03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Ráðherra (H. H.):

Það hefir verið fundið að því á undanfarandi þingum þegar stjórnin hefir gripið til þess að greiða fé úr landssjóði án fjárveitingar fyrirfram, enda er bannað í stjórnarskránni að greiða gjöld, sem ekki er heimild fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. En nauðsyn verður stundum að »brjóta lög« hér sem annarstaðar, og hefir ekki orðið hjá því komist, milli fjárlagaþinga, að inna af hendi ýms gjöld upp á væntanlega aukafjárlagaveiting. Hér á landi er oft sérstaklega knýjandi nauðsyn til þess, af því að þing kemur að jafnaði ekki saman nema annað hvert ár, og útgjöldin geta oft ekki beðið svo lengi. En nú, þegar þingið er hér saman komið og fyrir liggur verk, sem nauðsynlega þarf að vinna, og sem ekki verður frestað nema með því, að gera stórum bygðarlögum ógagn, þá virðist ekki nema sjálfsagt að leita heimildar þingsins, þótt aukaþing sé. Og sú heimild, sem hér er um að ræða, verður ekki gefin með þingályktunartillögu, heldur í fjárlögum eða aukafjárlögum. Ef þessu frumvarpi verður hafnað, þá hefir Húnavatnssýsla, og jafnvel fleiri, ekki það gagn af skipsferðunum, sem ráð er fyrir gert. Auk þess eru í frumv. smáatriði, sem ekki geta beðið. Það er t. d. styrkur til eins dýralækninganema erlendis, sem einungis hafði fallið burt af vangá. Menn höfðu litið skakt á og gengið út frá því, að hann lyki prófi einu ári fyrr en til stóð. Það væri ranglátt, að svifta hann styrk fyrir þennan misskilning, enda hefir hann hin beztu vottorð um dugnað og ástundun. En þessir peningar eru ekki veittir, og úr því að lögð eru fram aukafjárlög á annað borð, þá þótti sjálfsagt að setja þetta þar, og eins þennan lítilfjörlega styrk til fátækrar ekkju, samkvæmt meðmælum hlutaðeigandi embættismanna.

Eg vona svo góðs til háttv. deildar, að hún sé ekki eins hrædd við ráðleysi sjálfrar sín eins og háttv. þingm. Árn. virtist vera, og skipi að minsta kosti nefnd í málið, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) lagði til, og kann eg honum þakkir fyrir tillögu sína.