26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

43. mál, verðlag á vörum

Jóhann Eyjólfsson :

Það er alveg satt, að það er hvorttveggja vandaverk, bæði að skipa. í þessa nefnd, og að sitja í henni, svo að eigi geti valdið ágreiningi um það, hve mikið vald nefndin megi taka sjer, svo að hún gangi ekki um of á eignarrjett manna og viðskiftalíf þeirra, því þótt að síðasta nefnd væri raunar varkár í þeim efnum, og skifti sjer ekki af varðlaginu, fram yfir það, sem nauðsynlegt var, þá á maður slíkt ekki alt af víst. Nú heyrir maður allháværar raddir í þá átt, að nauðsyn muni vera að beita þessari aðferð viðvíkjandi innlendri vöru, ekki síður en gagnvart útlendu vörunni. Það er enginn efi á því, að ilt er að koma þessu á, nema með því, að takmarka að mun eignarrjett manna og viðskiftafrjálsræði, og er ilt að binda hendur manna þannig um vöruskifti.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) telur þetta ekki vera band á eignarrjettinum, en jeg fæ ekki sjeð, hvernig hægt er að banna útflutning á vöru, án þess að takmarka eignarrjett manna. Jeg hygg enn þá enga nauðsyn bera til þess, að taka í taumana í þessu efni, því engin neyð er á ferðinni. Það er að vísu satt, að útlenda varan er orðin nokkuð dýr, en þó eru margar vörutegundir enn þá mikið til með sama verði og þær stundum hafa verið, svo sem kaffi, sykur o. fl. En jeg gæti aftur á móti vel hugsað mjer, að menn á stríðstímum hættu við að kaupa ýmsar þær vörur, að miklu leyti, sem þeir best mega án vera, og spara þannig við sig, fremur en að fara þegar að hugsa um að takmarka viðskiftin. Jeg er t. d. sannfærður um, að flest sveitafjelög mundu íhuga það, hvernig þau mættu sjá bæjum sínum borgið, án þess þó að gjöra það á kostnað annara. Sama finst mjer að Reykjavík gæti gjört, t. d. með því að gjöra út 2–3 trollara, á sinn kostnað. Væri það nær en hitt, að setja matsnefnd, til þess að athuga, hvernig megi fá kjöt ódýrast. Jeg álít það óheppilega braut að velja sjer,. sem geti haft tálþrungnar afleiðingar, að takmarka sjálfræði manna í viðskiftum, og má ekki gjöra slíkt, nema hin brýnasta nauðsyn sje, en svo langt er ekki komið enn þá. Kaup manna hefir líka áreiðanlega hækkað nálega að sama skapi, sem varan hefir orðið dýrari. Jeg vil láta menn hugsa um að spara sem mest, og athuga hvers þeir helst megi án vera, og haga sjer þar eftir.

Jeg skal játa, að jeg gjöri mjer von um, að þessi nefnd fari varlega, en vildi þó heldur, að henni yrði sett einhver þau skilyrði, að nokkurn veginn fengist vissa fyrir því, að hún brendi sig ekki á þessu, eins og barn, sem fengið er ljós í hendur.