20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Sigurður Sigurðsson :

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið í þessu máli með fyrirvara. Eins og háttv. flutnm. (Þ. B.) tók fram, var það ekki ætlun okkar, að því yrði ráðið til lykta á þessu þingi. Frumv. var flutt aðallega samkvæmt ósk búnaðarþingsins, í þeim tilgangi einum, að málinu yrði hreyft hjer, svo að álit manna kæmi fram um það. En hins vegar var þá tilætlunin, að málið yrði látið bíða næsta þings, og stjórnarráðinu falið að leita umsagnar sýslunefnda um það til þess tíma. Og það er enn skoðun mín, að þetta sje æskilegasta og rjettasta leiðin.

Um brtt. nefndarinnar skal jeg ekki segja margt. Jeg er sumum þeirra samþykkur, en aðrar tel jeg miður til bóta, svo að jeg taki ekki of djúpt í árinni. En þar sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) hefir nú gjört sínar athugasemdir við brtt. nefndarinnar, þá get jeg vísað til þess, sem hann hefir sagt um það efni, og tek undir það með honum. Sjerstaklega tel jeg varhugavert að sleppa ákvæðum 5. gr., þar sem talað er um, að kostnaðinum skuli jafnað niður að hálfu eftir býlatölu og að hálfu eftir hundraðatölu, en að því er snertir hundraðatöluna þó svo, að aldrei komi meira á eitt býli en 10 kr. alls. Um hitt, að þessum mælingum geti ekki orðið framgengt til 1920, legg jeg ekki mikið upp úr, og hallast heldur að því áliti nefndarinnar, að það mætti takast.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vildi vekja athygli á, og það er þetta, að enn þá eru margar sveitir á landinu, sem ekkert búnaðarfjelag er í, og í mörgum sveitum, þar sem búnaðarfjelög eru, eru margir einstakir menn, sem ekki eru í fjelögunum. Nú er spurningin fyrir mjer þessi: Er ekki vafasamt, að búnaðarsamböndin geti gjört sig gildandi gagnvart þeim sveitum, sem ekkert búnaðarfjelag er til í, og enn fremur gagnvart þeim mönnum, sem ekki eru í neinu búnaðarfjelagi?

Jeg hefði fyrir mitt leyti helst viljað afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá. Jeg skal þó ekki bera fram slíka dagskrá við þessa umræðu, því að jeg ætla fyrst að sjá, hvernig reiðir af brtt. nefndarinnar og málinu í heild sinni. En jeg geymi mjer rjett til að gjöra það við 3. umr., ef málið kemst svo langt, og mjer býður svo við að horfa.