16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

99. mál, kornvöruforði

Guðmundur Hannesson:

Jeg þyrði að vera með þessari tillögu, hvað sem stjórninni og flokkunum liði, ef ekki væri annað til fyrirstöðu. En jeg get það ekki, vegna þess, að hjer þykir tvísýnt, að nokkur nauðsyn sje á því, að stjórnin fari að brjótast í þessu, einmitt nú þegar. Jeg hefi áður fært ástæður fyrir þessari skoðun, og ekki heyrt þeim hnekt enn þá.

Hvað á að vinna með þessum matvörukaupum? Jú, það á að tryggja það, að matur sje til í landinu, sökum þess, að skipagöngur geti tepst. Það er sjálfsagt gott eitt, sem vakir fyrir tillögumönnum, en hingað til hefir enginn bent á nein líkindi til þess, að aðflutningar að landinu teppist. Eitt af tvennu hlýtur að verða, að Norðurlönd sleppi við ófriðinn eða sleppi ekki. Ef þau nú sleppa við hann, þá er nálega óhugsandi, að skipagöngur hingað heftist. Að vísu gætu samgöngurnar stöðvast að nokkru leyti við Danmörku um styttri tíma, t. d. ef sjóorustur geisuðu í Norðursjónum; en þó að slíkt bæri við, þá fer því fjarri, að um nokkra siglingateppu væri að tala, því að alt af yrði opin leið til Þrándheims og líklega alla leið til Björgvinjar. Hve stórfeldar sjóorustur sem ættu sjer stað, þá gætu þær aldrei heft umferð milli Íslands og Noregs, enda hefði slíkt enga hernaðarlega þýðingu. Og svo væri þá auk þess eftir leiðin til Ameríku.

En nú er að líta á hitt, — og það gjöri jeg ráð fyrir að vaki aðallega fyrir þeim, sem farbannið óttast, — að Norðurlönd lendi í ófriðnum, og þá sennilega fyrst og fremst Danmörk, sem kynni að lenda í ófriðnum, ef herfloti brytist gegn um sundin. Þetta ætti þá að valda flutningateppu frá Danmörku. Þó svo færi, er eigi að síður engin hætta á ferðum. Ætli það yrði þá ekki fyrsta verk Breta, að senda þennan »Digby«, sem hjer hefir verið að flækjast, eða annað slíkt skip hingað og láta setja fána sinn til bráðabirgða upp á aðra hvora stöngina hjá stjórnarráðinu? Jeg tel lítinn vafa á því. Og dettur þá nokkrum heilvita manni í hug, að Englendingar láti oss svelta, ef þeir taka yfirráðin yfir landinu til bráðabirgða, þjóð, sem þykist vernda smáþjóðir og sjer jafnvel öllum herföngum fyrir öllum nauðsynjum? Nei, þeir gætu aldrei látið það við gangast, að þjóð skorti mat, sem þeir hefðu sjálfir útilokað frá venjulegum samgöngum. Og að þeir ættu í ófriði við Danmörku, án þess að skifta sjer neitt af Íslandi, það er ótrúlegt, þar sem þeir sendu hingað skip og mann til að líta hjer eftir öllu þegar í byrjun stríðsins.

Af þessu og mörgu fleira kemur mjer fátt meir á óvart en það, ef skipagöngur hjer til lands skyldu teppast. Í raun og veru er að eins ástæða til þess, að sjá Norðurlandi, sem ísinn getur lokað, fyrir nægilegri matvöru, ef skýrslur þaðan sýna, að verslanir hefðu lítinn forða, en þessi nauðsyn er ekki ný og kemur í raun og veru ekkert ófriðnum við.

Þó landið þyrfti að kaupa matvöru, þá er óvíst hvort það þyrfti að sækja hana fyrir sinn reikning til útlanda. Næst lægi að leita fyrir sjer hjá íslensku umboðssölunum og sjá hver boð þeir gætu boðið. Þó flutningar teptust ekki, þá kynni vörukaup að vera rjettmæt í því skyni að lækka verð á vörum, sem kynnu að vera óhæfilega dýrar hjá kaupmönnum. Þetta er í mínum augum helsta ástæðan til matvörukaupa, því aðflutningsteppan er grýla ein. Aftur er nokkru öðru máli að gegna með kol og steinolíu, jafnvel salt. Það gæti vel komið fyrir, að Bretar bönnuðu allan útflutning á kolum, en oss er lífsnauðsyn, að útvegsmenn vorir lendi ekki í vandræðum með þessar vörutegundir.

Að kaupa nú matvöru í stórum stýl, er að mínu áliti mjög athugavert, meðal annars vegna þess, að vörur eru nú mjög dýrar, en geta fallið til mikilla muna í verði, og yrði þá stór skaði á versluninni fyrir landssjóð. Víst er um það, að allir segja, að þær hljóti að falla að miklum mun, ef Dardanellasundið opnast. Og einmitt nú telja erlendu blöðin að líkur sjeu töluverðar fyrir því, að svo fari áður langt um liður.

Jeg held sem sagt, að þessi tillaga sje ráð í góðri meiningu gefið, en ekki allskostar viturlegt og sprottið af ástæðulausri hræðslu.