04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Skúli Thoroddsen:

Af því að jeg þykist sjá fyrir forlög þessa frumv., þá langar mig til þess að fara um það nokkrum orðum, áður en það verður felt, þar sem jeg var einn í tölu flutningsmanna þess.

Mjer gekk það til, að jeg gat ekki betur sjeð en að þjóðjarðasalan sje, eins og nú stendur, til stórtjóns fyrir landið.

Virðingar- og söluverð jarðanna er, sem kunnugt er, vanalega miðað við það, að 4% af kaupverðinu svari til eftirgjaldsins. En hvernig er þá eftirgjaldinu varið? Það er víðast hvar hið sama, sem um miðja 19. öld, eða jafnvel eins og það var í byrjun síðastliðinnar aldar. Eftirgjaldið hefir með öðrum orðum staðið í stað, þrátt fyrir allar breytingarnar, sem orðið hafa hjer á landi í nálega öllum öðrum atriðum.

Nú eru jarðir og sem óðast að hækka í verði, og það að fleygja þeim þá þannig frá sjer, sem gjört er, það er því, að baka landinu stórtjón.

Menn þurfa fráleitt að bíða þess enn 10–20 árin, að jarðirnar sjeu komnari tvöfalt, eða þrefalt verð, ef eigi enn meira, og á sumum stöðum er þetta þegar orðið.

Jeg sje og enga ástæðu til þess, að ábúendur þjóðjarðanna eiga framar öðrum mönnum, að sitja fyrir hlunnindum, eða gjöfum úr landssjóði, því annað er þjóðjarða- og kirkjujarðasalan í raun og veru ekki, þegar á alt er litið.

Orsökin til þess, að jeg var áður með þjóðjarðasölunni, var sú, að jeg áleit, að sjálfsábúðin væri besta tryggingin þess, að jarðirnar yrðu æ bættar, enda sívaxandi verðhækkun jarðanna — og þá eigi hvað síst við sjóinn, og í grend við verslunarstaðina — hvorki mjer, nje öðrum, þá svo augljós, sem nú er orðið.

En nú er þess að gæta, að þó að jörðin sje seld ábúanda, þá er þó þar með engin trygging fengin fyrir því, að hún haldist í sjálfsábúð. Hagur bændastjettarinnar er sjaldan svo góður, að bóndinn geti látið einu barna sinna jörðina eftir, í þess part, og hitt því að mun tíðara, að jörðin skiftist sundur í smáparta, eða er seld, og kemst þá aftur í leiguliðaábúð.

Auk þess er og á það að líta, að landssjóður hefir á seinni árum reynst leiguliðum mjög góður landsdrottinn, enda engum hægra en einmitt honum, að vera leiguliðum sínum æ vel.

Þá er og á það að líta, að eigi landssjóður jarðirnar, þá getur hann og einatt bútað þær niður í fjölda smábýla, ef svo sýnist. Í Danmörku er sú hreyfing t. d., þótt hægt fari, óðum að ryðja sjer til rúms, að skifta stór-býlunum í smá-býli, eða húsmanna-lóðir, og húsmannafjelögin styrkt úr ríkissjóði í því skyni. Þetta á landssjóður og mjög hægt með, eigi hann jarðirnar, en hjá sjálfseignarbændum er á hinn bóginn tíðast allmikil tregða á því, að láta nokkuð af jörðinni til ræktunar.

En þegar svo er komið, að stór-jörðunum er að mun skift orðið í fjölda smábýla, eða útmælda bletti, og margir taka þátt í ræktuninni, þá fyrst miðar henni flugskrefum áfram.

Þar, sem svo háttar á hinn bóginn, að einn situr að stórbýli, þá er oft svo, að hann hvorki finnur hvöt hjá sjer, nje þá hefir getuna til þess, að rækta jörðina, sem unt væri, eða nokkuð til líka við það; en hjer á landi eru margar jarðir, sem gætu fætt fjölskyldur svo tugum skifti; en til þess, að jörðin verði svo hagnýtt, þ. e. alt ræktað, sem til ræktunar er vel fallið, þarf einmitt fjöldinn að hefjast handa, og túnin, eða ræktuðu blettirnir, hjer og hvar í landareigninni, að geta skift tugum, ef eigi náð hundraði, eða hundruðum.1)

Í sambandi hjer við, vil jeg annars, út af orðum háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) geta þess, að jeg er eigi á sama máli, sem hann, er hann telur landinu það að mun hættulegt, ef útlendingar eignuðust hjer jarðeignir, — tel þvert á móti landinu gæti orðið það til hagnaðar, ef þeir legðu fje í það, að bæta jarðirnar í stórum stýl.

Það skiftir ekki miklu, hvar eigandinn er heimilisfastur, — að eins hann sjái um, að vel sje farið með jörðina, og um það eiga lögin að sjálfsögðu að annast, alheillarinnar vegna.

Siðfræðilega skoðað, þá er og alls enginn vafi á því, að hver maður á æ heimtingu á því, að geta átt jörð, eða rekið hvaða atvinnu, sem er, hvar á jörð vorri, sem er, án alls tillits til þjóðernis hans, eða þá hins, hvar hann vill velja sjer aðsetur.

Það getur því verið illt, og leitt jafnvel til hins versta — eins og hvað eina, sem rangt er — að binda sig um of við þjóðernið, þó að þjóðernistilfinningin sje auðvitað ætíð falleg, sje henni þá og innan síðufræðilega rjettra takmarka haldið. En vjer verðum einatt vel að athuga, að vjer erum ekki einungis borgarar þess lands, sem vjer lifum í, heldur og einnig allrar jarðarinnar — erum því og einatt jafnframt alheimsborgarar, sem svo er kallað, og verðum svo væntanlega einhverntíma í framtíðinni — algeimsborgarar, þ. e. borgarar, sem hugann eigum að hafa eigi við þann eða þann hnöttinn í himingeimunum að eins, en og við alt sýnilega — og oss ósýnilega sköpunarverkið, sem til er, eða til getur verið, eða orðið.

En svo að jeg víki þá aftur að þjóðjarða- og kirkjujarðasölunni, hygg jeg, að framtíðin muni og sýna það ljóslega, innan fárra ára, ef salan helst, hvílík fásinna, og hvílíkt afskaplegt tjón landinu hefir verið bakað með því, að fleygja jörðunum frá sjer þannig í vitleysu.

Sbr. þá og t. d. Hrappseyjar-eignina á Breiðafirði, og margt mætti nefna svipað. Sk. Th.