í þann dóm, þegar forföll dómara ber að hendi.

Með þessu þykir sem létt sé af stjórninni nokkrum vanda og um leið sleginn varnagli við því, að harðdræg stjórn geti misbrúkað vald sitt. Ætla má og, að þeir kennarar háskólans, sem lögin kenna, sé bezt hæfir til að taka við dómarastörfum.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en leyfi mér að eins að stinga upp á 5 manna nefnd, og vænti, að sá vandi hverfi af mér, að tala aftur í þessu máli. Það er einn lögfræðingur flutningsmaður með mér, og getur hann tekið til máls ef honum sýnist. Hann hefir sagt mér, að hann hafi eina athugasemd að gera, en vitanlega getur hún eins vel komið fram á öðru stigi málsins.