13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsm. minni hl. (Eggert Pálsson):

Jeg mintist á það við 2. umræðu þessa máls, að það kæmi ekki ljóst fram í frumvarpinu, hvort ætlast væri til, að hjálpin skyldi ná til manna, sem þiggja af sveit, eða ekki. Jeg ljet í ljós, að ef fátæklingar hefðu þörf fyrir hjálp, þá ætti sú hjálp, mannúðarinnar vegna, einnig að ná til þeirra, sem þiggja af sveit. Það er ekki rjett, að reikna þeim til syndar þeginn sveitarstyrk, sem einungis stafaði af hinni svo nefndu dýrtíð, ef verið væri á annað borð að útbýta gjöfum til annarra fátæklinga. Nú sje jeg, að brtt. meiri hlutans tekur algjörlega gagnstætt í málið. Hann vill láta það koma skýrt fram í frumv., að slík hjálp nái ekki til þeirra, sem þegið hafa sveitarstyrk. Með öðrum orðum, meiri hlutinn ætlast til, að þessir menn sjeu algjörlega undan skildir styrk þeim, sem hjer um ræðir. Þeir einir allra fátæklinga skulu settir hjá allri svo nefndri dýrtíðarhjálp. Þetta er hvorki mannúðlega nje rjett hugsað. Jeg mun því greiða atkvæði á móti brtt., eins og líka öllu frumv. í heild sinni.

Jeg álít, að alt þetta dýrtíðarhjal sje orðum aukið og eigi ekki við nein rök að styðjast, eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram. Þó að dýrtíð sje í Reykjavík, þá á ekki að gefa út lög til að bæta úr henni, sem gilda fyrir alt landið. Það á að hjálpa Reykjavík, ef hún er illa stödd, á líkan hátt og sveitum og einstökum öðrum hjeruðum hefir verið hjálpað í erfiðum kringumstæðum að undanförnu, ef hún skyldi verða hjálpar þurfi, sem jeg tel enn alls ekki sýnt eða sannað.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók í sama strenginn og jeg, að því er þetta frumv. snertir, þrátt fyrir það, þó að hann hafi talað einna mest um dýrtíðina. Hann áleit, að það mundi að engu gagni koma, nema breytingartillaga hans yrði samþ. En mjer hefir heyrst, að háttv. meiri hluti geti ekki felt sig við þá brtt., sem ekki er heldur að búast við, og vonandi er, að ekki fái samþykki deildarinnar. Ef sú tillaga verður samþykt, virðist mjer hún geta orðið næsta hættuleg fyrir landssjóðinn. Það er sem sje innan handar fyrir hverja hreppsnefnd, að samþykkja dýrtíðarráðstafanir hjá sjer, eingöngu í því skyni, að fá þennan landssjóðsstyrk. Það er ekkert hægra en að láta fara fram málamynda niðurjöfnun í því skyni, að fá landssjóðsstyrkinn útborgaðan. Væri jeg í hreppsnefnd, mundi jeg telja hægt að koma þessari niðurjöfnun, er hjer um ræðir, svo fyrir, að hún yrði aldrei nema á pappírnum og gjaldið aldrei krafið inn, en landssjóðstillagið yrði samt sem áður að greiða hlutaðeigandi hreppi. Þetta vildi jeg biðja menn að athuga vel, áður en til atkvæða er gengið um brtt. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.).