10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

72. mál, hlutafélagsbanki

Einar Arnórsson :

Eg get að mestu leitt hjá mér deilur þeirra háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) og háttv. 1. þingm. G.-K. (B. Kr.). Það vill svo til, að eg er þeim sammála um mörg atriði, þótt við getum ekki fylgst að út í yztu æsar.

Það var aðallega ræða háttv. þingm. N.-Þing. (B. Sv.) sem kom mér til að standa upp. Hann talaði um, að nefndarálit það, sem eg og meiri hluti nefndarinnar höfum skrifað undir væri harla einkennilegt. Hann virtist helzt álíta, að niðurstaðan, sem þar er komist að, riði í bága við það, sem áður væri tekið fram í því. En þetta er misskilningur. Þar sem bent er á í nefndarálitinu, að eg vildi láta gera breytingu á þeirri skipun, sem nú er á bankanum, þá er það sett þar fram til leiðbeiningar, ef bankinn hugsaði sér síðar meir að fá seðlaútgáfurétt til frambúðar. Ef svo væri um hnútana búið, sem eg hefi lagt til, þá mundi það miklu hollara fyrir bankann sjálfan; það mundi auka álit hana, en með áliti bankans vex og álit landsins, hagsmunir beggja falla saman á margan hátt, því að bankinn stendur og fellur með íslenzkum fyrirtækjum. Og þau standa og falla mörg með honum. Eg vil að eins benda á, hve botnvörpuútvegur vor hefir vaxið stórkostlega hin síðari ár. Nú munu vera til 16 íslenzkir botnvörpungar. Af þeim mun Íslandsbanki hafa styrkt langflesta, Landabankinn hefir reyndar styrkt nokkra, en Íslandabanki miklu fleiri. Ef þessi fyrirtæki færi á höfuðið, þá mundi það koma niður á bankanum og ef bankinn færi á höfuðið, þá mundi þessi fyrirtæki hallast. Það sem í nefndarálitinu er sagt, er ekki sett fram til þess að leggja neinn dóm á hag bankana nú, heldur að eins til leiðbeiningar, ef farið yrði síðar að gera breytingar á skipulagi bankans, og vegna þess, að eg tel stjórn bankans ekki heppilega fyrir komið og ýmsu öðru ábótavant við hann hefi eg ekki getað lagt til, að bankinn fengi öðruvísi réttindi en til bráðabirgða, eða til októberloka 1915.

Eg býst við, að bankinn vilji fá aukinn seðlaútgáfurétt til frambúðar og þá er það undir bankastjórn, bankaráði og hluthöfum komið, hvort þeir vilja vinna til þess með því að taka til greina bendingar þær, sem gerðar eru í nefndarálitinu.

Hver þingmaður, sem samþykkir br. till. þær, sem meiri hluti nefndarinnar hefir komið fram með, hefir alveg óbundnar hendur í framtíðinni, hverju hann greiðir þá atkvæði um réttindi bankans. Eg lýsti yfir þessu fyrir mína hönd við 2. umræðu þessa máls og sama gerði og háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.).

Háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.) þótti kynleg niðurstaða sú, sem einn hluti nefndarinnar hefði komist að í nefndarálitinu, en eg held að hún sé ekkert kynleg. Það er sitt hvað, að ýmsu sé ábótavant um bankann eða að hann standi illa, eða í þriðja lagi að gallarnir sé þess eðlis, að neita beri honum með öllu um þann rétt, sem hann biður um. Þótt eg sé ekki ánægður með skipulag bankans — síður en svo — þá held eg þó ekki, eftir reikningum hans að dæma, að það geti verið neitt hættulegt að auka seðlaútgáfuréttinum til bráðabirgða, með því skilyrði, að ef seðlaútgáfurétturinn er aukinn, þá sé gulltryggingin hækkuð upp í 50% í stað 37½%, sem hún nú er.

