19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

14. mál, stjórnarskráin

Jón Magnússon:

Aðstaða vor Heimastjórnarmanna til fyrirvarans hefir frá upphafi verið öll önnur en sjálfstæðismanna.

Þeir töldu hættu fyrir rjettindi landsins stafa af því, sem gjörðist á ríkisráðsfundinum 20. október 1913, og opna brjefinu s. d. Var það aðallega ákvæðið, sem bætt var við yfirlýsingu konungs, um það, að hann mundi staðfesta stjórnarskrárfrumvarp Alþingis 1913 á sínum tíma, og gefa þá jafnframt út úrskurð, nafnfestan af Íslandsráðherra, þar sem eitt skifti fyrir öll yrði ákveðið, að íslensk lög og mikilsvarðandi stjórnarathafnir yrðu, hjer eftir sem hingað til, bornar upp fyrir konungi í ríkisráði Dana. En ákvæðið var þetta, að á þessum konungsúrskurði verði engin breyting gjörð, nema gefin verði út lög um ríkisrjettarsamband Danmerkur og Íslands, samþykt bæði af Ríkisþinginu og Alþingi, þar er ný skipan verði á gjörð, og skyldi þetta auglýst í Danmörku með kgl. auglýsingu, nafnfestri af forsætisráðherra Dana.

Það var bygt á því, að ákvæðið um, að engin breyting gæti orðið á væntanlegum konungsúrskurði, nema áðurgreindum skilyrðum um sambandslög væri fullnægt, væri tekið upp í úrskurðinn sjálfan. En er þáverandi ráðherra, H. H., í byrjun þingsins 1914 lýsti því, að þetta skilyrði ætti ekki að taka upp í konungsúrskurðinn, hefði aldrei verið tilætlunin, þá var sem mönnum fjelli allur ketill í eld, og virtist þetta mjög draga úr ugg Sjálfstæðismanna við málið.

Þeir hjeldu því samt enn fram, að ráðstöfun sú, sem gjörð hefði verið á ríkisráðsfundinum 20. október 1913, hafi, eftir atvikum þeim, er þar til lágu, falið í sjer samkomulag milli fulltrúa Íslands af annari hálfu, og fulltrúa Dana af hinni hálfu, um það, að uppburður mála vorra í ríkisráðinu skuli bundinn skilyrði, sem löggjafarþing Íslands rjeði eigi yfir, og að þar með væri stefnt í þá átt, að uppburðurinn yrði ekki lengur sjermál vort, heldur í raun og veru sammál Íslands og Danmerkur. Þetta átti fyrirvarinn að fyrirbyggja, að áliti meiri hlutans 1914, og taldi hann nægilegt, að þingið í fyrirvaranum lýsti þeirri ákveðnu skoðun sinni, að ráðstöfunin, þar sem hún hafi eigi verið gjörð með heimild í stjórnarskrárbreytingunni sjálfri, sje eigi bindandi fyrir Ísland.

Vjer Heimastjórnarmenn litum alt öðruvísi á þetta mál. Vjer töldum enga þá ráðstöfun gjörða á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913, er miðaði á nokkurn hátt að því, að gjöra uppburð íslenskra mála að sammáli, eða leggja ákvæðið um það á nokkurn hátt undir löggjafarvald Dana. Oss virtist uggurinn út af því, sem gjörðist í ríkisráðinu 20. október, vera kominn af því, að menn rugluðu saman tveim ólíkum, en hliðstæðum ráðstöfunum, er þar voru gjörðar, önnur íslensk stjórnarráðstöfun, gjörð af konungi á ábyrgð Íslandsráðherra eins. Það var ákvæði um kosningar hjer, og boðskapur til kjósenda á Íslandi, um að konungur muni, um leið og hann staðfestir stjórnarskrárbreytinguna, gefa út þann úrskurð, samkvæmt 1. gr. hennar, með undirskrift Íslandsráðherra, að málin skuli borin upp í ríkisráði hans. Hitt var dönsk stjórnarathöfn, yfirlýsing konungs gagnvart Dönum, um að hann mundi á sínum tíma gefa út auglýsingu, nafnfesta af forsætisráðherra Dana, um það, að þessi ráðstöfun hafi verið gjörð um uppburð íslenskra mála í ríkisráði, og að hann muni ekki breyta henni, nema breytt verði sambandinu milli landanna. Þetta var ekki gjört eftir tillögum eða vilja Íslandsráðherra. Þessi danska auglýsing gat ekki breytt stjórnskipulegum rjetti Íslands. Vjer litum svo á, að svo framarlega sem það væri rjett, og það drögum vjer alls eigi í efa, að uppburður mála vorra fyrir konungi sje, eigi síður eftir stjórnarskrárbreytinguna en áður, stjórnskipulegt sjermál vort, þá verði því eigi breytt, nema á stjórnskipulegan hátt. Vjer minni hluta menn á þinginu í fyrra ljetum þó tilleiðast að samþykkja fyrirvarann, meðal annars fyrir þá sök, að sumir okkar höfðu við þá afstaðnar kosningar lýst því, að þeir teldu ástæðu geta verið til, að Alþingi samþykti einhverja yfirlýsingu í þá átt, að þingið hjeldi fast við þá skoðun sína, að uppburðurinn væri eftir sem áður sjermál, og höfðu að minsta kosti margir af oss þá bygt á því, að skilyrði konungs um óbreytileik yrði tekið upp í úrskurðinn. Fyrirvari sá, er samþyktur var, var og með vilja svo orðaður, að vjer gátum samþykt hann, þótt vjer teldum hann í rauninni óþarfan.

