19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

14. mál, stjórnarskráin

Ráðherra:

Jeg þarf ekki að svara löngu máli. Ræða háttv. frummælanda (S. E.) var nokkuð á annan veg en jeg bjóst við. Jeg átti von á stórskotahríð frá honum, en raunin er orðin nokkuð önnur. Endir ræðu hans virtist mjer eiga að vera nokkurs konar öryggispípa fyrir frelsi landsins. Þetta hlýt jeg að segja að eru vonbrigði, eftir allan þann mikla gauragang og þau miklu ólæti, er hafin hafa verin hjer í bænum af hálfu nokkurra manna og háttv. framsögum. (S. E.) hefir einna helst staðið fyrir. Hugði jeg, að þeir herrar, andstæðingar mínir, yrðu mjög æstir, færu grenjandi og bitu í skjaldarendur, eins og berserkja var siður til forna. Ekki er þó svo að skilja, að mjer falli það miður, að heldur er gætt hófs. En þótt tillaga sú til þingsályktunar, er háttv. framsm. (S. E.) kom fram með, eigi ekki að vera neitt annað en öryggisráðstöfun, þá hygg jeg þó, að í henni felist annað og meira. Hún gæti ekki verið komin fram, nema flutningsmaður áliti, að jeg hefði gjört eitthvað annað en jeg átti eða mátti gjöra í ríkisráðinu 19. júní þ. á. Og þar sem öllum er kunnugt, að jeg á að hafa, eftir skoðun Ingólfsmanna, viljandi eða óviljandi teflt frelsi landsins í voða, þá furðar mig ekki, hvað tillagan er hörð. Jeg bjóst við grenjandi hríð úr sorta þeim, er lá í loftinu. Jeg hafði búist við vantraustsyfirlýsingu og síðan landsdómsákæru. Vera má, að hægt sje af stað farið og þetta sje forynja eða undanfari einhvers meira.

Hjer í deildinni hefir háttv. framsm. (S. E.) reynt að rökstyðja það, að í tilefni af stjórnarskrárstaðfestingunni 19. júní þ. á. felist ýmislegt það, er þingið 1914 hafi ekki gefið heimild til. Þetta er skoðun flytjanda tillögunnar og hans fylgifiska, sjerstaklega »Ingólfs«. Þeir prjedika nú sýknt og heilagt, að rjetti landsins sje steypt í glötun, eða að minsta kosti sjeu þar mikil spjöll á orðin, ef þingið kæmi ekki fram með eftirvara, er afneiti því, er jeg hefi gjört. Mjer hafa fallið illa þessar aðfarir þeirra, ekki mín vegna, heldur vegna annars. Þar sem þessir menn hafa prjedikað, að frelsi og rjettur landsins sjeu fyrir borð borin, þá munu bæði innlendir og útlendir óvinir landsins hagnýta sjer þessi ummæli þingmannanna síðar meir. Og er vjer höldum því fram, að engu hafi verið glatað, koma þeir með ummæli þessara manna, til sönnunar rjettleysi landsins. Gengur þetta svo langt, að eitt blað hjer í bænum er stórfegið og prentar með stóru letri, ef útlendur blaðamaður segir, að frelsi voru sje glatað og vjer höfum komið illa og ómannlega fram við landið okkar. Þeir hrína upp af kæti yfir þessu, þessir íslensku ættjarðarvinir, er nú þykjast einir vilja varðveita frelsi landsins. Jeg skil ekki þessa föðurlandsást.

Síðast í dag hjelt einn aðalfrömuður þessara manna langa ræðu, þótt hæg væri og þingleg, um það, að rjettindum vorum sje í voða teflt. Hann rakti sögu málsins nokkuð.

