04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Sigurður Gunnarsson:

Jeg ætla ekki að fara að rökræða þetta mál. Jeg álit, að hjer hafi komið fram frá báðum hliðum í þessum löngu umr. rök, sem vert er að hlusta á. En hins vegar get jeg naumast ímyndað mjer, að háttv. flutningsmenn búist við því, að þetta frumv. nái hjer fram að ganga í þetta sinn, og það þegar af þeirri ástæðu, að kjósendur landsins hafa að sjálfsögðu eigi verið vissari um nokkurn hlut en þann, að lög þessi myndu haldast óbreytt fram yfir þetta þing. Það myndi því koma alveg flatt upp á alþýðu manna, ef þeim væri nú alt í einu breytt.

Jeg hefi heyrt, að þessi frestunarlög ættu að vera til þess, að undirbúa annað og heppilegra fyrirkomulag en það, er nú tíðkast, en jeg sje ekki betur en að það verk mætti framkvæma alveg eins fyrir því, þó að ekki kæmi til þessarar frestunar. Kjósendur landsins hafa eflaust búist við því, að mega halda áfram að kaupa jarðir sínar, og hafa nú sjálfsagt margir ráðstafanir því til undirbúnings, og sje jeg því ekki, að koma megi nú þeim að óvörum með þessi lög, og tek jeg ekki þetta fram af því, að jeg ætli mjer að fara að deila neitt um kosti eða lesti þjóðjarðasölunnar í sjálfu sjer, heldur af því, að svona horfir nú málið einu sinni við.