10.08.1915
Efri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Framsögum. (Guðmundur Ólafsson) :

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það; sem jeg tók fram við 1. umr. og í nefndarálitinu. Eins og nefndarálitið sýnir, höfum við, sem nefndina skipum, ekki orðið á eitt sáttir. Tveir hv. meðnefndarmenn mínir hafa skrifað undir með þeim fyrirvara, að leitað sje álits hreppsnefnda, og málinu því frestað .um sinn. Jeg gæti verið á sama máli, ef um aukin útgjöld eða mikla fyrirhöfn, umfram það sem nú er, væri að ræða, en þar sem ekkert slíkt er til fyrirstöðu, sje jeg ekki ástæðu til frestunar. Hjer er að eins farið fram á, að þessar kosningar sjeu framkvæmdar á sama hátt og aðrar kosningar, er svipað stendur á með, þar sem sú aðferð er viðurkend betri. Fágætt er það að vísu, þó gott sje, að Alþingi hafi álit þjóðarinnar að styðjast við í hverju einstöku tilfelli. Get jeg látið þetta nægja að sinni, því þótt nefndarálitið sje ekki langt, sýnir það þó ljóslega, hvað fyrir mjer vakir.

Um brtt. hefir nefndin öll verið sammála. Þó vildi jeg óska þess, að 1. liður fyrri brtt. sje tekinn aftur; hann hefir misprentast, og í hans stað komi svo brtt. frá nefndinni við 3. umr. Um seinni liðinn er það eitt að segja; að ætlast er til, að töluröðin sje áframhaldandi framan við nöfn þeirra, sem kjörgengir eru, en ekki við þá, sem að eins hafa kosningarrjett. 2. brtt. er að eins breyting til betra máls. 3. brtt. við 5. gr. bætir því við, að seðill skuli ógildur, ef fleiri tölur eru á en þeir, sem kjósa skal. Þessar breytingar álit jeg hafi verið nauðsynlegar.