04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Framsögum. meiri hl. (Björn Hallsson):

Í raun og veru er óþarft að ræða mikið þetta þjóðjarðasölumál. Bæði er það ekki í fyrsta sinn, sem það er á dagskrá hjer á þingi, og auk þess hefir nú komið út nefndarálit frá báðum hliðum, og jeg lít svo á, að aðallega sjeu það nefndarálitin, sem á er að byggja, en umræðurnar hafi minni þýðingu.

En af því að hjer er um nýja leið, frestun á framkvæmd laganna, að ræða, og af því að samkomulag hefir ekki náðst í nefndinni, frekara en í sumum öðrum málum, sem hrúgað hefir verið í landbúnaðarnefndina, eins og nefndarálitin bera með sjer, þá mun rjett að fara nokkrum orðum um málið.

Jeg lýsti skoðun minni á þjóðjarðasölumálinu á síðasta þingi, og hefi jeg í engu breytt um skoðun síðan. Jeg lít svo á, að þessi stefna, þjóðjarðasalan, miði verulega að því, að rækta landið. Vjer þekkjum það allir, að sjálfseignarbændur láta sjer annara um jarðir sínar en leiguliðar. Sama gildir um húsabætur; þær verða mjög erfiðar leiguliðum, því að þeir eiga enga endurgjaldskröfu fyrir annað en viði, en ekkert fyrir vinnu, t. d. tóptagjörð og þvílíkt, og vita þó allir, að í því liggja eigi litlir peningar. Því eru það að eins ósjerhlífnustu og framtakssömustu menn, sem leggja út í verulegar húsabætur á annara jörðum.

En sjálfsábúðin hefir þá þýðingu, að menn leggja miklu meira á sig í þeirri von, að afkomendurnir hafi nytjar verka þeirra. Og því betur ræktað sem landið verður, því meir eykst verðgildi þess og þar með tekjur landssjóðs, jafnframt því sem landssjóður fær endurgjald fyrir seldar jarðir.

Meiri hlutinn lítur svo á, að frestun laganna sje andstæð tilgangi þjóðjarða- og kirkjujarðasölulaganna, og sje fyrsta sporið til að afnema þau, en því erum við mótfallnir. Og þótt nú liggi fyrir rækilegt álit frá minni hlutanum, þá hefir hugur meiri hlutans ekki snúist við það. Þar eru meðal annars nokkrar tillögur um erfafestuábúð, og hefir verið vikið að þeim í nefndaráliti voru, sem kom seinna fram. Meiri hlutanum þykir ekki sýnt, að erfðafestuábúð, sem er lítið reynd, tryggi betur en sjálfsábúð, að afkomendur ábúanda haldi áfram búskap á jörðunum. Liðurinn c. í þeim tillögum þykir oss og mjög ísjárverður. En hann hljóðar svo, ef jeg má með leyfi hæstv. forseta lesa hann upp:

»Allar húsa- og jarðabætur, er ábúandi gjörir á jörðunni, eru hans eign, og greiðast honum eftir sanngjörnu mati, er hann fer frá jörðunni. Þó skal eigi hærra metið en svo, að svari því afgjaldi, sem leigja mætti jörðina fyrir«.

Vjer lítum svo á, að þetta niðurlagsákvæði sje verulegur Þrándur í Götu fyrir erfðafestu, því að sá, sem mikið hefir lagt í húsa- og jarðabætur og fer frá jörðinni, fær tiltölulega minna en vert er, og fjárhagshættan því þeim mun meiri fyrir fráfaranda, sem hann hefir lagt meira í kostnað.

Þetta atriði er því alt annað en meðmæli með erfðafestuábúð. Jeg skal að vísu kannast við það, að sá galli fylgir þjóðjarðasölunni, að jarðirnar geta með því móti lent í höndunum á útlendingum og bröskurum; enda er mjer sagt, að hjer umhverfis Reykjavík beri töluvert á því, að braskað sje með jarðirnar. En jeg hygg, að þetta sje mestmegnis hjer kringum höfuðstaðinn. Jeg veit að minsta kosti, að í hjeraði mínu, Fljótsdalshjeraði, þekkist það varla, að jarðir gangi þannig kaupum og sölum. Svo hygg jeg að sje í flestum sveitum landsins, og eru því þetta engin veruleg mótmæli í okkar augum.

