14.08.1915
Neðri deild: 33. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

99. mál, kornvöruforði

Ráðherra:

Jeg skal reyna að vera mjög stuttorður, enda ætti það að vera hægt, því að ræða háttv. flutnm. (S. E.) gaf ekki tilefni til svars í mörgum atriðum. Margt af því, sem hann sagði, var alveg rjett, t. d. það, að mál eins og þetta ættu að standa utan og ofan við alla pólitíska flokka, í hvaða landi sem væri. Um þetta er jeg honum alveg fyllilega samdóma, og vildi jeg óska, að svo yrði hjer.

Það var satt, sem háttv. flutningsm. (S. E.) sagði, að í fyrra var sú alda uppi, bæði í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og sjálfsagt víðar, að birgja löndin upp með matvöru á ríkiskostnað. Hins vegar er mjer ekki kunnugt um, hvort menn hafa nú fundið ástæðu til að gjöra sams konar ráðstafanir. Nú horfir þetta öðruvísi við en þá. Þegar við sátum hjer á þinginu í fyrra, var ófriðurinn að byrja. Þá var, eins og líka eðlilegt var, óróinn og hræðslan mest. Nú hefir færst miklu meiri ró yfir ófriðinn og hræðslan mikið minkað. Þar með er ekki sagt, að rjett sje og sjálfsagt að taka öllu með svo mikilli ró, að ekkert verði gjört. Það dettur engum heilvita manni í hug. Hjer er um það að ræða, hvaða afstöðu þingið eigi að taka til þessa máls. Hv. flutnm. (S. E.) sagði, að stjórnin þyrfti að heyra vilja þingsins. Ef dýrtíðarfrumv., sem samþykt hefir verið hjer í Nd. og afgreitt var frá Ed. í gær, verður að lögum, þá lít jeg svo á, að stjórnin hafi fengið nægilega að heyra vilja þingsins. Samkvæmt þessum lögum á að kjósa 5 manna nefnd, á sama hátt og í fyrra, stjórninni til aðstoðar og ráðuneytis um allar framkvæmdir og ráðstafanir, sem ófriðurinn gjörir nauðsynlegar. Í fyrra, þegar hræðslan var mest, voru gefin út sams konar lög, og stjórninni og nefndinni í sameiningu falið að gjöra þær ráðstafanir, sem í þessu efni væru nauðsynlegar.

Þá sáu menn ekki ástæðu til að bera fram sams konar tillögu og þessa, hvað þá að samþykkja hana. Hvað er það nú, sem gjörir það nauðsynlegt, að reka meira á eftir stjórninni í þessu efni en þá? Velferðarnefndin, sem væntanlega verður kosin í sameinuðu þingi, verður að sjálfsögðu skipuð trúnaðarmönnum þingsins. Jeg býst ekki við, að þingið hafi ástæðu til að vantreysta nefndinni, fremur nú en í fyrra. Jeg býst við, að í hana veljist jafngóðir menn og í fyrra og með jafngóðum vilja á að gjöra skyldu sína. Það má vitanlega segja, að nefndin verði skipuð skeikulum mönnum, eins og við erum allir. En nefndin í fyrra var líka skipuð skeikulum mönnum, og þingið er sjálft líka skeikult, og jafnvel háttv. flutnm. (S. E.). Ef þingið getur ekki nokkurn veginn treyst þeim mönnum, sem það velur í Velferðarnefndina, þá er það ekki ómaksins vert, að skipa þá nefnd.

Tillagan er orðuð sem áskorun til stjórnarinnar. Má segja, að með því að samþykkja hana sje ekki svo litlum vanda ljett af stjórninni í þessu efni. Jeg vil þó benda á, að þó að tillagan nái samþykki hjer í Nd., þá er ekki þar með sagt, að meiri hluti þingsins standi á bak við hana. Til þess að samþykkja tillöguna hjer þarf ekki nema 13 atkv. Ekkert er um það víst, hvernig Ed. lítur á þetta mál. Eins víst, að meiri hlutinn þar líti líkum augum á það og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Gæti því orðið hæpið fyrir stjórnina að fara eftir tillögunni, þó að hún flyti að eins í gegn um þessa deild.

Jeg skil vel, að háttv. flutnm. (S. E.) treysti ekki stjórninni eins vel til að ráða fram úr þessu vandamáli og hann treysti þeirri stjórn, þeim manni, er að völdum sat hjer á landi í fyrra. En jeg vil benda honum á það, að engin ástæða er til að væna væntanlega Velferðarnefnd því, að hún gjöri ekki skyldu sína. Og jeg get sagt það fyrir mig, að ef jeg sit áfram í því sæti, sem jeg sit nú í, þá mun jeg fara að ráðum meiri hluta Velferðarnefndarinnar í flestum tilfellum, eins og háttv. flutnm. (S. E.) gjörði í fyrra, þegar hann var ráðherra. Tel jeg, að hann hafi farið þar rjett að.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir tekið skýrt fram þau varhugaverðu atriði, sem snerta kaupsýsluhlið þessa máls. Við það hefi jeg engu að bæta. Út af því, sem hann sagði, að stjórnin þyrfti að kynna sjer, hve mikill vöruforði væri í landinu og hvaða ráðstafanir kaupmenn og kaupfjelög hefðu gjört, til þess að útvega vörur, þá skal jeg taka það fram, að stjórnin hefir þegar gjört gangskör að því, að afla sjer upplýsinga um þetta. Sýslumönnum hefir verið símað, eins og í fyrra, og þeir beðnir að senda stjórninni skýrslur um þessi efni. Málið horfir líkt við mjer og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að varhugavert sje, að ráðast í forðakaupin, fyrr en þessar upplýsingar eru fengnar. Enda verður gengið eftir því, að þær komi sem fyrst.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til, að fara frekar út í málið að svo komnu.