Sem kunnugt er komst ákvæðið »í ríkisráði« inn 1903, er Alberti taldi það »forfatningsmæssig Nödvendighed«, að mál vor væru þar borin upp fyrir konungi. Þá reis upp flokkur í landinu, er taldi grundvallarlög Dana lögleidd hjer og sjermálarjett vorn þar með eyðilagðan. Ef þetta er rjett, þá gat ekkert í húfi verið í vor. Ýmsir eru nú á þeirri skoðun, að sjermálarjetti vorum hafi þá verið glatað. Og ef sú skoðun væri rjett, hvernig ætti jeg þá að drepa líkið? Sennilega hörfa þeir nú frá þessari skoðun. Árið 1907 er málið tekið upp, ríkisráðsákvæðið felt burtu, en málið varð þá óútrætt. Alþingi 1911 afgreiðir svo frumvarp; orðin »í ríkisráði« voru feld í burtu, án þess nokkuð kæmi í staðinn. Eigi svo að skilja, að sannað væri, að tilgangur þingsins hafi verið sá, að málin yrðu ekki borin upp í ríkisráði, heldur var það tilætlunin, að konungur geti látið bera málin upp fyrir sjer þar, er hann vildi. Konungur lætur þá ráðherra (Kristján Jónsson) flytja þinginu 1912 þau skilaboð, að hann fallist ekki á þetta, nema lög um samband landanna verði áður sett og samþykt. Alþingistíðindin 1912 bera þetta með sjer. Árið 1913 er málið aftur tekið fyrir á Alþingi. Fann þá einhver upp það snjallræði, að málin skyldu borin þar upp, sem konungur ákvæði. Búist var þá eindregið við sjerstökum konungsúrskurði um uppburðinn á ábyrgð ráðherra Íslands. En að ætlast hafi verið til að koma málunum út úr ríkisráðinu, sjest hvergi og er hreinasti misskilningur. Kvað svo ramt að þessu, að einn þingmaður í Nd. kallar þetta grímuklædda ríkisráðssetu. Það var hv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Jeg tek þetta fram af því, að sagt hefir verið, að jeg hafi skýrt ranglega frá þessu á fundi. Og hvar stendur það skrifað, að málin hafi að eins átt að vera borin þar upp til bráðabirgða? Má líka nærri geta um þetta, þar sem hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) ljet í ljós vafa um, að konungur mundi geta fallist á orðin »þar sem konungur ákveður«. Svo kemur fyrirvarinn 1914, og hann ber ótvírætt og ómótmælanlega með sjer, að tilgangurinn væri að bera málin upp í ríkisráði. Fyrirvarinn endar á þessa leið: »Heldur Alþingi því þess vegna fast fram, að uppburður sjermála Íslands fyrir konungi í ríkisráði Dana« o. s. frv. Út úr þessu er ekki hægt að smokra sjer.

Því næst vjek háttv. flutnm. (S. E.) sjer að því, er gjörðist 20. okt. 1913. Jeg játa það, að jeg var ekki á sama máli og háttv. þáverandi ráðherra (H. H.), enda álít jeg, að hjer sje um annað að ræða. Jeg furða mig ekki á því, að háttv. flutnm. (S. E.) heldur þessu fram, en á hinu furðar mig, að háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk.Th.) tekur í sama strenginn. Í sínu góða blaði, Þjóðviljanum 1913 (27. árg.) tbl. 56, segir hann eftir málalyktirnar 20. okt. 1913:

Flokksstjórn sjálfstæðismanna hefir íhugað þetta atriði nýskeð, og niðurstaðan þar orðið sú, að sjálfsagt sje, að vjer ráðum engu síður til nú en áður en konungssvarið barst oss, að stjórnarskrárfrumvarpið sje samþykt óbreytt á aukaþinginu að sumri .... aðalatriðið, að danskir ráðherrar blandi sjer eigi inn í málin, og yfirlýsing Zahle’s fjekkst um það. Hitt, þ. e. hvar málin eru borin upp fyrir konunginum — hvort það er gjört í ríkisráðinu eða einhversstaðar annarsstaðar — skiftir oss á hinn bóginn alls engu, en því hefir á fyrrgreindan hátt, þ. e. með úrfellingu ríkisráðsákvæðisins úr stjskr., verið slegið föstu, sem fyrr getur.

Því næst felst háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á orð Zahles, þar sem Zahle segir, að uppburðurinn í ríkisráði sje til þess, »að dönskum ráðgjöfum yðar hátignar veitist kostur á hluttöku í dómi um, hvort í lögum eða ályktunum, sem ráðherra Íslands ber upp, felist ákvæði, er varði sameiginleg ríkismálefni, er að eins verði tekin ákvörðun um í sameiningu við dönsk löggjafarvöld«.

Jeg get ekki betur sjeð en háttv. þm. (Sk. Th.) hafi gjört sig ánægðan með orð Zales, þetta svokallaða »kontrol«. Á þingi 1914 var svo hv. þm. N.-Ísf. (Sk.Th.) með fyrirvaranum en eftir því, er jeg hygg, aðallega til þess, að ekki yrði ágreiningur í flokknum, er hann hefir álitið að gæti spilt. Það er aðallega tvent í málalyktunum 20. okt. 1913, er Sjálfstæðismönnum fjell illa, sem sje, að breyting á skipulaginu væri bundin við staðfestingu nýrra sambandslaga, og auglýsingin í Danmörku. Þeir, sem vilja lesa um ræðurnar 19. júní þ. á., hljóta að sjá, að hvorugt er lengur til fyrirstöðu.

