06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Frsmsm. (Guðm. Hannesson):

Jeg held, að jeg hafi tekið það fram áðan, að það væri ekki mannsins vegna, sem farið er fram á, að þetta embætti sje stofnað. Hitt er satt, að það átti sinn þátt í því, að málið kom fram að þessu sinni, að nú var völ á hæfum manni, til þess að taka við þessu embætti. En um þörfina á því að stofna það getur ekki verið vafi.

Hvað því viðvíkur, sem háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) gat um, að kennararnir við Háskólann hefðu ekki langan vinnutíma, þá skal jeg taka þetta fram, að jeg álít, að svo framarlega sem prófessorar við Háskólann vilji standa sómasamlega í stöðu sinni, þá geti ekki komið til mála, að telja kenslutíma þeirra í skólanum sama sem vinnutíma þeirra. Þvert á móti mun það vera svo, að minstur tíminn af vinnutíma þeirra fari til kenslu, því að mikill meiri hluti tímans mun fara til undirbúnings og annarra starfa í þjónustu embættisins. Jeg veit um einn kennarann í minni deild, að vinnutími hans byrjar kl. 8 á morgnana. og stendur yfir allan daginn, og jeg þykist góður, ef jeg get náð í hann, til þess að tala við hann nokkur orð á kvöldin.

Þessi kennari, sem jeg gat um, er sá sem kennir handlækningar við skólann. Um mig veit jeg, að vinnutími minn er sjaldan minni en 10 stundir á dag.

Jeg vildi láta þessa getið, til upplýsingar fyrir þá, sem halda að kenslutími okkar sje eini vinnutíminn.