Aðalskoðanamunurinn milli meiri og minni hlutans var þá þessi. Meiri hlutinn taldi stofnað til þess með því, sem gjörðist í ríkisráðinu 20. október 1913, að gjöra uppburðinn að sammáli, og þetta átti fyrirvarinn að fyrirbyggja. Minni hlutinn hjelt því fram, að ekkert slíkt fælist í því, sem þá gjörðist. Og þegar konungur svo á ríkisráðsfundinum 30. nóvember f. á. lýsti því, út af fyrirvaranum, að það, sem gjörðist á ríkisráðsfundinum 20. október 1913, megi ekki skilja svo, að uppburður sjermála Íslands fyrir konungi í ríkisráði sje með því lagður undir löggjafarvald Dana eða dönsk stjórnarvöld, og þegar hann jafnframt tjáði sig fúsan til að staðfesta stjórnarskrána, þá litum vjer Heimastjórnarmenn svo á, að fyrirvara Alþingis væri fullnægt. Þótt vjer værum ekki í neinum efa um, að uppburðurinn hlyti að rjettu lagi að skoðast sjermál vort, og það hafði verið viðurkent áður, þá þótti oss það mikils vert, að konungur í ríkisráði sínu, í áheyrn allra dönsku ráðherranna, lýsti þessu beinum orðum, að uppburðurinn sje sjermál, og að það sje að eins fyrirkomulagsatriði, að málin eru borin upp í ríkisráðinu.

Er fyrrverandi ráðherra (S. E.) svo eftir þessa yfirlýsingu neitar að nafnfesta stjórnarskrárbreytinguna með konungi, þá litum vjer svo á, að ráðherrann hefði brotið í bág við yfirlýstan vilja Alþingis 1914. Því var það, að eftir að kunnugt var orðið það, er fram fór á ríkisráðsfundinum 30. nóv. f. á, var af vorri hálfu, Heimastjórnarmanna, gefin út yfirlýsing um það, að vjer krefðumst þess, að stjórnarskrárbreytingin yrði staðfest fyrir næsta reglulegt Alþingi, svo að öll sú mikla stjórnmálavinna, sem í hana hafði verið lögð, færi ekki forgörðum fyrir, að okkar skoðun, handvömm eina. Vonuðumst vjer þá til, að einhver af meiri hlutanum yrði til þess, að taka á sig ábyrgðina á þessu nauðsynjaverki, og að nógu margir úr þeim flokki hyrfu að því ráði með honum. Meiri hluta þingmennirnir litu samt í heild öðru vísi á gjörðir ráðherra vors á ríkisráðsfundinum 30. nóv. f. á. Töldu hann hafa gjört rjett. Virtist þar mestu um orka auglýsingin, sem birta átti í Danmörku, nafnfest af forsætisráðherranum, um að úrskurðinum um uppburð íslenskra mála í ríkisráðinu skuli ekki breytt, nema annað fyrirkomulag jafntrygt yrði upp tekið. Að auglýsingin í Danmörku um þetta skyldi talin af svo miklu atriði, þótti oss Heimastjórnarmönnum nokkuð kynlegt. Því hafði verið lýst af vorri hálfu við umræðurnar á síðasta þingi hvað eftir annað, að við það gætum vjer ekki ráðið; það væri algjörlega dönsk ráðstöfun, sem ekkert gildi gæti fengið fyrir okkur. Og það var þá ekki int í þá átt af Sjálfstæðismönnum, að hún væri neitt athugaverð eða hættuleg landsrjettindunum. Þvert á móti. Af því, sem jeg hefi nú rakið, hlýtur það að vera ljóst, hver afstaða Heimastjórnarþingmanna til staðfestingar stjórnarskrárinnar 19. júní þ. á. er og verður að vera. Vjer verðum að telja það þarft og þakklætisvert starf, er þrímenningarnir tóku sjer fyrir, þegar þeir fóru að vinna að því, að fá stjórnarskrárbreytinguna staðfesta fyrir þetta þing, og vjer töldum oss skylt, að styðja að því eftir mætti. Því hljótum vjer Heimastjórnarmenn að lýsa ánægju vorri yfir staðfestingunni, og oss er ljúft, að flytja hæstv. ráðherra þakkir fyrir framkvæmdir hans í þessu efni.