Þá hjelt háttv. flutnm. (S. E.) því fram, að fyrirvarinn sje óbrotinn. Getur vel verið að svo sje fyrir hans góða höfuð, en sumir hafa þó látið alt annað í ljós. Háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.) var reiður yfir því í fyrra, hversu loðinn hann væri. Og jeg heyri, að þeir eru enn ósammála um þetta atriði.

Takmark fyrirvarans var, að fyrirbyggja að nokkuð það yrði gjört í framkvæmdinni, er að óliði gæti komið, (sbr. »áskilur«. Og nú hefir konungur fallist á fyrirvarann. Og andstæðingar mínir hafa játað, að ekki hafi þurft beinnar viðurkenningar við, heldur óbeinnar. Þess vegna er nóg, að ekki komi neitt það fram hjá konungi, er brjóti í bág við fyrirvarann. Jeg hefi ekki heldur skilið svo framkomu háttv. fyrrv. ráð. (S. E.) í ríkisráðinu 30 nóv. 1914 svo, að hann hafi ætlast til, að fá beina viðurkenningu, enda nú fengin viðurkenning hans sjálfs um, að eigi hafi svo verið.

Jeg skal nú leyfa mjer í stuttu máli að ganga í gegn um umræðurnar í ríkisráði 19. júní þ. á. Það er þá fyrst »Forestillingen«, sem 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði á þingmálafundi í Hafnarfirði, að væri í samningsformi. (Björn Kristjánsson: Danir segja það sjálfir). Enginn danskur maður er til svo skyni skroppinn. Fyrst er þar skýrt frá samþykt stjórnarskrárinnar á Alþingi 1913 og 1914. Þá kemur fyrirvarinn í danskri þýðingu (þeirri sömu og 30. nóv. 1914). Síðan kemur skýrsla um það, að enginn andblástur hafi komið fram um það, að málin yrðu borin upp í ríkisráði. Og nú viðurkenna andstæðingar mínir, að það sje rjett. Þá er nefndur geigur sá, er komi fram í þingsályktunartillögunni og sagt, að hann sje sprottinn af ótta við það, að auglýsing sú í Danmörku, sem boðuð var um afstöðu konungs til úrskurðarins, mundi verka sjerstaklega á ríkisrjettarlegt eðli úrskurðarins. Þessu er ekki neitað. Svo er ein dauðasynd, er jeg á að hafa gjört mig sekan í, er jeg segi, að þessi geigur sje formlegs fræðilegs eðlis. Því verður ekki neitað, að þessu er þannig farið, þótt andstæðingar mínir segi, að hann sje meira.

Háttv. flutnm. (S. E.) talaði um »kontrol« í þessu sambandi og einhverja »praktiska hlið«. Þessu víkur nú svo við, að meðan málin eru borin upp í ríkisráðinu, veit Íslandsráðherra hverjir um þau tala og hvað þeir tala, og á stjórnskipulegan rjett til þess, að svara því. Það er rjettur hans og skylda, að mótmæla, ef þess þarf. Ef einhver atriði koma fram í danskri löggjöf, sem fara í bág við rjett Íslands, þá er honum rjett og skylt, að mótmæla. Og sama rjett eiga danskir ráðherrar, ef íslensk löggjöf skyldi fara í bág við rjett Danmerkur. Þetta er jafnræði frá lagalegu sjónarmiði og engum heilbrigðum manni dettur í hug, að halda því fram, þótt mótmæli hafi komið fram í ríkisráði gegn einhverju íslensku löggjafarmáli, að Íslandsráðherra hafi þar með gjört það að sammáli. Það væri viðlíka viturlegt, eins og að halda því fram, að maður öðlaðist eignarrjett á túni annars manns, ef hann ræki á það kýrnar sínar. Það stendur ekki í neins manns valdi, að hamla því, að hans hátign, konungurinn beri sig saman við hvern þann mann, sem hann trúir, og þá er komið »faktiskt kontrol«, svo að í framkvæmdinni verður enginn munur á þessu, og þá er atriðið sannarlega formlegs fræðilegs eðlis, úr því að við getum ekki losað um þessi mál, eins og sambandið nú er. Hitt er annað, að við höldum því fram, að það, hvar mál vor sjeu borin upp, sje sjermál vort, og gjörum ekkert það, er geti svift okkur þeim rjetti, sem við teljum okkur þar eiga.