Jeg álít það vitaskuld alveg rjett að fyrirbyggja, að jarðir safnist mikið á eina hönd. En frv., sem var hjer fyrir þinginu um forkaupsrjett landssjóðs á jörðum, var ekki tiltækilegt að samþykkja, þar sem 2. gr. frumv. gekk vafalaust á móti 50. gr. stjórnarskrárinnar. En þó að nokkrir gallar sjeu á jarðasölunni, þá eru þó kostirnir svo yfirgnæfandi við að selja þær, að jeg vil ekki verða til þess, að setja neinn stein í götuna fyrir það.

Minni hlutinn heldur því fram í nefndaráliti sínu, að kaup á jörðum minki gjaldþol kaupanda, en meiri hlutinn lítur svo á, að þar sem svo lítill hluti, að eins 1/10 partur, á að greiðast þegar kaupin fara fram, og árleg afborgun og vextir litlu meira en venjulegt eftirgjald, þá geti varla verið um slíkt að ræða.

Það er og bent á það í nefndaráliti meiri hlutans, að við álítum sölu jarðanna styðja að bættum húsakynnum, og dettur víst engum í hug að álíta það atriði þýðingarlítið. Sömuleiðis að það speki menn og gjöri menn ónægðari við landbúnaðinn. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hve háar kröfur menn gjöra nú á tímum til bættra húsakynna. Og í þeim sveitum, þar sem hvorutveggja er til, sjálfseignarábúð og leiguliða, þar má glögglega rekja slóðina eftir því, hve miklu betur er vanalega hýst á þeim jörðum, sem eru í sjálfseignarábúð, vegna þess, að leigjandi á alt af fjártap á hættu, ef hann tekur sig til og byggir mikið. Mjer dettur nú strax í hug glögt dæmi upp á þetta, þar sem eru tveir hreppar, sem jeg er mitt á meðal. Í öðrum hreppnum eru 19 jarðir alls; þar af eru 15 í sjálfseign. Af þessum 15 jörðum hafa 9 stór og myndarleg íbúðarhús úr steini og verið reist á fáum árum, og virðist þar vera skift um til batnaðar frá gömlu torfhúsunum. Og þó að þau sjeu dýrari í svip, þá vinst sá mismunur fljótt upp á viðhaldinu, þar sem alt af þarf að vera að dytta að torfbæjunum á fárra ára fresti. Auk þess hafa eigendurnir auðvitað gjört ýmsar jarðabætur á jörðum sínum.

Þetta er gott sýnishorn upp á það, hve mikið meira er hlynt að sjálfsábúðarjörðunum en hinum. Á þeim 4 jörðum, þar sem ekki er sjálfsábúð, eru litlar byggingar, og þar að auki miklu minni jarðabætur unnar en á hinum.

Í hinum hreppnum eru 25 býli; þar af er frekur helmingur, eða 13 jarðir, kirkju- og þjóðjarðir, en einungis 12 í sjálfseign. Á kirkjujörðunum er engin nýleg bygging, þó að auðvitað sje misjafnlega vel hýst, eftir framtakssemi og ósjerplægni ábúenda. En á sjálfseignarjörðunum eru þó 3 hús úr steini. Og svona mætti halda áfram að telja, jeg held endalaust. Mjer finst líka ósköp eðlilegt, að leiguliðar sjeu stamir við að leggja út í mikinn bygginga- og jarðabótakostnað. Allir viðurkenna nú samkvæmt fenginni reynslu, að sú stefna, að byggja úr steini sje sjálfsögð, ef að fjárhagur leyfir og ef ekki er alt of jarðskjálftahætt. Jeg fæ ekki sjeð, að breytingar á ábúðarlögunum geti náð sama tilgangi og fæst með sjálfsábúð. En hins vegar er full þörf á, að athuga sem fyrst rækilega ábúðarlögin og reyna að gjöra þau sem haganlegust fyrir leiguliða. Sú er nú oft raunin á, að leiguliðar kjósa heldur að flytja af jörðunum, þegar að því er komið að byggja þurfi upp bæina, því að ef þeir fá jarðirnar ekki keyptar, eiga þeir á hættu meira og minna fjártjón, ef þeir leggja mikið í kostnað.