20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Þórarinn Benediktsson:

Það er víst alveg rjett hjá háttv. framsögum. (G. H:), að nefndin hefir átt í mesta basli. Hún er nú loks búin að gefa út tvennar brtt. Og þótt þær síðari sjeu talsvert skárri en þær fyrri voru, þá finst mjer samt ekki því að heilsa, að þær sjeu til bóta, minsta kosti ekki allar. Jeg skal nú í fám orðum segja hvað það er, sem jeg finn mest að till. nefndarinnar.

Samkvæmt frumvarpinu áttu sýslunefndirnar að sjá um framkvæmd mælinganna, og var þá ætlast til þess, að þær fengju búnaðarsamböndunum þær í hendur, auðvitað með því fororði, að búnaðarsamböndin vildu taka góðfúslega að sjer, að framkvæma þær. Jeg efast alls ekki um, að búnaðarsamböndin mundu taka þetta starf að sjer, enda best komið í höndum þeirra. Nú er ætlast til þess, samkvæmt brtt. nefndarinnar, að þessi mælingarskylda sje lögð á búnaðarsamböndin með lögum. Það tel jeg vafasamt, hvort hægt er að leggja slíka kvöð á búnaðarsamböndin. Jeg lít svo á, að þau sjeu ekki skyld til að hlýða .því, þótt þeim væri falið það. Í raun og veru eru búnaðarsamböndin privatfjelög, sem ekki standa undir löggjafarvaldi eða landsstjórn beinlínis, enda hafa þau ekki styrk úr landssjóði, heldur frá Búnaðarfjelagi Íslands, eftir því sem búnaðarþingið úthlutar þeim. Auk þess eru hálfar og heilar sveitir utan búnaðarfjelaga og þá um leið utan búnaðarsambanda, jafn vel heilar og hálfar sýslur. Fæ jeg ekki með nokkru móti sjeð, að löggjafarvaldið geti skyldað búnaðarsamböndin til að fara þannig út fyrir starfssvið sitt. Þá er næsta aðfinslan. Nefndin vill stytta tímann, sem hafður er til að framkvæma alt verkið. Hún vill færa tímann úr 6 árum niður í 5 ár. Jeg lít svo á, að jafnvel 6 ára tími væri of stuttur, hvað þá hitt. Búnaðarsamböndin hafa bæði takmarkað fje og starfskrafta. Jeg sje því ekki betur en að þau yrðu að láta allar aðrar framkvæmdir sitja á hakanum fyrir þessu, ef þeim er ætlaður svona stuttur tími, og efast jafnvel um, að þau vildu taka að sjer, að ljúka verkinu á svona takmörkuðum tíma. Þetta virðist mjer að gæti haft mjög slæmar afleiðingar og ættu því ekki að stytta tímann, fremur lengja hann. Jeg verð því að álíta, að brtt. við 1. gr. sjeu til skemda. Aftur eru brtt. við 2. gr. mest orðabreytingar, og get jeg fallist á þær.

Þá er 3. brtt. Hún er vitanlega sjálfsögð, ef brtt. við 1. gr. verða samþyktar.

Þá skal jeg lítilsháttar víkja að því, hvernig Búnaðarþingið hugsaði sjer framkvæmdirnar á þessu máli og kostnaðinn við það.

Það hugsaði sjer, að landssjóður greiddi helming kostnaðarins og eigandi jarðar hitt; taldi það þetta sanngjarnt, því það er í þágu alls landsins, að fá sem rjettastar hagskýrslur. En undirstaðan undir rjettar hagskýrslur um ræktun landsins, fást ekki fyrr en þessar mælingar hafa farið fram. Nú hefir nefndin breytt þessu svo, að landssjóði ber ekki, samkvæmt tillögum hennar, að greiða nema 2 kr. fyrir hvert býli á landinu. Færir með öðrum orðum hluttöku landssjóðs niður um að minsta kosti helming; hinum hluta kostnaðarins á svo að jafna niður á jarðeigendur. Þetta tel jeg ekki til bóta, því það verður í alla staði að álítast sanngjarnt, að kostnaðinum sje skift að jöfnu milli landssjóða og jarðeigenda. Búnaðarþingið var eindregið þeirrar skoðunar, að ekki yrði fundinn annar sanngjarnari mælikvarði. Hafði það þó vandlega athugað það spursmál.

Í upphaflega frv. var gjört ráð fyrir niðurjöfnun, og tekið til hámark, bæði á því, sem landssjóður og jarðeigendur eiga að borga. Þetta vill nefndin afnema, en það álít jeg óheppilegt, af því, að með brtt. nefndarinnar hlyti þetta að koma mjög ójafnt niður. Sumar jarðir eru mjög stórar að hundraðatali, vegna ýmsra hlunninda, sem þeim fylgja, en ef til vill lítil tún á þeim jörðum; en á slíkum jörðum yrði þetta afarhár og órjettlátur skattur. Til þess að fyrbyggja þetta misrjetti, var hámarkið sett í frumv. Það væri því ilt, ef það yrði afnumið.

Þessar eru þá aðalaðfinslur mínar, og geta allir sjeð, að þær eru á góðum rökum bygðar, og að brtt. nefndarinnar eru síður en ekki til bóta.