Síðan leggur Íslandsráðherra það til, að konungur staðfesti stjórnskipunarlögin með tilvitnun til þess, sem hann sjálfur (Íslandsráðherra) hefir talað. Í þessu felst þó væntanlega ekkert rjettarafsal. Þetta var nú sjálf »Forestillingen«, og á hana skrifar svo konungur eftir venju: »Indstillingen bifaldes«. En með því nú að Danir hafa ætíð haft aðra skoðun á málinu en þá, er jeg fylgdi, þá hefir nú forsætisráðherrann talið sjer rjett og skylt að taka fram skoðun Dana. Jeg hefi nú reyndar heyrt það sagt, að jeg hefði þá átt að segja honum að þegja. (Skúli Thoroddsen: Var það ekki rjett?). Jeg skal láta »Þjóðviljann« frá 1913 svara því. Þar stendur svo, að atburðirnir í ríkisráði 20. okt. það ár, hafi engin áhrif á afstöðu flokksins til málsins, og að Zahle hafi sagt, að ekki yrði hlutast til um málin, nema að athuga, að ekki felist í þeim — — etc. Allir sjá að þessi hv. þm. (Sk. Th.) hefir þá ekki talið það nema rjett, sjálfsagt og óskaðlegt, þótt forsætisráðherrann talaði þetta. (Skúli Thoroddsen: Þetta er »probatio diabolica«! Það er tekið fram í blaðinu, að forsætisráðherrann hefði ekki átt að blanda sjer í sjermálin). Það er satt, að þar stendur, að það væri »leiðara«, að því skyldi ekki vera mótmælt, en það raskar ekki því »reella«, og þá býst jeg nú við, að við sjeum komnir yfir þetta örðuga atriði. Enda fór jeg alveg eins að og háttv. þingm. vildi, því að jeg taldi það rjett, að taka til máls á eftir forsætisráðherranum og lýsa yfir því, að jeg væri honum ekki samdóma um þetta atriði, — gæti ekki fallist á skoðun hans.

Þá loks talar hans hátign, konungurinn. Jeg hafði nú áður sýnt fram á það, að ekki væri ágreiningur um það, að málin yrðu borin upp í ríkisráðinu, og þau orð tekur hann upp. En svo kemur þessi »kriminella« setning: »Eins og jeg hefi áður sagt í ríkisráði«, og haldið er fram að eigi að taka yfir alt það, er hann hafði þar áður sagt um málið, fyrr og síðar. Það sjer nú hver maður, sem les setninguna til enda, og annars skilur mælt mál, að þetta nær ekki nokkurri átt, því að hvorki eru skilyrðin frá 20. okt. 1913, nje 30. nóv. 1914 tekin þar upp, og engin tilvísun er þetta í eiginlegri merkingu, enda held jeg að háttv. flutningsm. (S. E.) sje ekki á því, að þetta sje svo, heldur sje hann hins vegar hræddur við það af einhvers konar hjartveiki, að ef til vill kunni að mega líta svo á.

Jeg veit ekki glögt, hvort hv. flutningsm. (S. E.) meinti það, — en svo virtist þó helst vera — að opna brjefið frá 20. okt. 1913 væri enn í gildi. Ef það væri rjett, þá hefði það einnig haldist í gildi, ef hann hefði tekið við staðfestingunni með þögn konungs, enda hafa ýmsir haldið því fram, t. d. háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) og háttv. þm. N.- Þing. (B. Sv.). En nú vill svo vel til, að konungur hefir hjer alt önnur ummæli, en í opna brjefinu. Þar var svo um mælt, að engin breyting gæti á uppburðinum orðið, nema staðfest væru ný sambandslög, en hjer segir konungur að eins, að Alþingi »megi ekki vænta þess«, að því verði breytt »í sinni stjórnartíð«. Hann segir hvergi, að breyting á konungsúrskurðinum skuli bundin við ný sambandslög, nje að til þess þurfi neinn atbeina danskra stjórnarvalda, en það var kjarni fyrirvarans, að honum yrði breytt án þeirra íhlutunar. Konungur segir ekkert, sem komið geti í bága við það, að honum verði breytt þannig, og ef það er rjett, sem háttv. flutningsmaður hjelt fram, að ekki hafi þurft yfirlýsingu konungs berum orðum til þess, að fyrirvaranum væri fullnægt, þá er þetta líka nóg. Því að ef ekkert er sagt eða gjört, sem kemur í bága við orð fyrirvarans, þá er það sama sem þegjandi viðurkenning á honum, og ekkert slíkt hefir verið gjört eða sagt, er brjóti bág við fyrirvarann.

