18.12.1916
Neðri deild: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

2. mál, útflutningsgjald af söltuðu sauðakjöti

Einar Jónsson:

Það kann að vera, að mín afstaða sje ekki hin sama og annara hv. þm., til þess, sem gjöra skuli og ógjört skuli vera látið, í þetta sinn. Jeg vil ekki, að þingið taki nú til meðferðar annað en nauðsynleg mál, sem ekki geta beðið. Hjer er öfugt að farið. Leitað eftir auknum tolli á smá vörutegundum, í stað þess að endurskoða tolllöggjöfina í heild sinni, og koma með tillögur um hagkvæmt fyrirkomulag um skattagrundvöll í einni heild. Jeg sakna þess ætíð, að eigi er tekið meira tillit skattanefndarinnar frá 1907, því sú nefnd athugaði skattagrundvöllinn rækilega, og gjörði skynsamlegar tillögur um nýtt fyrirkomulag. Tel jeg síðan mjög tvísýnt, að betur takist að breyta á annan hátt. Er því að minsta kosti mótfallinn, að verið sje að elta einstakar vöru»sortir« með auknar tollálögur, sem gjörir eigendunum framleiðsluna til muna erfiðari, en landssjóð munar sára litlu.

Jeg vildi helst óska, að frv. yrði þegar tekið aftur, eða deildin vildi að öðrum kosti fella það þegar í stað.