Ef menn athuga reikninga bankana, þá hefir hann allsæmilegan varasjóð eftir aldri. Nemur varasjóður bankana nú 325.583 kr. Það mun nú vera rétt hjá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að bankinn hafi beðið talaverðan halla af viðskiftum við tvö eða þrjú félög í seinni tíð, en eftir því sem Sighvatur Bjarnason bankastjóri sagði mér, þá er sá halli þó ekki svo mikill, að hann geti orðið valdandi verulega hnekkis. Samkvæmt síðasta reikningi 31. desbr. 1918 hefir bankinn gert um 150 þús. kr. fyrir tapi, en varasjóður þó aukist um 27–30 þús. kr.

Menn hefir greint á um viðskiftaþörfina, og álit bankafræðinganna hér í deildinni er hvað á móti öðru. Það er varla fyrir óbankafróða menn að ætla sér þá dul, að dæma á milli þeirra. En eg skal leyfa mér að skýra frá þeim upplýsingum, sem Sighvatur bankastjóri Bjarnason hefir látið mér í té um seðlaforðann. Seðlaforði sá, er í umferð var, var svo mikill í miðjum október 1913, að inni vóru að eins 70–80 þús. kr., en þetta er ekki stöðugt, það stendur ekki á steini, það er suma daga meira, suma daga minna. Á haustin er mest af seðlunum í umferð vegna fiskkaupa o. fl., en svo fara þeir að koma inn aftur fyrir og eftir nýár.

