04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Framsögum. meiri hl. (Björn Hallsson):

Jeg mun að eins gjöra fáar athugasemdir, því að þótt jeg hafi skrifað hjer upp hjá mjer ýmislegt, sem jeg ætlaði að svara, þá hefir nú háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) að ýmsu leyti tekið af mjer ómakið.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að þjóðjarðasalan hefði bakað landinu stór tjón, með því að virðingarverðið hefði verið of lágt. Jeg skal játa það, að þau tilfelli munu hafa verið til, að jarðir hafa verið of lágt virtar, en þau nægja ekki til þess, að rjettlæta algjörlega það, sem hann sagði. Matið hefir aðallega verið miðað við það, að jarðarafgjaldið sje 4% af verðinu, en sú regla er þó engan veginn ófrávíkjanleg, og auk þess hefir stjórnarráðið alt af heimild til að hækka verðið, ef það virðist óeðlilega lágt. Sýslunefndir hafa og íhlutunarrjett um þessi mál, og venjulega munu þeir menn vera nefndir til þess að virða jarðimar, sem óhætt er að treysta, svo að ekki er ástæða til að ætla, að landinu hafi oft verið bakað tjón á þenna hátt.

Háttv. þm. sagði, að margar af þessum jörðum sjeu nú, eða verði brátt, í tvöföldu verði við það, sem landið fjekk fyrir þær. Það getur verið, að svo sje nú; það fer nokkuð eftir því, hvernig blæs fyrir landbúskap og umbótum á jörðunum, og þó að nú gangi alt vel, þá er ekki víst að svo verði framvegis.

Hann sagði og, að hann væri okkur ekki sammála um það, hve athugavert það væri, að útlendingar næðu tökum á jörðunum. Jeg er þar á gagnstæðri skoðun honum. Jeg vil ekki að þeir kaupi hjer mikið af jörðum, fossum eða öðrum nytjum, og eignist hjer þannig óeðlilega mikil ítök. Enn fremur kvað hann litla tryggingu fyrir því, að jarðirnar hjeldust í sjálfsábúð, lengur en til þess að kaupendurnir væru dánir. Jeg held nú samt sem áður, að venjan og reynslan sje sú, að afkomendur og erfingjar þeirra sitji jarðirnar og njóti þeirra. Það er aðalreglan.

Þá er háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Jeg verð að segja það, að mjer þótti það einkenilegt, þegar hann var að tala um los það, sem yrði á áframhaldandi sjálfsábúð á seldum þjóðjörðum. Hann tók það dæmi, að ekki þyrfti annað en að maður fengi ekki stúlku, þá þyti hann frá jörðinni til Ameríku. Mjer er nú spurn, hvort eigi mætti alveg eins víkja þessu við upp á erfðafestubændurna, eða býst þingmaður við, að þeir eigi aldrei börn? Þetta dæmi sannar því ekkert málstað minni hlutans. Hv. þm. sagði, að sjálfseignarbændur fengju ekki nóga borgun fyrir mannvirki á jörðum sínum, ef þeir seldu. Það getur viljað til, að svo fari, ef selt er, en mjög algengt er það ekki, því að oftast ganga jarðirnar að erfðum og halda áfram að vera í sjálfsábúð.

Sami háttv. þingm. sagði, að ef hann ætti jörð, þá vildi hann heldur gefa sveitarfjelaginu hana en að börn hans erfðu hana, til þess að tryggja framvegis góða ábúð á henni. Jeg veit nú ekki um gjafmildi hans, en hins vegar hygg jeg, að tryggingin yrði miklu meiri, ef jörðin gengi í erfðir, fyrir því að börnin hans nytu jarðarinnar, heldur en ef hann gæfi sveitinni hana. Þá talaði háttv. þingm. um hrútakofa, en það var bersýnilega meinloka hjá honum. Jeg hefi aldrei heyrt getið um 10 álna þykka veggi á slíkum kofa, og engum gæti dottið í hug, að sanngjarnt væri að láta menn fá fult verð fyrir svo heimskulegar byggingar. Þetta er því talað út í loftið. Alt öðru máli er að gegna um nauðsynleg hús, sem gjörð eru af skynsamlegu viti. Annars var þessum kafla í ræðu hv. framsm. minni hlutans (G. H.) beint til háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), og býst jeg við, að hann svari þessu. Og jeg álít enn, eins og jeg tók fram í framsöguræðu minni, að einn af aðalþröskuldunum í vegi fyrir erfðafestuábúðinni sje sá, að menn fái ekki sanngjarna borgun fyrir umbætur á jörðunum, þegar skift er um ábúð. Eiginhagsmunahvötin verður einlægt sterkust, til verulegra umbóta, ef menn eiga jarðirnar sjálfir.