21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Flutnm. (Sveinn Björnsson):

Jeg ætla mjer ekki að lengja umræðurnar að þessu sinni, því að jeg þykist vita, að það sje eftir að ræða málið töluvert, þegar það kemur úr nefnd, og ættu menn heldur að gjöra sjer að reglu, að endurtaka ekki við hverja umræðu það, sem þeir hafa áður sagt, eins og jeg hygg að 2. þm. S.-M. (G. E.) ætli nú að gjöra. Hann las áðan kafla úr þingtíðindunum frá 1905, og mjer heyrðist á honum, að hann ætli að lesa annan kafla, þegar málið kemur aftur úr nefnd.

Annars get jeg tekið undir það með háttv. þm. N.-Þing. (B. S.), að sá stóri landsdrottinn, landssjóður, ætti að gjöra byggingarkjör leiguliða svo góð, að maður geti með sanni sagt, að hann sje besti landsdrottinn í landinu. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki jafnmikla landbúnaðarþekkingu, eins og sumir háttv. þm. hjer í deildinni, en jeg er sannfærður um, að þegar það er orðið, að landssjóður hefir bætt ábúðarkjör leiguliða, þá verður ekki langt á milli þess, að vera leiguliði landssjóðs og hins, að eiga jörðina sjálfur. En jeg tel það nauðsynlegt fyrir landssjóð, að eiga jarðirnar.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar frekar, en vænti þess, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.