20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Björn Hallsson:

Jeg ætla nú að byrja á endirnum og láta það í ljós, að mjer kom nokkuð á óvart þessi ræða háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), af því að jeg starfaði með honum í landbúnaðarnefndinni. Þessi fluga, sem hann sendi frá sjer, þegar hann settist niður, var ekki svo vart yrði komin honum í hug í nefndinni. Mjer finst ekki rjett að setja fótinn fyrir frumvarpið; jeg vil lofa því að ganga til Ed. og ræðast þar.

Annars ætlaði jeg að leyfa mjer að minnast örfáum orðum á brtt. nefndarinnar.

Brtt. á þgskj. 439 eru soðnar upp úr brtt. á þgskj. 309, sem hafa verið teknar aftur. Þegar nefndin hafði. athugað frumv. betur og átt tal um þetta mál við formann Búnaðarfjelagsins og fleiri, þótti henni rjettara, að færa það nær því horfi, sem farið er fram á í þessu þgskj. Sjerstaklega var það viðvíkjandi teimur liðum, gagnvart því, hver ætti að framkvæma mælingarnar, hvort hægt væri að skylda Búnaðarfjelagið eða búnaðarsamböndin til þess, og eins hvar ætti að taka fje til að kosta þær. Jeg leit svo á í nefndinni, að það væri vafasamt, hvort hægt væri, að skylda Búnaðarfjelagið til þess, fyrst og fremst af því, eina og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram, að enn sem komið er, eru ekki til búnaðarfjelög í öllum sveitum landsins, og hafa þá samböndin lítil ráð þar. Þess vegna settum við meðal annars það ákvæði, að sýslumenn hefðu yfirumsjón mælinganna og gætu þá sjeð um mælingar þar, sem samböndin næu ekki til.

Þá er hjer í brtt. okkar felt niður 10 kr. hámarkið. Það er gjört af því, að þegar um afskektar jarðir inn til dala er að ræða, eða eyjar, sem ekki eru nema eitt býli, þá er kostnaðurinn við að fara þangað svo mikill, að það er ekki hægt að gjöra það fyrir 10 kr. Það er í sjálfu sjer rjett hjá háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.), að þetta getur orðið ranglátt gagnvart öðrum stöðum, en það er ilt að sigla milli skers og báru í þessu efni. Við höfum ætlast til, sé mælingunum yrði lokið 1920. Við vildum, að mælingunum yrði lokið á sem stytstum tíma, til þess að fullkomnara samræmi væri í þeim. Við ætluðumst til, að það yrðu ekki miklar breytingar á stærð túna og garða á þeim tíma, sem mælingin stæði yfir, og þess vegna er æskilegast, að tíminn sje sem stytstur. Það var þetta, sem aðallega lá til grundvallar fyrir því, að stytta tímann. Hina vegar get jeg tekið undir það með háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að mjer er það ekkert áhugamál, að frumv. gangi fram nú, þó ekki sjái jeg raunar nein veruleg vandkvæði á því.

Það er engin grýla fyrir jarðeigendur, þótt þeir greiði meiri hluta kostnaðarins við mælingarnar. Það er bæði fróðlegt og gaman fyrir þá að vita með vissu um stærð túna sinna og garða og eiga uppdrætti af þeim. Jeg held því, að það sje vel fært, að leggja meiri hluta kostnaðarins á þá. Hins vegar borgar landssjóður fyrir ummálsupp. drætti þá, sem stjórnarráðið á að fá, svo að hann tekur fyrir sitt leyti ríflegan þátt í greiðslunni. Okkur fanst ekki rjett að íþyngja landssjóði um of því að hann hefir í mörg horn að líta, og rjettara að láta jarðeigendur bera sem mest af kostnaðinum, og það því fremur, sem landasjóður á mikið af jörðum, svo að töluverður kostnaður lendir á honum hvort sem er.