Háttv. flutningsm. (S. E.) endaði ræðu sína á því, að ef þjóð vor ætti nú að greiða atkvæði um þessa tillögu, þá myndi ekki standa á »já«-unum. Jeg veit ekki vel, á hverju hann byggir þá skoðun. Ekki verður það að minsta kosti sjeð af þeim þingmálafundum, sem haldnir hafa verið síðan staðfestingarskilmálarnir voru kunnir orðnir, að kjósendur hafi verið óánægðir með það, sem gjört var. Að vísu var einn fundur haldinn í Hafnarfirði, þar sem þingm. kjördæmisins fengu því framgengt, að kjósendur gáfu sjálfum sjer vantraustsyfirlýsingu, en fólu þingmönnunum að reyna að botna í málinu. Sá fundur mun hafa verið einna tvíbentastur. Að vísu var þar feld ánægjuyfirlýsing yfir gjörðum stjórnarinnar með 26:19 atkv., en það segir ekkert, því að það byggist á sama grundvelli og hitt, sem sje þeim, að kjósendur vildu ekki eiga í því, að leggja höfuð sín í bleyti um málið, heldur fólu þingmönnunum það. Hins vegar hefir á mörgum fleiri fundum verið lýst eindreginni ánægju yfir staðfestingunni, bæði í Borgarfjarðar- og Árnessýslu og í Reykjavík, þar sem mestur hávaðinn stendur af háttv. flutningsmanni (S. E.). Hitt er satt, að sumir þingmálafundir voru haldnir áður en skilyrðin yrðu kunn, og þeir eru mislitari. Sumir hafa talað um það, að aðferðin væri óviðkunnanleg. Hjer er nú eitt harðvítugt sjálfstæðisblað, »Íslendingur«, sem kemur út á Akureyri. (Sigurður Eggerz: O, það er nú ekki sjerlega harðvítugt). Það er fult eins eindregið og háttv. flutningsm. (S. E.), en það fagnar því eindregið, að stjórnarskráin hlaut staðfestingu með þeim skilmálum, sem orðið er, og telur gott, að jeg skyldi bera gæfu til að fá málinu framgengt, svo vel sem raun varð á.

Jeg skal nú ekki segja, hvernig þjóðin kann að líta á þessa tillögu, en eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, ætti ekki að vera mikil von um yfirgnæfandi atkvæðafjölda meðal kjósenda landsins með henni. Það eru nokkrir kjósendur hjer í einu kjördæminu, sem hneigjast að skoðun háttv. flutningsm. (S. E.) í þessu máli, sem hann segir að svo miklar umbúðir sjeu um, að engir aðrir en lögfræðingar geti ráðið við það. Mjer virtist þó ekki betur, en báðir háttv. þm. G.-K. (B. K. og K. D.) treystu sjer ofurvel til að gjöra sjer grein fyrir því út í æsar, þótt ekki sjeu þeir lögfróðir. Annars er þetta skraf háttv. flutningsm. (S. E.), alt nokkuð út í hött, því að er ekki margt torskilið, sem þó er svo merkilegt, að gjöra verður sjer grein fyrir því og byggja á því? Eru ekki milliríkjasamningar flestir á frönsku, og er t. d. ekki »Gamli sáttmáli« gamalt og torskilið skjal? Jeg veit, að háttv. flutningsm, (S. E.) hefir svo gott »höfuð«, að hann skilur þetta mál erfiðislítið, ef hann vill.

Þetta er ekki flokksáhugamál, og jeg kæri mig ekki mikið um það. Jeg býst við, að allir háttv. þm. muni greiða um það atkvæði, eins og samviska þeirra býður þeim. En hitt vil jeg segja, að þeir sem álíta, að þingviljanum sje fullnægt, þeir geta ekki vel verið með tillögunni, því að það er hlægilegt, að vera að slá varnagla, sem engin þörf er á. Það væri eins og ef einhver færi að fara í klofhá vatnsstígvjel í brakandi þerri, til þess að vera viss um að bleyta sig ekki, ef hann þyrfti að bregða sjer út á götuna.