04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Björn Kristjánsson:

Jeg get ekki að því gjört, að jeg verð að styðja frumv. á þgskj. 54, en það er af sjerstökum ástæðum. Jeg vona sem sje, að tími vinnist til þess, að koma þessu máli í það horf, sem upprunalega var til ætlast, sem sje að tryggja meiri sjálfsábúð en nú er, og leiðin til þess er að minni hyggju löggjöf um erfðafestuábúð. Jeg á ekki við erfðafestuábúð, sem hingað til hefir verið ofan á hjer í deildinni, heldur erfðafestubúð með óbreyttu afgjaldi, hve mikið sem maður bætir jörð sína. Jeg geng út frá því, að jarðeignirnar sjeu metnar eins og þær eru, þá er salan fer fram, og afgjaldið verði svo miðað við virðingarverðið.

Erfðafestuábúðin verður að vera með rjetti til að selja eða veðsetja jörðina, og að selja hana næsta ábúanda. Árgjaldið standi sem 1. veðrjettarkvöð á eigninni og sje óbreytanlegt. Þegar svo er komið, þá er jörðin sönn eign ábúandans, eða að minsta kosti finnur hann ekki til annars en að svo sje, og hann finnur þá, að hann nýtur þess eða geldur, hvernig hann fer með jörðina.

Það er nú auðvitað, að kvartað myndi verða yfir því, ef landssjóður fengi ekki þeim mun meira eftirgjald, sem jarðir hans stiga meira í verði. En ef þjóðarauðurinn eykst við það, að landsetar fá að njóta handaverka sinna, þá ætti það að vera eins gott. Ef þessi leið væri farin, þá myndi landið smám saman kaupa jarðir eftir því, sem efni leyfðu, til þess að selja þær ábúendum á þenna hátt. Eins og nú er, sjást þess oft dæmi, að menn eru að brjótast í að kaupa ábýlisjarðir sínar, þótt þeir geti það ekki, án þess að rýra búpening sinn tilfinnanlega. En með því lagi, sem jeg benti á, gæti hver fátæklingur orðið sama sem sjálfseignarbóndi, án þess að til þess þyrfti að taka, að rýra bústofninn.

Jeg hefi tekið þetta fram til athugunar fyrir þá, sem styðja vilja sjálfsábúð, og jeg er einn í tölu þeirra, vegna þess, að jeg er sannfærður um það, að þetta er eina rjetta leiðin í þá átt. Þess vegna álít jeg líka, að rjett sje að samþykkja þetta frumv. nú, og leggja svo fyrir næsta þing frumv. um erfðafestuábúð, og vona jeg, að háttv. deildarmenn hafi skilið af orðum mínum, hvernig jeg ætlast til að aðaldrættirnir í því frumv. verði.