11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefir nú flutt allanga ræðu móti þessu frv., og er eigi um að efast af hverjum toga ummæli hans eru spunnin. Vilji hans er auðsær, sem sje að koma tollfrv. gegnum þingið, en koma þessu frv. á einhvern hátt fyrir kattarnef, t. d. með þessari rökstuddu dagskrá. Væri hægt að koma því í kring, að tollfrv. gangi gegnum þingið, en þetta dagaði á einhvern hátt uppi, þá væri meiri von um, að takast mætti að aftra því, þótt það kæmi fram á næsta þingi.

Ræða háttv. þm. (Þorst. J.) bar þess ljósastan vottinn, að þessi sje hugsun hans, enda þótt hann væri í öðru veifinu að færa aðrar ástæður fyrir frestuninni, svo sem óttann fyrir óbilgirni Norðmanna. Annars er kynlegt, að heyra þennan háttv. þm. vera að gefa í skyn, að vjer getum átt von afarkosta af hendi hinnar mjög svo vinveittu frændþjóðar vorrar.

Annars verð jeg að segja það, að jeg þekki ekki neitt atvik, er bendi svo sjerstaklega á vináttuþel Norðmanna til vor „á borði“. Hitt hefi jeg oft heyrt, að þeir eru allvingjarnlegir „í orði“, en eigi höfum vjer orðið feitir af því.

Þessum háttv. þm. finst ekki nema eðlilegt, að vjer íþyngjum sjávarútveginum, og þá einkum síldarútveginum, af því, að hann sje hættulegur keppinautur landbúnaðarins, hækki vinnulaunin, og taki til sín vinnukraftinn. En má jeg spyrja. Hafa íslenskir daglaunamenn of há vinnulaun? Jeg hygg, að þeim verði full erfitt að draga fram lífið, þótt launin sje þetta há.

Og hvað það snertir, að útvegurinn dragi fólk frá landbúskapnum, þá eru það ekki hvað síst Norðmenn og Svíar, er það gjöra. Annars verð jeg að segja það, að ef einhver atvinnuvegur getur eigi staðist samkeppnina, þá er eigi neitt hjálpráð í því, að ama þeim atvinnuveginum, sem ber sig betur, heldur að hlynna að þeim, sem miður stenst samkeppnina. Því á ekki að ama sjávarútveginum fyrir það, að hann er fær um að borga vinnulýðnum sæmilegt kaup, heldur að styðja landbúnaðinn svo, að hann geti staðist samkeppnina, t. d. með því, að gjöra landbændum fært að bæta svo jarðir sínar, að þeir geti notað vinnuvjelar til að spara mannsaflið sem mest. Að því ætti þing og stjórn að styðja, meðal annars með því, að koma á fót hentugri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn.

Þegar þessi hv. þm. (Þorst. J.) kemur fram með tillögu í þá átt, þá skal ekki standa á mjer að styðja hana.

En þrátt fyrir ágæti landbúnaðins, álít jeg samt, að sjórinn kring um land vort sje mesti og besti Vitazgjafinn, sem aldrei verður ófrær neitt ár, ef rjettra bragða er í leitað, og að þaðan getum vjer vænst mestrar bjargar í framtíðinni.

Jeg fæ því eigi sjeð, að neinu því sje bót mælandi, sem dregur úr framkvæmdum sjávarútvegsmanna.

Og þótt Norðmenn eða aðrar þjóðir viti það, að vjer viljum styðja þann atvinnuveginn, sem veitir oss mestan beinan og óbeinan arð, þá sje jeg eigi, að það geti með sanngirni verið þeim neitt þykkjuefni.

Jeg vænti þess því fastlega, að þeir háttv. deildarmenn verði fáir, sem láta telja sig á þá óhæfu, að samþykkja tollfrumvarpið en hafna verðlaunafrv.