26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

43. mál, verðlag á vörum

Frsm. (Þorl. Jónsson) :

Jeg þarf ekki að standa upp til þess að svara hv. 1. þm. Rvk. (S B.) löngu máli, því að það er ekki svo mikið, sem á milli ber. Hann vill ekki viðurkenna, að stjórnin eigi að hafa það til hliðsjónar, sem um þetta stendur í nefndarálitinu, þar sem jeg aftur á móti álít, að nefndarálitið eigi að vera mælisnúran. Honum finst, sem ekki megi halda verðinu á vörunni óeðlilega háu, og er smeykur við, að myndist framleiðslufjelagsskapur, sem komi sjer saman um að selja framleiddu vöruna með okurverði. En slíkur framleiðslufjelagsskapur myndi alt af þurfa að hafa útsölu í bæjum, og þær geta fallið undir orðalag nefndarinnar, ef verðið er sett óhæfilega hátt. Það sem nefndin hafði í huga, var, að ekki væri vert að gefa mönnum undir fótinn, að hægt væri að lækka vöruna upp á slump. Kemur það líka heim við orð þingmannsins um það, að ekki megi skerða eignarrjett manna. En það væri að skerða eignarrjettinn, ef menn mættu ekki halda vöru hjer á landi í sama eða líku verði og fæst fyrir hana erlendis, að frádregnum kostnaði við fragt o. s. frv. Þó að það geti hent í útlöndum, að óeðlilega hátt verð sje þar á vöru, vegna þess, að hún sje bannvara, þá sje jeg ekki, að við Íslendingar getum til muna fært okkur það í nyt, þar sem útflutningur okkar á ýmsum þeim vörum, sem alls ekki eru bannvörur, hefir verið stöðvaður af Bretum. Frumvarp þetta er ekki langt, en jeg tel það þó æði-mikilvægt. Hygg jeg, að ekkert geti verið athugavert við það, þó að heimild sú, sem slík nefnd hefir, til þess að setja hömlur á frjáls viðskifti, sje fremur takmörkuð, vegna þess að mjer finst eðlilegt, að ekki sje farið ógætilega í það, að skerða eignarrjett manna.

Jeg læt svo lokið máli mínu að sinni, en býst við því, að frumvarpið verði samþykt.