21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Pjetur Jónsson:

Jeg býst við, að þessu máli verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar, og vildi benda henni á eitt atriði. Það er haft sem ástæða, og ein af höfuðástæðum, fyrir sölu opinberra jarðeigna, hve kjör leiguliðanna sjeu slæm. Þetta er í rauninni að eins grýla, sem sprottin er af ókunnugleika. Mjer er vel kunnugt um þetta mál, og veit það, að í Þingeyjarsýslu, að minsta kosti, er ekki hægt að sjá það, að leiguliðar á landssjóðsjörðum gjöri minni jarðarbætur en aðrir. Og svo mun þetta vera víðast annarstaðar. Þetta bendir því ekki á, að leiguliðar láti leiguliðakjörin mjög aftra sjer frá umbótum á ábýlisjörðum sínum, þegar þeir hafa varanlega ábúð, eins og reglan er. Hitt er satt, að flestir vilja láta afkomendurna njóta góðs af umbótum sínum. Enda má segja, að það sje orðið að reglu, að erfingjarnir fái ábúðarjarðir foreldra sinna, svo framarlega sem þeir vilja og eru í færum til þess. Jeg skal benda á eitt dæmi þessu til sönnunar. Það kom fyrir í vetur, að ein af mínum umboðsjörðum losnaði, og var boðið mikið í hana, til þess að fá hana til ábúðar. Einn af umsækjendunum um jörðina var erfingi þeirra, sem áður höfðu búið á henni. Hann treysti sjer ekki til að bjóða í kapp við hina umsækjendurna. Mjer þótti samt sem áður leitt að þurfa að neita manninum um jörðina, af því að jeg áleit, að boð hans um eftirgjald væri í hæsta lagi, þótt aðrir byðu hærra, og spurðist fyrir um það hjá stjórnarráðinu, hvað gjöra ætti, þegar svona stæði á. Stjórnarráðið fjelst á, að láta erfingjann fá jörðina, þótt hann byði í hana nærfelt fjórða parti lægra en hæstbjóðandi. Þetta sýnir, að kjör leiguliða þurfa ekki að vera nein grýla. Jeg ímynda mjer, að sama megi segja um kirkjujarðir, þótt jeg sje því ekki eins kunnugur. Það hefir til skamms tíma staðið öðru vísi á með þær en þjóðjarðirnar, á meðan prestar höfðu af þeim beint tekjur sínar. En nú er þetta breytt, og jarðirnar komnar undir hreppstjórana og yfirumsjón landstjórnar, og er þá hægur hjá, að hafa leiguliðakjörin góð og tryggileg.

Þetta frumvarp fer ekki fram á annað en að þjóðjarðasölulögunum verði frestað um 5 ára tíma. Það eru þeir tímar nú, að verðgildi peninga er á völtum fæti. Verðið á vörunum hækkar og lækkar, svo miklu nemur á skömmum tíma, og því er mjög örðugt að ákveða sannvirði jarðeignanna. Meðal annars hefir þetta þær afleiðingar, að auka »spekúlations«-andann hjá þjóðinni og koma opinberum jarðeignum inn í þann straum, En ekkert er hættulegra en slíkt fyrir tilgang þjóðjarðasölulaganna, svo sem hópakaup á jörðum o. fl. Jeg get ekki sjeð, að nokkru sje spilt með því að fresta lögunum um svo sem fimm ára skeið, og vildi því óska, að þetta frumv. kæmist í gegn um þingið.