Árið 1901 var litið svo á á alþingi, að 2–2½ miljón væri hæfileg seðlavelta hér á landi, sbr. þskj. 45 í Alþt. 1901 A. Eg veit ekki hver viðskiftavelta landsins var þá, en nú er hún 30 milj. kr., en hún hefir aukist mikið á þessum 13 árum, sem síðan eru liðin, og má óhætt segja, að hún hefir aukist hraðara en svo, að jafnast geti á við þá seðlafúlgu, sem nú getur verið í umferð, sem er alls 2.500.000 + 750.000 = 3250 þús. krónur. Gjaldmiðilsþörfin veg og minkar eftir því sem; viðskiftaþörfin veg eða minkar. Það mun rétt hjá háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), að seðlar þeir, sem mest geta verið í umferð hér á landi, nemi 37–38 kr. á mann. Árið 1941 var sagt, að á Norðurlöndum næmi þá Seðlaumferðin 40–45 kr. á mann. Það er ekki ólíklegt, að þessi hlutföll hafi staðið rétt heima þá (1901), en þar fyrir þarf ekki að vera svo nú. Það var sagt í efri deild í dag, tekið úr skýrslu fánanefndarinnar og bygt á útreikningi Hagstofu Íslands, að vér Íslendingar værum önnur mesta siglingaþjóð í heimi að tiltölu við fólksfjölda. Ef það er rétt, þá skyldi mig ekki kynja, þó að vér þyrftum nú jafnmikinn gjaldmiðil og aðrar Norðurlandaþjóðir. Eg hygg því, að alt útlit sé til þess, að viðskiftaþörfin krefjist aukinn gjaldmiðils. Það er að vísu satt, að seðlar út af fyrir sig eru ekki veltufé, en sé þeir vel trygðir, þá eru þeir ytra tákn veltufjár — þeir eru gjaldmiðill, sem leysir bundinn auð.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) spurði hver trygging væri fyrir því, að þessi réttur bankans yrði ekki framlengdur síðar. Eg vil skjóta til hans annarri spurningu: Hvaða trygging er fyrir því, að bankanum verði ekki veittur þessi réttur, þótt þetta þing skjóti alveg skolleyrunum við því, sem bankinn fer nú fram á? Það er auðvitað alt komið undir skoðunum þeirra manna, er sitja næsta þing. Sami háttv. þm. (B. Sv.) sagði, að bankinn yrði fyrst að breyta skipulagi sínu áður en hann færi að fitja upp á þessu. Ef hér væri að ræða um réttindi, sem veitt væri bankanum til frambúðar, þá myndi eg, eins og eg hefi tekið fram bæði í ræðu og í nefndarálitinu, gera þetta að skilyrði fyrir því, að bankinn fengi aukinn seðlaútgáfurétt. En þetta frumvarp, eins og það er nú orðið, er að eins til bráðabirgða, og það yrði vitanlega algerlega ómögulegt að fara nú í þinglokin að gera þessar breytingar. Þingið gæti ekki beðið eftir því. Að vísu mun það ekki skifta háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) miklu, þótt þingið sitji nokkra daga ennþá, en eg hygg að menn utan af landi sé farið að lengja að komast heim til búa sinna og vilji ekki bíða lengur en brýnasta nauðsyn krefur.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) spurði, hvers vegna enginn mintist á Landsbankann — að hann þyrfti veltufé. Eg mundi verða manna fyrstur til þess að vera með því að auka veltufé hans, ef eg sæi nokkur tök á því. En það er ekki hægt að lögum, að minsta kosti ekki undir venjulegum kringumstæðum. Háttv. þm. (B. Kr.) sagði, að 8. gr. laganna mætti breyta með samþykki málsaðilja. Það er að vísu satt. En hverir eru hér málsaðiljar? Mér skilst svo, að það felist í greininni, að ekki einungis sé hluthöfum veittur þessi réttur, heldur hverjum þeim manni, sem hefir Íslandsbankaseðil í höndum. Mér skilst, að handhafar seðlanna geti komið og sagt, að réttur sé tekinn af bankanum og tryggingin þar með minkuð, og geti heimtað seðilinn innleystan með gulli. Auðvitað hafa handhafar seðlanna þennan rétt nú, en það er ástæðulaust fyrir þá að nota sér hann, meðan einkaréttur bankans helzt, og það er nú einu sinni svo um hnútana búið, að þessi réttur verður ekki af honum tekinn fyrr en eftir 20 ár. Þingið 1901 gekk nú einu sinni svona frá lögunum, og af því verðum vér nú að súpa seyðið. Sat háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) þá á þingi og gekk manna bezt fram í því að skapa Íslandsbanka og veita honum þau réttindi, sem nú hefir hann. Hafði þingið 1901 þó fyrirmyndir fyrir sér frá öðrum löndum í þessu efni. Í upplýsingum frá stjórn Þjóðbankans danska um það, hvernig seðlaútgáfuréttinum sé hagað í ýmsum löndum, er skýrt frá því, að Banque de France er hann veittur til 23 ára í senn, Ríkisbankanum þýzka til 10 ára og í Englandsbanka hefir hann verið uppsegjanlegur með 1 árs fyrirvara síðan árið 1844. Hefði þingið getað tekið sér eitthvað af þessu til fyrirmyndar. En þá var nú öldin önnur. Þá vildi háttv. 1. þm. G.-K. (B. gr.) eigi aðeins veita Íslandsbanka hlunnindin, heldur einnig leggja Landsbankann niður.

Ágreiningurinn milli mín og háttv. minni hluta, er fólginn í því einu, að sinn dregur hvora ályktunina út af göllum á fyrirkomulagi bankans. Eg fer fram á það, að bætt sé úr göllunum áður en bankanum er veittur þessi réttur til frambúðar, en vegna þess, að eg býst við, að viðskiftaþörfin krefji meiri seðlaútg., vil eg ekki neita bankanum um tímabundinn útgáfurétt. Minnihlutinn dregur þá ályktun, að vegna gallanna á skipulaginu, sé óráðlegt að veita bankanum þennan rétt, þótt um alveg ákveðinn tíma sé að ræða. Þetta er aðalmismunurinn.

Viðvíkjandi birtingu á mánaðarreikning bankans, sem talað er um í 38. gr. reglugerðarinnar, skal eg geta þess, að það er ekki brot á bókstaf greinarinnar, að reikningurinn er aðeins birtur í Börsen, en ekki hér á landi.

En það eru fleiri en Danir, sem þurfa að vita um hag bankans. Það eru íslenzkir hluthafar hans, innieigendur í honum. Þeim er ekki nóg, þótt reikningurinn sé birtur í dönsku blaði, sem margir þeirra hafa alls eigi heyrt né séð.