Það er enn verið að reyna að leggja þann skilning inn í gjörðir ráðherra á ríkisráðsfundinum, að þær stefni í þá átt, að gjöra uppburð mála vorra í ríkisráði að sammáli, og er það nú framkoma hæstv. ráðh. á ríkisráðsfundinum 19. júní, sem á að vera þannig. Jeg fæ ekki sjeð, að þessi skilningur hafi við neitt að styðjast. Jeg get ekki hugsað mjer, að nokkur maður með óbrjálaðri skynsemi geti í alvöru trúað því, að birting forsætisráðherra í Danmörku á umræðunum í ríkisráðinu geti haft nokkra rjettarlega þýðingu fyrir Ísland. Og eftir því, sem á undan var farið, og Alþingi hafði verið kunnugt alt frá 1912, var varla að vænta, að konungur kvæði óríkar á en þetta, að Alþingi mætti ekki búast við, að hann breytti ákvæðinu í sinni stjórnartíð, nema eitthvert jafntryggilegt fyrirkomulag væri tekið upp. Að forsætisráðherrann kveðst ekki hverfa frá sinni skoðun á málinu, það getum vjer ekki hindrað. Það hefir víst enginn búist við, að danska stjórnin færi beint að samþykkja fyrirvarann. Sú eina stjórnarráðstöfun íslensk, sem gjörð er á þessum ríkisráðsfundi, er, að ráðherra vor nafnfestir stjórnarskrána með tilvísun til fyrirvarans, og jafnframt úrskurð, sem ákveður, að íslensk mál skuli framvegis, eins og hingað til, borin upp í ríkisráði.

Það virðist því auðsætt, að vjer Heimastjórnarmenn hjer í deildinni munum hallast að og samþykkja dagskrártillögu þá, sem hjer er fram komin og að öllu kemur heim við vora skoðun á málinu, enda virðist þingsályktunartillögunni sjálfri þannig háttað, að frágangssök sje, að samþykkja hana.

Fyrirvari síðasta þings, eða yfirlýsing, sem var afgreiddur jafnframt því, sem stjórnarskrárbreytingin var samþykt til fullnustu í þinginu, og áður en hún var staðfest og væntanlegur konungsúrskurður var út gefinn, gat þó haft nokkra þýðingu, en jeg fæ ekki sjeð, hvaða gagn sú yfirlýsing, sem þingsályktunartillagan fer fram á, getur unnið. Ef nokkur skynsamleg hugsun hefir ráðið framkomu hennar, þá hlýtur hún að vera bygð á þeirri skoðun, að með því, sem gjörðist í ríkisráðinu 19. júlí í sambandi við úrskurð þann, er þá var út gefinn, sje rjettindum landsins stofnað í hættu, uppburðurinn gjörður að sammáli. Jeg skal láta ósagt, hvort úr því yrði bætt með einhliða yfirlýsingu þingsins svona eftir á, ef skoðun flutningsmannanna væri rjett, sem jeg ætla vera hina sömu, er Ingólfur hefir flutt nú upp á síðkastið. Væri svo, þyrfti minsta kosti miklu öflugri að gjörðir af þingsins hálfu en hjer er farið fram á. Þessi þingsályktunartill. væri allsendis ónýt. Ef þessi skoðun er röng, sem jeg tel efalaust, eins og jeg hefi þegar drepið á, þá er þingsályktunartillagan ekki einungis óþörf, heldur verri en það, því að hún hefir í sjer fólginn efa um það, sem ekki á að vera neinn efi um, og er jafnvel óhyggilegt að láta uppi nokkurn efa um. Það má ekki minna vera, en að hver sá maður, sem telur sig færann um þingmensku, geti gjört sjer sjálfum grein fyrir, hvort rjettindum landsins hafi hjer verið stofnað í hættu eða ekki. Sjerstaklega virðist mjer gjört nokkuð lítið úr þingmönnum, ef þeim er ekki treystandi til, að segja af eða á um það, hvort fyrirvaranum er fullnægt eða ekki. Annaðhvort er fyrirvaranum fullnægt eða ekki. Annaðhvort hefir ráðherrann breytt hjer rjettilega, eða hann hefir brotið á móti yfirlýstum vilja þingsins. Hafi hann brotið á móti vilja þingsins, á þingið að lýsa því einarðlega og láta hann fara úr ráðherrastólnum.

Þeir, sem aftur á móti eru sömu skoðunar og vjer um það, að hæstv. ráðh. hafi breytt rjett, þeim er skylt, að lýsa því jafneinarðlega, og mega ekki greiða atkvæði með slíku viðrini, sem þessi þingsályktunartillaga er, sem ekkert gagn getur gjört, heldur þvert á móti, að jeg ekki tali um, að það væri rangt af þeim, sem telja hæstv. ráðh. hafa gjört rjett, að samþykkja yfirlýsingu, sem varla getur skilist öðru vísi en svo, að hún hafi í sjer fólgna aðfinslu að gjörðum hans, enda svo á flutningsmönnum að heyra, að hún sje með vilja þannig orðuð, til þess að veiða hikandi sálir.